05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

69. mál, hvalveiðar

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Jeg þarf aðeins að segja örfá orð út af þeim ummælum hv. þm. Barð., að ómögulegt muni reynast að fá fje til þessa fyrirtækis, þar sem svo erfitt sje að fá rekstrarfje til atvinnuveganna yfirleitt.

Jeg get fallist á, að erfitt sje oft að útvega fje, en jeg vil benda á, að það getur verið auðvelt að afla fjár til eins fyrirtæki, þó að erfitt sje að afla þess til annars. Hvalveiðar þykja mjög arðvænlegar, og vel getur verið, að hægt sje að fá fje til þeirra. Ástandið er ekki efnilegt með ýmsan okkar rekstur til sjávarins, t. d. hinn stærri bátaútveg, sem hefir valdið landsmönnum miklum töpum. Jeg álít það mjög öfuga stefnu hjá hv. Alþ., ef það vill ekki gefa þeim mönnum, sem hafa vilja og dugnað til þess, tækifæri til að breyta til. Jeg get upplýst, að þessi atvinnugrein er í miklu áliti hjá Norðmönnum. Þeir hafa um 120 skip í suðurhöfum, og gert er ráð fyrir afurðum fyrir 90 miljónir kr. Þess utan hafa þeir rekið hvalveiðar talsvert hjer í norðurhöfum.

Jeg vil benda þeim hv. þm., sem halda, að hjer sje á ferðinni einhver „hókuspókus“, að í 2. gr. frv. er tekið fram, við hvað sjerleyfið sje bundið. Það er bundið við íslenska ríkisborgara og ákveðinn fjölda veiðiskipa. Það er engin ástæða til að vera myrkfælinn við þetta.

Jeg vil ekki gera jafnlítið úr því, að hafa hval til neyslu, eins og hv. þm. Barð. (HK). Hvalur var áður etinn um þvert og endilangt Ísland og þótti hin hollasta og ódýrast fæða. Nú flytjum við hval inn frá Færeyjum, og hann er rándýr. Jeg vildi mjög gjarnan stuðla að því, að landsmenn ættu aftur kost á að afla sjer þessarar ódýru en ágætu fæðu.