20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Það hefir verið spáð hjer ,andláti‘ mínu, en jeg læt mjer það í ljettu rúmi liggja. Jeg vildi þá fyrst svara hv. 1. landsk. nokkrum orðum. Hv. þm. tók það fram í ræðu sinni, að það væri ekki mikið, sem okkur greindi á í þessu máli, og hið sama tók jeg einnig fram í 1. ræðu minni um daginn. Hinsvegar taldi hv. þm. það málinu til óþurftar, að vísa því frá nú, til þess að fá heildartill. um málið. Jeg get slegið tvær flugur í einu höggi og svarað hv. 1. landsk. (JJ) og hv. flm. (IP) í einu viðvíkjandi tilmælum þeirra um, að jeg komi með ákveðnar till. í þessu máli. Jeg get þá sagt þeim, að það er tæplega hægt að heimta það af mjer, að jeg komi hjer fram með ákveðnar till., þar sem jeg hefi lagt það til, að mál þetta alt verði rannsakað af hæstv. stjórn og það lagt fyrir næsta þing. Hitt væri aðeins kák, til þess eins, að láta lesa það í þingtíðindunum. Annars bið jeg rólega dóms í þessu máli. Jeg get kannast við það, að hæstv. stjórn hafi ekki sjerfræðiþekkingu í þessum málum, en jeg álít, að stjórnin, ef hún skoðar sig ekki færa til þess að rannsaka málið sjálf, þá leiti hún til sjerfræðinga í því efni. Jeg dreg það fullkomlega í efa, að kvenfjelögin sjeu bestu ráðunautarnir um þessi mál, því að enda þótt margar konur innan fjelaganna beri á þau gott skyn, þá hygg jeg samt betra að leita til einnar eða fleiri kvenna, sem hafa sjerstaka þekkingu og reynslu í þessu efni. — Hv. 1. landsk. mintist á þann gróður, sem væri að lifna hjá þjóðinni í mentunarlegu tilliti. Þetta er alveg rjett. Og jeg álít, að sá besti arfur, sem mönnum er látinn í tje, sje góð mentun. En jeg hygg, að það ætti ekki að draga úr þessum gróðri, að vísa þessu máli til betri undirbúnings. Jeg álít, að það sje sú leiðin, sem heppilegust sje til þess að ráða máli þessu skynsamlega til lykta.

Hv. 1. landsk. sagðist geta játað þá skoðun mína rjetta, að skólinn á Hallormsstað væri of stór. Það er gott. Jeg álít, að rjettara væri að byrja smærra og færa smám saman út kvíarnar, í stað þess að láta skólann standa mikið til tóman og þar af leiðandi verða óþarflega dýran í rekstri. Þá benti hv. 1. landsk. á það, að nú sje byrjaður húsmæðraskóli á Staðarfelli; og taldi hann, að hægt mundi að reka hann fyrir landssjóðsstyrkinn, sem nú er ákveðinn í fjárlögum. Einnig sagði hv. þm., að Blönduósskólanum hafi verið breytt í samræmi við óskir hjeraðsbúa. Hv. 1. landsk. benti rjettilega á það, að austfirskar konur væru nú vaknaðar til dáða í þessum efnum. Jeg hefi aldrei efast um framtakssemi austfirskra kvenna, og jeg fæ aldrei of oft tækifæri til þess að láta í ljós álit mitt á þeim.

Þá benti hv. þm. á það, að í uppsiglingu væri húsmæðraskóli við Laugaskólann og að farið væri fram á 11 þús. kr. ríkissjóðsstyrk í þessu skyni. En jeg vona það, að allar heilbrigðar óskir og tillögur hjeraðsbúa um þessi mál, hvort heldur er í Þingeyjarsýslu eða Múlasýslu, nái fram að ganga, annaðhvort nú, ef þau eru nægilega undirbúin, eða síðar, þegar þau hafa verið athuguð rækilega. En jeg álít það til tjóns, að ráðast í stofnun fleiri húsmæðraskóla en þegar er gert, að óathuguðu máli, eða án frekari undirbúnings.

Í fyrstu ræðu minni fann jeg að því, að hv. 1. landsk. hafði borið eyfirskum konum það á brýn, að þær af öfund til þingeyskra kvenna hefðu tilhneigingu til þess að tefja fyrir máli þeirra. Að konur á Akureyri hafa ekki notað heimildarlögin til stofnunar húsmæðraskóla fyr, er af eðlilegum ástæðum. Fyrst og fremst er það vegna ófriðaráranna, og auk þess hafa þær verið að starfa að því, að koma upp heilsuhælinu í Kristnesi, og safnað til þess um 80 þús. kr., og er það þeim ekki til lítils sóma. Þegar þær nú hafa lokið þessu, þá er ekki nema eðlilegt, að þær fari að hugsa til framkvæmda á því loforði, sem þær eiga frá ríkinu um að koma upp húsmæðraskólanum. Að ósamkomulag sje milli eyfirskra og þingeyskra kvenna, tel jeg mjög ósennilegt.

Hv. 1. landsk. gat þess, að ef karlmenn hefðu ekki hrundið húsmæðrakenslunni áfram, þá hefði lítið verið gert í því efni. Jeg er þakklát karlmönnunum fyrir aðstoð þeirra í málum þeim, er snerta kvenmentun sjerstaklega, þegar hún er reist á skilningi, en það tel jeg ekki aðstoð þeirra vera í þessu máli. Jeg vil undirstrika það, að í þessu máli er þá fyrst farið rjett á stað, ef reynt er að rannsaka og undirbúa málið til hlítar og koma sjer niður á framtíðar heildarskipulag. Þeir sem til þekkja, segja, að ekki sje hægt að una við Eiðaskólabygginguna, en mjer þykir það æði undarlegt, ef ekki er hægt að byggja við hana. Jeg er sammála hv. 1. landsk. um, að það eigi að nota sólina sem mest, en ekki að láta húsin snúa undan sólu.

Jeg skal svo ekki svara hv. 1. landsk. fleiru. En jeg hygg, að svo muni fara, að tillögur mínar reynist farsælastar fyrir þetta mál.

Jeg hefi þegar svarað hv. flm. (IP) út af kröfu hans til mín um að jeg komi fram með ákveðnar till. í málinu, og skal jeg ekki fara nánar út í það. Að hv. flm. hafi ekki tekið fram, hve margir skólarnir eigi að vera, það er alveg rjett, en það hefir komið fram í umræðunum síðan. (IP: Ekki frá mjer.) Það er rjett, og jeg hefi ekki heldur borið hv. flm. á brýn að hafa sagt það. En það er ekki komin nein niðurstaða um þetta ennþá, og það er meira að segja sagt af þeim mönnum, sem málinu eru velviljaðir, að enn sje ekki ákveðið, hvort húsmæðraskólarnir verða tveir, eins og bændaskólarnir, eða fjórir, einn í hverjum fjórðungi.

Jeg hefi áður svarað því, að ekki sýnist úr vegi að athuga, hvort ekki mundi hentugra vegna rekstrarkostnaðar að byggja við Eiðaskólann, og hefir hv. flm. ekki afsannað neitt, sem jeg sagði um það. — Þá benti hv. flm. mjer á, að til væri ákvæði um það, hve mikið mætti höggva af hrisi á ári hverju. Jeg vissi þetta raunar áður, svo að óþarft var fyrir hv. flm. að tefja tímann með þessari fræðslu. Það eina, sem jeg hafði sagt um málið, var líka það, að þótt skógurinn á Hallormsstað sje fríður og fallegur, er hann þó ekki svo stór, að ekki mundi hann fljótlega eyðast, ef nota ætti skógarviðinn sem eina eldsneytið til að hita upp skólahúsið, og auðvitað til eldunar líka. — Það var alveg röng ályktun hjá hv. flm., er hann vildi nota ummæli mín um Eiðaskólann til að sanna, að jeg hefði snúist í skólamálinu. (IP: Hvernig er þá rjett ályktun?) Hún er svona: Þegar búið er að segja a, segir maður gjarnan b, og jafnvel c og d. Þegar búið er að reisa gott skólahús fyrir unglingaskóla á Eiðum, er mjög líklegt, að það borgi sig að auka við hann húsmæðradeild, fremur en að reisa hana út af fyrir sig annarsstaðar. Þó ætla jeg engan úrskurð um þetta að fella, heldur að bíða, þar til jeg sje, hvað verður ofan á, þegar hæstv. landsstjórn hefir undirbúið málið rækilega. — Það er alveg rjett hjá hv. flm. (IP), að jeg veit ekki, hve marga hestburði af hrísi má höggva í Hallormsstaðaskógi. En jeg gæti fljótlega komist að því, ef mjer þætti það skifta nokkru máli.

Hv. flm. taldi mjer það til lofs, að jeg hefði áhuga fyrir hressingarhælum. Þetta lof á jeg ekki skilið, nema að því leyti, að jeg benti á í fyrstu ræðu minni, að Hallormsstaður væri mjög vel fallinn fyrir hressingarhæli og sá þáttur, sem jeg átti í því að kvenfjelagið ,Hringurinn‘ fjekk á sínum tíma umráð yfir landssjóðsjörðinni Kópavogi, til þess að reisa þar hressingarhæli. (IP: Jeg tek þá lofið aftur!).

Þá er altaf verið að dreypa því á mig, að jeg vantreysti frú Sigrúnu Blöndal. Jeg held, að orð mín fyr og nú hafi fallið á alt aðra lund. Jeg hefi altaf haldið því fram, að hún sje mannkostakona og mentuð í ýmsum greinum, enda þótt hún hafi ekki aflað sjer þeirrar sjerfræðslu, sem forstöðukonu húsmæðraskóla er sjerstaklega þörf á að hafa.

Hv. þm. hefir talað um, að húsmæðradeild kvennaskólans hafi verið yfirhlaðin undanfarin ár. Það er alkunnugt, að húsmæðradeild kvennaskólans í Reykjavík hefir þrásinnis orðið að neita umsækjendum, er sótt hafa um námsskeiðin. Þeirri reglu er jafnan fylgt, að veita umsækjendum aðgang að námskeiðunum í þeirri röð, sem þær hafa sótt. En örsjaldan hefir það komið fyrir, að nokkrar þeirra, sem veitingu höfðu fengið, hafi ekki getað sótt námsskeiðin, og eigi tilkynt það fyr en um leið og námsskeiðin áttu að byrja og þannig staðið í vegi öðrum, sem neita varð. — Jeg hefi því litla ástæðu til að taka kvennaskólanum eða mjer til inntektar ummæli hv. þm. (IP) um „ofhleðslu“ í húsmæðradeild skólans, en jeg vona nú að hafa upplýst það mál nægilega.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri sanngjarnt að neita austfirskum konum um húsmæðraskóla. Jeg veit ekki til að nokkur hafi haft það við orð, síst jeg. En jeg vil aðeins undirstrika, að málið þarfnast betra undirbúnings. Jeg vil að það fái hann, hv. flm. vill afgreiða það í skyndi. Sá er munurinn. — Loks þótti hv. flm. eitthvað athugavert við, að jeg hafði talið styrkinn til frú Sigrúnar Blöndal maklegan. Jeg mun láta hann einan um sínar bollaleggingar út af því.