12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Jeg ætla að segja fáein orð, þótt jeg hafi reyndar gert grein fyrir minni skoðun við 1. umr. þá sýndi jeg fram á, á hverju okkar fiskiveiðar væru bygðar og allir okkar bjargræðisvegir til þessa, sem sje á ósjerhlífni og dugnaði einstaklingsins, og jeg sje ekki ástæðu til að breyta þar um. Þegar farið er að skerða þá sjálfsögðu skyldu hvers borgara með lögum í einni grein, þá er annari grein hætt. Jeg skil ekki þann eltingaleik, sem fram fer á Alþingi ár eftir ár, eftir þeirri löggjöf, sem fyrirskipar, að í stað ósjerhlífni og dugnaðar komi ómenska og sjerhlífni, að tilhlutun þeirra manna, sem ekkert þekkja til og ekki vita hvað þeir eru að segja. Hjer er aðeins ein grein, sem verið er að taka út úr samhengi dugnaðarins gamla. Að vísu er sá fjelagsskapur, sem berst fyrir þessu, ungur, svo að í kenningum hans felst töluverður barnaskapur. Sjerstaklega er það eftirtektarvert, að þessi fjelagsskapur er upphaflega til orðinn fyrir tilstilli þeirra manna, sem aldrei hafa drepið hendi sinni í kalt vatn. Forsvarsmenn hans eru menn eins og hv. 4. þm. Reykv. (HjV), sem ekkert þekkir til vinnubragða, hvorki á sjó nje landi. Forkólfarnir eru auk þess ýmsir þeir, sem ekki þóttu flytjandi sem hásetar á sjó í minni tíð. Á einhverju þurfa þeir nú að lifa, og því koma þeir ár eftir ár með eitthvað, sem þeir geta rjett að sjómönnum og sagt: „Sko, hvað jeg hefi verið duglegur!“ Svo verða þeir að fá sínar 6–7 þúsund krónur fyrir. Fyrst smeygja þeir inn lagagreinum um að menn þurfi ekki að vinna, en líta ekki á það, sem mestu varðar fyrir hásetana sjálfa, og þá, sem þeir vinna fyrir, sem er dugnaður og ósjerhlífni. Hvernig færi t. d. í Vestmannaeyjum, ef þar væri bannað að róa fyr en kl. 6 að morgni? Jeg verð að segja, að í þau 20 ár, sem jeg stundaði sjómensku, voru kjör sjómanna miklu verri en nú. Þeir fengu ekki almennilegt að jeta og vinnubrögðin voru þó miklu strangari en þau eru nú. Samt eru þeir menn ennþá fullfrískir og vel vinnandi. Þetta er nú reynsla af hinum úttauguðu sjómönnum. Það er ekki hægt að bera því við, að sjómennirnir endist ekki fyllilega á við aðra menn. Það er verið að telja fólki trú um, að skrifstofumenn og þeir, sem vinna andlega vinnu, sjeu miklu betur settir en aðrir. Þetta er einmitt argasti misskilningur. Það er hreinasta skilningsleysi að halda, að líkamleg vinna, þó að ströng sje á köflum, sje óholl og ill vinna. Óhollasta og erfiðasta vinnan er sú, að sitja á skrifstofum og vinnustofum mestan hluta dagsins, allan ársins hring.

Jeg er því algerlega á móti lögum um þetta efni. Lögin frá 1921 voru sett af þessum sömu ástæðum. Þessir menn, sem eru þarna á vakki sýknt og heilagt utan í sjómannastjettinni, þurfa á slíkum lögum að halda til þess að halda stöðu sinni sem forstöðumenn stjettarinnar. Hv. frsm. (HjV) hefir tekist að útvega sjer undirskriftaskjal frá sjómönnum, fengið fyrir dugnað iðjuleysingjanna. Jeg vil ekki safna slíkum skrifum til að styrkja minn málstað, þó að jeg efist ekki um, að það tækist. Jeg veit að minsta kosti um ein 10 skip, sem alls ekki óska eftir þessu. Að vísu eiga iðjuleysingjarnir skilið að rölta eitthvað fyrir þetta kaup sitt, enda gera þeir það dyggilega.

Jeg er ekki sannnála hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um það, að gera eigi tilsvarandi lækkun á kaupgjaldi sjómannanna. Það er ekki rjett, nema þegar mest fiskast, að nota vökulögin; allir verða að leggja fram það, sem þeir geta. Við hitt fá þeir miklu meira, þegar litið er um, og mjög mikið meiri hvíldartíma heldur en vinnutíma, þegar lítið er að gera. En það skiftir ekki svo miklu máli, þótt þessi skilningur, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir bent á, verði lagður í lögin. Það mætti nota þessa aðferð. En jeg verð alveg að mótmæla því, að það sje nokkur þörf á því, að setja með lögum meiri hvíldartíma, þar sem það er vitanlegt, að sjómenn fá þann tíma, sem til felst. Það getur hist svo á stundum, að matmálstími sje í þessu. En til þess að geta dæmt um þetta, verða menn að þekkja til á skipunum.

Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett, að vera að eltast við þessa einu atvinnugrein, því að það er þá heldur ekki hægt að komast hjá því, að setja lög um ýmsa aðra atvinnu.