13.04.1927
Neðri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

44. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg hefi í rauninni litlu við það að bæta, sem jeg sagði í framsögu við 1. umr., og það, sem fram er tekið í nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 293. Aðeins vil jeg geta þess, að meiri hl. getur ekki hallast að frv. óbreyttu, en leggur til, að það verði samþ. með þeim breytingum, sem gerðar voru í hv. Ed. í fyrra, að því viðbættu, að laun ljósmæðra í sveitaumdæmum verði greidd að 2/3 hlutum úr ríkissjóði og 1/3 úr sýslusjóði. Meiri hl. telur, að sýslusjóðirnir eigi erfitt með að jafna niður þeim gjöldum, sem þeir þarfnast, og telur eigi síður ástæðu til, að laun þessara starfsmanna sjeu greidd úr ríkissjóði en laun annara opinberra starfsmanna. Meiri hl. lítur svo á, að þetta sje svo mikilsvarðandi mál fyrir heilbrigðismálin í landinu, að ekki verði gengið á móti sanngirniskröfum í þessu efni. Nú er um það að ræða, hvort við eigum að hverfa aftur að hinu gamla skipulagi, að ástandið verði þannig, að þessi störf verði að mestu í höndum ólærðra kvenna. Nefndin hefir ekki fengið neinar nýjar upplýsingar um ástandið í þessu efni, en enginn vafi er á því, að lærðum yfirsetukonum fer fækkandi ár frá ári. Aðsóknin að ljósmæðraskólanum er nú svo lítil, að hvergi nærri getur fullnægt þörfinni. Það hefir jafnvel af þessum ástæðum ekki þótt verða hjá því komist, að skipa algerlega ólærðar yfirsetukonur. Hefir nefndin fengið upplýsingar um eitt slíkt tilfelli, og auðvitað verða meiri brögð að því, eftir því sem lengra líður. Úr þessu verður ekki bætt, nema með því að gera starfið aðgengilegra en það er nú, með því að bæta kjörin. Kjörin þurfa að vera eitthvað betri en hægt er að fá án nokkurrar undirbúningsmentunar. Eins og nú er, er stúlkum í lófa lagið að vinna sjer inn jafnmikið eins og ljósmæður hafa í laun, jafvel með einföldum vinnukonustörfum.

Því hefir verið hreyft til andmæla gegn hækkun þessara launa, að óhjákvæmilegt yrði þá að hækka laun annara starfsmanna, svo sem hreppstjóra. En allir hljóta að sjá, að hjer er tvennu ólíku jafnað saman. Þó að hreppstjórar hafi með höndum vandasöm og mikilsverð störf, þá þarf þó ekki sjerþekkingu til að geta int þau af hendi. Sama er að segja um önnur sveitarstjórnarstörf, sem er borgaraleg skylda hvers manns að taka að sjer. En það er ekki hægt að neyða neinn til að búa sig undir ljósmóðurstarfið. Störf yfirsetukvenna eru alls ekki sambærileg við slík störf. Þau eru aðeins sambærileg við önnur embættisstörf, sem krefjast sjerstakrar þekkingar og mentunar. Og það er mín trú, að þó að við samþykkjum þessa hækkun nú, þá liði ekki á löngu áður en við verðum að fara hærra. Kröfurnar verða stöðugt meiri, sem gerðar verða til þekkingar þessara starfsmanna. Það er heldur ekki neinn vafi á því, að það borgar sig, að hafa vel mentaðar yfirsetukonur, eins og það borgar sig, að hafa vel mentaða læknastjett. Það borgar sig á þann hátt, að dauðsföllum fækkar og heilsufarið batnar.

Með þeirri byrjunarhækkun, sem hjer er farið fram á, mun aukningin á framlagi ríkissjóðsins varla fara yfir 40 þús. kr. Jeg hefi fengið hjá stjórnarráðinu skýrslu um, hve mikill hluti ríkissjóðs hafi orðið að undanförnu, og hefir hann numið um 25½ þús., og samkv. því álít jeg, að hækkunin verði þessi. Auðvitað hljóta gjöldin að vaxa, eftir því sem frá líður og ljósmæðrum fjölgar, en fyrst í stað eru það aðeins lágmarkslaun, sem greiða þarf.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta, nje svara nál. hv. minni hl. fyr en hv. frsm. hefir talað.