13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Fyrir hönd meiri hl. mentmn. skal jeg skýra þetta mál nánar en gert er á þskj. 328, og eins hitt, hvernig á því stendur, að nefndin hefir skilað 2 nál.

Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á, eftir að hafa leitað álits dóms- og kirkjumálaráðherra, að það sje ekki tímabært að afgreiða þetta frv. nú, og ekki sje ráðlegt að stofna fleiri húsmæðraskóla en nú eru fyrir, áður en fast skipulag er fengið um skóla þessa. Vill meiri hl. nefndarinnar því vísa málinu til hæstv. stjórnar og ræður hv. þd. til að afgreiða það með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin taki húsmæðrafræðslumálið til rækilegrar yfirvegunar og leggi svo fljótt sem verða má fyrir Alþingi tillögur sínar um skipun þess, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

En áður en gengið er til atkvæða um málið, vil jeg fara nokkrum orðum um ágreiningsatriðin milli meiri hl. og minni hl. nefndarinnar.

Hv. minni hl. vill, að málið sje afgreitt á þessu þingi, en það vill meiri hl. ekki, af þeim ástæðum, sem teknar eru fram á nál. hans á þskj. 323.

Jeg skal þá víkja að einstökum atriðum í nál. hv. minni hl. Hann telur stað þann, er skólanum er ætlaður, heppilegan vegna náttúrufegurðar og annara staðhátta. Það mun þó ekki meiningin, að þennan skóla skuli reisa á Hallormsstað, heldur á Ormsstöðum, sem er hjáleiga þeirrar jarðar. Hv. minni hl. drepur líka á þetta og segir, að á Ormsstöðum sjeu mjög góð skilyrði fyrir slíkan skóla. Þar megi verða mikil tún- og garðrækt, og þar sje mikill eldiviður við hendina. Jeg skal nú ekki fara nánar út í þetta, heldur skal jeg minnast á annað atriði í nál. hv. minni hl., þar sem segir, að konur hafi nú beðið nógu lengi eftir því, að geta átt kost á heppilegri húsmæðrafræðslu. Þetta álít jeg að sje þröngur hringur dreginn um sjermentun kvenna, því að jeg tel, að ekki sje einasta nauðsynlegt að auka mentun kvenna á því sviði, sem frv. ætlast til, heldur einnig á öðrum sviðum.

Hv. minni hl. telur það mæla með því að frv. sje afgreitt nú, að völ sje á forstöðukonu fyrir skólann, þar sem er frú Sigrún Blöndal. Jeg veit að vísu ekki til, að hún hafi aflað sjer nokkurrar sjermentunar í þessari grein. Hv. minni hl. tekur það fram, að mikið velti á því, hver forstöðukona skólans sje. Þar er jeg á sama máli.

Jeg álít nú, að þetta mál hafi fengið allgóðar undirtektir, þar sem telja má víst, að veittar muni verða á fjárlögum 1928 1500 kr. til þess að frú Sigrún Blöndal geti hafið þessa starfsemi, þótt í smáum stíl sje. Þetta sýnir fult traust á henni, og eins hitt, að Alþingi er því ekki mótfallið, að Austfirðingar fái sinn húsmæðraskóla á sínum tíma. En jeg hygg, að ekki sje rjett að gera frekari framkvæmdir fyr en skipulag er komið á um húsmæðrafræðsluna yfirleitt.

Jeg vil líka taka það fram, að í nefndinni hreyfði jeg því, hvort ekki væri tiltækilegt, þá er húsmæðraskóli væri stofnaður á Austurlandi, að hafa hann á Eiðum, þar sem fyrir er ríkisskóli. Og gegn þeirri hugmynd hafa ekki komið fram nein mótmæli. Jeg benti líka á það, að mjer sýndist Hallormsstaður síst betur fallinn til skólaseturs en Eiðar. Á Hallormsstað, þeim fagra og skógríka stað, ætti fremur að koma upp hressingarhæli fyrir þá, sem verið hafa hvort heldur er á heilsuhælum eða almennum sjúkrahúsum, en eru þó ekki svo veikir, að þeir þurfi að hafa þar lengri dvöl. Þetta segi jeg bara alment um málið.

Að svo mæltu vil jeg leyfa mjer að mælast til þess, að hv. þd. samþ. hina rökstuddu dagskrá á þskj. 328.