29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (2585)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Jón Sigurðsson:

Mál þetta var nokkuð rætt við fyrstu umr. og fjekk þá þegar góðar undirtektir; verð jeg að taka undir það með hv. flm. (HStef) og öðrum, sem talað hafa, að málið er mjög mikils varðandi og nauðsynjamál.

Þegar verið er að ræða um þetta mál, er ekki úr vegi að líta um öxl og renna augunum yfir það, sem gert hefir verið allra síðustu árin bæði til undirbúnings þessu máli og til eflingar landbúnaðinum í heild sinni. Og verður þá ljóst, að síðustu 4 árin hefir ríkisstjórnin og Alþingi unnið mjög merkilegt starf í þágu landbúnaðarins. Í fyrsta lagi hefir bændum verið veittur greiður aðgangur að lánsfje til ræktunar, húsabóta og jarðakaupa með ræktunarsjóðnum og veðdeildinni. Í öðru lagi hafa bændur verið hvattir til jarðræktarframkvæmda með ríflegum verðlaunum, með jarðræktarlögunum. Loks hafa verið studdar mjög tilraunir með sendingu kjöts til Bretlands og leitast við að tryggja landbúnaðinum öruggan markað fyrir aðalframleiðsluvörur hans, og má þar til nefna bygging kæliskipsins og íshúslánin. Þá eru ótalin ýms smærri atriði, sem stjórn og þing hafa gert til eflingar landbúnaðinum. Alt miðar þetta að því, að efla og tryggja landbúnaðinn, og þótt ýms vandamál sjeu enn óleyst á þessu sviði, þá er nú svo komið, að þessar lagasetningar eru að skapa skilyrði fyrir fjölgun býla í landinu, sem áður voru mjög lítil.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er ekki nýmæli í sjálfu sjer. Frv. um fjölgun býla mun fyrst hafa verið fram borið á Alþingi árið 1893, og síðan á þingunum 1894 og 1895, og á þingi 1897 var samþykt frv., er stefndi aðallega í þá átt, að heimila mönnum að taka upp nýbýli. Árið 1914 bar svo þáverandi þm. Mýr., Jóhann Eyjólfsson frá Sveinatungu, fram frv. um grasbýli, er hann nefndi svo. Var það að ýmsu leyti merkilegt frv., og var skipuð 7 manna nefnd í málið. Nefndin kom fram með mjög ítarlegt nál. og lagði til, að málið yrði rannsakað rækilega og flutti till. til þál. um að stjórnin ljeti undirbúa og leggja fyrir þingið frv. um þetta efni. Um sama leyti skall stríðið á og varð því eigi af frekari framkvæmdum í þessu máli að sinni. Síðan hefir málið verið rætt nokkuð, einkum í búnaðarritum, og hreyft á Alþingi, en í því formi, að nálega engir vildu líta við því.

Eins og nál. ber með sjer, hefir landbn. tekið frv. til gagngerðrar yfirvegunar. Nefndin hefir tekið til greina bæði það, sem jeg hreyfði við 1. umr., og eins till. hv. 3. þm. Reykv., og þar á meðal till. hans um að hækka tillag ríkissjóðs til sjóðsins um helming, eða úr 100 þús. upp í 200 þús. Jeg tel, að frv. hafi stórbatnað við meðferð nefndarinnar, og má þó betur, ef vel á að vera, og skal jeg drepa á nokkur atriði, er mjer þykir sjerstaklega áfátt.

Nafn frv. er: frv. til laga um landnámssjóð Íslands. En hvað er landnám? Er það að byggja skýli yfir höfuðið á sjer? Nei. Eftir venjulegri málvenju er landnám þríþætt og felst í því: í fyrsta lagi að taka sjer land til eignar og umráða; í öðru lagi að byggja á landinu nauðsynleg hús, — og loks er ræktunin venjulega talin sjálfsagður liður í því landnámi, sem hjer ræðir um. Frv. ræðir aðeins um einn af þrem aðalþáttum landnámsins, en jafnframt þann erfiðasta, byggingarnar. Frv. ætti því að heita „frv. til laga um bygging nýbýla“; annars er hjer verið að flagga með nafni, sem ekki svarar til þeirra ákvæða, sem frv. inniheldur.

Eins og jeg gat um áðan, gengur frv. fram hjá fyrsta þætti nýbýlamálsins: að nýbyggjandi geti fengið úrskift land til ræktunar og geti greitt það; fyrir slíkri úrskiftingu er að nokkru leyti sjeð með landskiftalögunum. En þótt ekkert sje gert til að styðja nýbyggja með kaup á landi, má þó ekki leggja stein í götu þeirra í þessu efni. En það er gert í frv. með ákvæðum um það, að fyrsta veðrjett skuli setja sem tryggingu fyrir greiðslu byggingarkostnaðar.

Mjer er ekki ljóst, hvernig fátækir menn eiga að geta keypt sjer land, ef þeir mega ekki setja það að veði fyrir einhverju af verðinu, og venjulega mun seljandi krefjast fyrsta veðrjettar. Jeg held, að rjettara hefði verið að setja takmörk fyrir því, hvað mikið mætti hvíla á fyrsta veðrjetti. Til dæmis að setja þau ákvæði, að sem tryggingu fyrir byggingarkostnaði skyldi setja 2. veðrjett, með uppfærslurjetti og að á 1. veðrjetti mætti ekki hvíla meira en 3/5 landverðs. Það er þó langt frá því, að jeg áfellist nefndina fyrir að hafa ekki tekið upp í frv. eða brtt. sínar ákvæði, er ljetti mönnum meir en nú er, að fá útskift land fyrir nýbýli. Þvert á móti tel jeg rjett, að þau ákvæði bíði fyrst um sinn, og vil jeg gjarnan sjá hverju fram vindur. Framar öllu öðru vil jeg beina nýbýlamálinu inn á þá braut, sem jeg gat um við 1. umr. málsins: að samfara aukinni ræktun færi fram skifting á jörðunum, er börn taka við af foreldrum sínum, þannig, að eitt eða fleiri af erfingjunum húsi sjer bæ eða bæi í nágrenni við túnið, þar sem góð skilyrði eru til ræktunar, og noti jafnframt sinn hluta af gamla túninu. Þetta er líklegasta leiðin til að koma í veg fyrir, að unga fólkið þurfi að hrekjast í kaupstaðina af því að það fái ekki jarðnæði í sveitunum, svo sem nú er orðið alltítt.

Þessi leið er öruggari og hefir ýmsa kosti fram yfir að kaupa landskika í úthaga og húsa þar bæ. Kostirnir eru einkum þessir: Í fyrsta lagi, að nýbyggjandi hefir strax nokkuð ræktað land við að styðjast. Í öðru lagi getur hann notast við nokkuð af gömlum peningshúsum og þannig sparað sjer útgjöld í bili. Í þriðja lagi ljettir það ýmsar framkvæmdir, sem vinna má í sameiningu, ef skamt er milli bæja, svo sem vegagerð og vatnsleiðslu, rafveitu, þar sem henni verður komið við, og fleira.

Þetta hefir nefndin fallist á, og jeg er henni þakklátur fyrir það. En þrátt fyrir það, að nefndin gerir ráð fyrir því, að báðar þessar leiðir sjeu farnar, skift jörðum og bygt á alóræktuðu landi, er þó hvergi ákvæði um það, hve smátt megi skifta jörðum og hvað landið megi vera minst, til þess að byggja megi á því, með ríkisstyrk. Jeg tel það mjög varhugavert, að leggja það atriði algerlega í dóm manna, sem oft mundu kveða upp dóm sinn af lítilli athugun og ennþá minni reynslu. Jeg veit ekki betur en að hjá nágrannaþjóðum okkar sjeu skýr ákvæði um þetta, enda talin þar sjálfsögð. En hjer vantar alveg ákvæði, sem greini milli býlis og þurrabúðar. Í nýbýlalögunum 1897 er tiltekið, að býli megi ekki vera minni en 5 hundruð að dýrleika. Jeg tel þessi ákvæði úrelt og ekki rjett að binda slíkt ákvæði hjer við gamla hundraðstalið.

Annar aðalþáttur nýbýlamálsins er byggingarnar, sem þetta frv. og brtt. fjalla um. Eins og sakir standa nú, mun þetta vera örðugasti þátturinn og því mest um vert fyrir nýbýlamenn að fá fjárhagslegan stuðning til að koma upp sæmilegum húsakynnum. Hinsvegar vil jeg alls ekki, svo sem gert er í frv., binda menn við borð með sjerstakan stíl á þessum byggingum, sem gæti hleypt verði þeirra fram um mörg þús. kr. í mínum augum er það aðalatriðið, þegar um smábýli er að ræða, þar sem sparlega verður að halda á, að húsaskipun sje þannig háttað, að bæta megi smámsaman við, ef ástæður leyfa, og geti þó farið vel. Ef á að binda sig við einhvern sjerstakan, íslenskan stíl, eins og t. d. í teikningum af bænum í Reykholti, er hætt við, að byggingin verði óhæfilega dýr, byggingarkostnaðurinn verði ofurefli bæði ríkinu og nýbyggjendum. Líklegasta leiðin til þess að svo verði ekki, er óbrotin en haganleg húsaskipun og að húsbyggingarnar verði, að mestu leyti, heimavinna, sem grípa má til í tómstundum, eða þegar annað kallar ekki mjög að, eins og er um gömlu torfbyggingarnar. Með því t. d. að steypa steina og hlaða úr þeim, mun vera hægt að reisa tiltölulega ódýrar steinbyggingar, einkum ef nýbyggjendur gætu unnið hvorttveggja sjálfir, steypt steinana og hlaðið úr þeim. Í þennan þátt frv. tel jeg vanta: Í fyrsta lagi hámark byggingarkostnaðarins, eða framlag sjóðsins til hvers einstaks býlis, sem að sjálfsögðu verður að standa í slíkum lögum sem þessum. Ennfremur er engrar skýrslu krafist um, hvernig byggingin sje af hendi leyst. Jeg geri ráð fyrir, að til þess þyrfti helst að vera sjerstakur eftirlitsmaður, t. d. umboðsmenn ræktunarsjóðsins í sveitum. En jeg veit ekki,hvernig nefndin hefir hugsað sjer þetta. Þá eru heldur engin ákvæði, er skyldi húseiganda eða lánþega að hafa húsið vátrygt, eða sem tryggja, að húsin verði ekki lögð í auðn, býlið t. d. haft með og húsin látin falla eftir nokkur ár.

Þá kem jeg að þriðja þætti nýbýlamálsins, ræktuninni. Í frv. er ekki minst á hana einu orði. Engar kröfur um nýrækt, engin ákvæði sett um að nýbyggi hafi ræktað ákveðinn landskika eftirvíst árabil. Frv. gerir þó ráð fyrir, að heimilt sje að byggja nýbýli á óræktuðu landi. Að sjálfsögðu verða að standa um þetta skýr ákvæði í frv. Allir eru víst á einu máli um það, að verðmæti eða veðhæfi slíkra húsa í sveit byggist fyrst og fremst á ræktun landsins. Hús í sveit, sem bygt er á óræktuðu landi, er lítils virði, bæði sem veð og heimili.

Þá vantar alveg í frv. ákvæði um það, hverjir eigi að njóta þeirra hlunninda, sem það býður. Eru það stórefnamenn, bjargálnamenn eða fátæklingar, eða allir þessir flokkar? Í nágrannalöndum okkar, t. d. Noregi, minnir mig að slík hjálp, sem hjer ræðir um, sje veitt þeim einum, er eiga minst 1500 kr., og ekki yfir 15000 kr. hreina eign, fyrir utan innanstokksmuni. Jeg hygg, að það sje líka tilskilið, að nýbýlismaður hafi ekki yfir ákveðið tekjuhámark, mig minnir að það sje kringum 4000 kr. Ákvæði í þessa átt eru sjálfsögð og má alls ekki vanta í frv. Jeg skal ekki leggja dóm á, hvar mörkin eiga að vera. Jeg býst við, að okkur henti annað í því efni en Norðmönnum. En þó að ekkert standi um þetta í frv., geri jeg ráð fyrir, að allir sjeu sammála um, að þetta eigi að vera þeim einum til hjálpar, sem verulega þörf hafa á hjálparhönd hins opinbera.

Þá kem jeg að ákvæðinu um endurbyggingu á bygðum býlum. Þar er jeg heldur mótfallinn brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. (JÓl). Mjer finst þau ákvæði ekki eiga heima í þessu frv., því að þau snerta hvorki landnám nje byggingu nýbýla. Mjer finst ákvæðin mjög varhugaverð, eins og frá þeim er gengið. Þau geta í ýmsum tilfellum orðið beinlínis verðlaun handa slóðunum, sem láta alt reka á reiðanum og drabbast niður. Þau geta líka beinlínis orðið hjálp handa jarðníðingnum, en svo nefni jeg einkum þá menn, sem gera sjer að leik að kaupa og leggja undir sig jarðir til þess eins að rýja þær að húsum og öllum gæðum, og selja þær síðan. Þetta mun tíðkast talsvert hjer sunnanlands og víðar. Oft getur svo farið, þegar þessir menn væru búnir að leika jarðirnar svo grátt, að lítið eða ekkert er lengur upp úr þeim að hafa, að þeim tækist að narra fátæka menn til að kaupa þessar jarðir fyrir tiltölulega hátt verð, með því að benda þeim á þann möguleika, að þeir geti fengið þær húsaðar á kostnað hins opinbera. Jarðníðingurinn getur á þennan hátt stungið í sinn vasa í hækkuðu jarðarverði þeim hagnaði, sem kaupandi átti að hafa af ódýru byggingarláni. Jeg bendi aðeins á þetta til athugunar, að hjer þarf að búa vel um hnútana, ef taka á upp þetta ákvæði. Hjer vantar líka nánari ákvæði um þessar byggingar, svo sem hámark lánsins og eftirlit með því, að því sje varið eins og til er ætlast. Það er heldur ekki tekið fram í frv. eða brtt. nefndarinnar, hvernig með skuli farið, ef lántakandi getur ekki staðið í skilum. En slík ákvæði er nauðsynlegt að hafa. Jeg get búist við, að mjer verði svarað því, að þessi atriði, er jeg tel vanta í frv., eigi að standa í reglugerð. En flest þeirra eru svo vaxin, að jeg held, að þau eigi að standa í lögunum sjálfum. Má vísa til þess, að í ræktunarsjóðslögunum eru ýms hliðstæð ákvæði, sem nauðsynlegt þótti, að í þau væru tekin.

Þótt þessu frv. sje að mörgu ábótavant, eins og þegar hefir verið sýnt, þá er það ekki svo að skilja, að jeg áfellist hv. flm. eða hv. nefnd fyrir að hafa ekki gert skyldu sina. Málið er umfangsmikið, og það er tæplega von, að þingnefnd, sem mikil störf hefir á hendi, hafi getað rannsakað þetta mál til nokkurrar hlítar, þar á meðal getað pælt svo sem þurft hefði í gegnum tilsvarandi lagaákvæði hjá öðrum þjóðum. En það var gott að fá málið inn í deildina, svo að mönnum gæfist kostur á að gera við það athugasemdir, sem vel gætu orðið til þess að það skýrðist betur, áður en það verður tekið til enn rækilegri athugunar. Jeg tel rjettast, þegar búið er að ræða málið við þessa umræðu, og jafnvel 3. líka, að vísa því til þeirrar nefndar, sem nú er ákveðið að þingið skipi til þess að rannsaka landbúnaðarlöggjöfina. Þetta er stórt mál, og það er komið svo vel á veg, að jeg geri mjer von um, að allverulegur árangur sjáist af þessari lagasetningu áður en langt líður.