28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

32. mál, kosningar til Alþingis

Jón Guðnason:

* Jeg get ekki skilið í því, hvers vegna hv. þm. V.-Sk. (JK) finst þessi brtt., sem hjer liggur fyrir, svo óaðgengileg. Þetta ákvæði í fyrri hluta brtt., um að talning atkvæða megi ekki fara fram fyr en ætla megi, að komin sjeu til yfirkjörstjórnar öll þau atkvæði kjósenda í kjördæminu, er greidd hafi verið utan kjördæmisins á kjördegi. Þetta ákvæði er mjög svipað því ákvæði, sem nú er í gildandi kosningalögum, en vegna þess frv., sem hjer er á ferðinni, og er samferða þessu frv., þá hefi jeg komið með þessa till., þar sem fyrst er tekið fram alment, að ekki megi telja atkvæðin fyr en ætla megi, að öll atkvæði sjeu komin, en sett svo lágmark tímans, ekki minna en 4 vikur. Það er nefnilega augljóst, að ef þau nýmæli komast á, sem farið er fram á í frv. hjer næst á eftir, þá getur það aldrei átt sjer stað, að talning fari fram fyr en 4 vikur eru liðnar frá því, að kosning fór fram. En hinsvegar verður reynslan að sýna, hve langan tíma muni þurfa þar fram yfir.

Eins og við vitum, þá er það samkvæmt núgildandi kosningalögum svo, að yfirkjörstjórn tiltekur tímann, þegar talning fer fram, eftir því sem hún álítur, að trygt sje, að atkvæðakassar úr öllum hreppum sjeu komnir á sama stað, og það er eins og menn vita, mjög misjafnt í ýmsum stöðum, af því að kassarnir eru svo misjafnlega lengi á leiðinni; í sumum kjördæmum er talið eftir 1–2 daga, en í sumum geta liðið nokkrar vikur. Jeg lít svo á, að ef frv. hjer á eftir verður samþykt, þá sje ekki rjett að fastákveða tímann, þegar talning eigi að fara fram, eins og gert var í till., sem lá hjer fyrir við síðustu umr., og af því að jeg hafði ástæðu til að ætla, að sú till. yrði feld, þá kom jeg fram með þessa brtt.

Ræðubundr. óyfirlesið af þm.