18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3624 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Það er ekki vegna frv. sjálfs, sem jeg stend upp, heldur vegna ummæla, sem fjellu frá hæstv. forsrh. (JÞ) og háttv. 1. þm. Reykv. (JakM). Jeg er einn þeirra manna, sem ætla að greiða atkvæði með þessu frv. nú, þótt jeg sje að mörgu leyti óánægður með það, og ætla að leggja það á vald næsta þings, hvort það samþykkir það endanlega eða ekki.

Hv. 1. þm. Reykv. fordæmdi sterklega þinghald annaðhvert ár og sagði, að það þyrfti að leita 50 ár aftur í tímann til þess að finna slíkt íhald. En það eru ekki 50 ár, heldur 15–20 dagar síðan hv. 1. þm. Reykv. var sjálfur fylgjandi þessari breytingu. 26. f. m. kom nál. frá meiri hluta stjórnarskrárnefndar þessarar deildar, þar sem hún tjáði sig fylgjandi þinghaldi annaðhvert ár. Hv. 1. þm. Reykv. var meira að segja framsögumaður nefndarinnar. Að vísu fylgdi meira með; það átti að leggja niður landskjörið. En sem sagt, þetta afarramma íhald fylgdi líka, og þó gat hv. 1. þm. Reykv. verið með þessu þá. Þó jeg sje vanur að kveinka mjer, þegar góðir menn, eins og hv. 1. þm. Reykv., bendla mig við íhald, þá get jeg þó ekki tekið þetta svo nærri mjer, þar sem hv. þm. er sjálfur svo mjög undir sömu sökina seldur.

Þá var hæstv. forsrh. að lýsa því, hvers vegna hann væri með þinghaldi annaðhvert ár, en þeim ástæðum hans má ekki vera ómótmælt. Hann sagði, hæstv. ráðherra, að fjárhagsástæðum þjóðarinnar væri ofboðið með því, að á hverju ári sæti þing, sem stofnaði til nýrrar útgjaldaaukandi lagasetningar. Þetta þykir mjer koma úr hörðustu átt, að hæstv. ráðherra skuli beina því til þingsins, að það hafi ofboðið fjárhag þjóðarinnar. Það er fjármálastefna hæstv. stjórnar, sem hefir ofboðið fjárhag þjóðarinnar. Það var hæstv. stjórn, sem hækkaði verðgildi peninganna og knjesetti með því atvinnuvegi landsins á heljar þröm. Um það atriði hafði þingið þó látið í ljós vilja sinn, en hæstv. stjórn braut á móti því. Þá kom það einnig úr hörðustu átt, er hæstv. ráðh. sagði, að það væri erfitt að standa á móti löggjöf, sem hefði útgjöld í för með sjer. Á þessu þingi hefir hann sjálfur borið fram 2 frv., sem hafa stórkostlega útgjaldaaukningu í för með sjer, frv. um samskólana og heimavistir við hinn almenna mentaskóla. Þarna hafði landið efni á að reisa tvö stórhýsi í Reykjavík, um leið og klipt var af nálega hverri einustu fjárveitingu til vegagerða í landinu. Hæstv. ráðh. var og aðalforgöngumaður þess, eftir að búið var að sníða af öllum fjárveitingum til vegagerða, að berjast fyrir því, að haldið yrði áfram byggingu landsspítalans, en vel mátti fresta því um stund. Jeg vil því kröftuglega mótmæla þessum ástæðum hæstv. forsrh. sem forsendum fyrir þinghaldi annaðhvert ár. Jeg hefi áður tilgreint mínar ástæður og sje ekki þörf á því að endurtaka þær hjer.