30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Það hafa komið fram allmargar athugasemdir við málið alment og við till. landbn. En allar eru þær sprottnar af góðum hug til málsins og viðleitni til þess að fá það sem best upplýst og grundvöll sem traustastan undir afgreiðslu þess síðar. Og því get jeg verið mönnum þakklátur fyrir þessar athugasemdir. Jeg hefi áður gert grein fyrir till. nefndarinnar, og það sem jeg tala út frá þeim athugasemdum, sem fram hafa komið, tala jeg að sumu leyti á eigin ábyrgð, því að nefndin hefir ekki haldið fund síðan.

Háttv. 2. þm. Skagf. talaði ítarlega um málið alment. Fæst af því snerti till. sjálfar, heldur var þess efnis, að honum þótti vanta í frv. Jeg skal taka það fram, að nefndin hefir alls ekki hugsað sjer frv. tæmandi. Að sjálfsögðu verður sett reglugerð jafnframt. í frv. eru tekin fram grundvallaratriði, en nánari ákvæði myndu verða sett með reglugerð. Það getur verið álitamál, hvað eigi að standa í lögum og hvað í reglugerð. En í stórum dráttum má draga marklínurnar svo, að í lögum eigi að standa alt, sem á að vera grundvallaratriði og sem mest óhreyfanlegt. En í reglugerð á það aftur á móti að vera, sem hreyfanlegra mætti vera, eftir því sem ástæður benda til að breyta þurfi.

Það er rjett, sem hv. þm. gat til, að landbn. vildi afgreiða málið til deildarinnar, til þess að hv. þm. fengi sem best tækifæri til þess að athuga málið.

Nafnið er miðað við frv. eins og það var borið fram í upphafi. Það er ekki óskylt að nema land og stofna ný heimili, til þess að rækta þar land og skapa skilyrði til að lifa af því. Með þeirri útfærslu á verkefni sjóðsins, sem nú er hugsað, getur frekar verið álitamál, hvort nafnið er rjett valið. Þetta kom til tals í nefndinni, en ekki þótti ástæða til að koma með brtt. um nafn sjóðsins, fyr en sjeð væri, hvernig tekið væri útfærslu á verkefni sjóðsins. Það kom til tals í nefndinni annað nafn: byggigarsjóður sveitabýla. Það skiftir í sjálfu sjer ekki svo miklu máli, hvert nafnið er, en sjálfsagt að velja það, sem best er í samræmi við verkefni sjóðsins.

Fyrsta atriðið, sem hv. 2. þm. Skagf. þótti vanta í frv., var það, að gengið væri fram hjá að setja ákvæði til þess að gefa mönnum rjett til að fá útskift land. (JS: Jeg kvartaði ekkert undan því.) Sje þetta misskilningur minn, eða hafi jeg ekki heyrt það rjett, bið jeg afsökunar. Það er skýrt fram tekið í frv., að land með ákveðnum merkjum og landsnytjum skuli lagt býlinu til æfinlegra nota, og bygt á því, að það reynist nægilegt fyrst um sinn, því að nóg framboð muni vera á löndum bæði úr bygðum býlum og annarsstaðar. Ef reynslan sýndi, að óhjákvæmilegt væri að lögtryggja land til nýbýla, mundi vera hægurinn hjá að bæta ákvæðum um það inn í þessi lög, og jafnvel kanske álitamál, hvort ekki ætti betur við að hafa þau í öðrum skyldum lögum, t. d. landskiftalögum, eða setja um það sjerstök lög.

Þá þótti hv. þm. (JS), sem frv. setti stein í götu nýbyggjenda með því að áskilja ríkinu 1. veðrjett í býlum þeirra. Það má nú segja svo, og væri gott, ef menn sæju fært að gera þeim auðveldara fyrir. Jeg hefi ekki treyst mjer til að stinga upp á öðru, og tel það hinsvegar eðlilegt, eins og til hagar, að ríkissjóður hafi tryggustu ábyrgðina, sem hægt er að gefa. Aðrir mundu leggja minna til og eiga minna á hættu, og ætti því fremur að nægja 2. veðrjettur. Þar sem framlag ríkissjóðs er svo varanlegt, ýmist óendurkallanlegt eða veitt sem lán til langs tíma, er ástæða til að hann hafi 1. veðrjett, öruggustu trygginguna. En það sýnir góðan hug hv. þm. (JS) til málsins, að hann vill rýmka ákvæðin.

Enn þótti honum vanta í frv. ákvæði um það, hve smátt mætti skifta landi. Nokkuð er rjett í þessari aðfinslu, en mikið ekki. í 3. gr. er tiltekið með almennum orðum, að landið skuli nægja fjölskyldu til framfæris, eftir mati hæfra manna, en ekki miðað við neina ákveðna stærð. Það er mjög örðugt að tiltaka nokkra vissa stærð, og jeg vil segja ógerningur og miður heppilegt. Ástæðurnar geta verið mjög svo misjafnar. Um stærð býlisins kemur til greina landgæði og afstaða til markaðs, hverskonar búskap á að reka þar, hvort heldur kúabú eður sauðbú. Vitanlega þarf búrekstur, sem bygður er aðallega á sauðfjárrækt, altaf meira landrými en kúpeningsbúskapur. Hygg jeg því óþarft að tiltaka lágmarksstærð. Það verður best að láta menn sem sjálfráðasta um það, eftir ástæðum og mati. Hv. þm. (JS) benti á, að þetta væri tiltekið í grasbýlafrv. því, er þáverandi þm. Mýr., Jóhann Eyjólfsson, bar fram á þingi 1914. En þar var hugsað dálítið öðruvísi en hjer; ætlast sem sje til, að grasbýlisábúandi hefði venjulega stuðning jafnframt af öðru en býlinu sjálfu, svo sem t. d. vinnu, og gert ráð fyrir býlunum aðallega í grend við kaupstaðina. En hjer í þessu frv. eru nýbýlin hugsuð sem sjálfstæð býli til framfærslu, reist hvar sem er á landinu, þar sem skilyrði eru fyrir hendi. Þetta getur og að nokkru leyti átt við það, sem hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, húsmannsbýlin dönsku. Þau voru hugsuð og reist á líkum grundvelli og grasbýli Jóhanns Eyjólfssonar. En bæði Danir og aðrar erlendar þjóðir eru meir og meir að hverfa að því ráði, að gera þessi smábýli sem sjálfstæðust. Og það er bending um, að þetta atriði sje rjett hugsað í þessu frv.

Hv. þm. (JS) þótti vafi, hvort rjett væri að binda framlög úr sjóðnum því skilyrði, að híbýli væri reist í þjóðlegum stíl. Hann óttaðist, að byggingar yrði þá dýrari en ella þyrfti að vera. Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort nokkuð er til í því. En það vakti fyrir mjer, og jeg held að það ætti ekki að valda verulegum kostnaði, að koma í veg fyrir, að mjög óskipulega verði bygt og í þeim stíl, sem ætti illa við landið; einhverjir kassakumbaldar, sem þó ef til vill gæti verið ódýrast. Bæjarstíllinn okkar, sem þykir fara vel við landið, er þjóðlegur og vaxinn upp af sjálfum sjer. Og á sama hátt gæti komið þjóðlegt og hentugt lag á býlin af sjálfu sjer, án þess að fje þurfi til þess að fara. Oft mundi verða byrjað á því að byggja svo fá hús, sem komast mætti af með, og þá ætti að haga því þannig, að auka mætti við eftir þörfum, svo vel færi. Með hliðsjón af því, hvernig bæirnir okkar hafa orðið til, hugsa jeg mjer það þannig: íbúðarhús og eitthvað af peningshúsum mundi verða bygt saman, en þó ekki undir einu þaki, og bætt við, eftir því sem þörf krefði og efnin leyfðu. Hugsa jeg mjer þá svipinn eitthvað líkan því, sem bæirnir okkar litu út. Það mundi henta ágætlega að hugsa sjer, eins og hæstv. þm. (JS) benti á, að nota til bygginga tilbúinn stein. Hvorki höfum við Íslendingar kunnað það hingað til nje átt þess kost, heldur bygt úr því heimafengna efni, mold og grjóti. Með því að nota steypta steina til þess að byggja upp bæina, gætu þeir vaxið upp í sama þjóðlega stíl og þeir hafa gert úr hinu gamla innlenda byggingarefni.

Þá áleit hv. þm., að rjett væri að tiltaka í frv. hámark byggingarkostnaðar. Þetta getur verið, að það væri nauðsynlegt að ákveða eitthvert hámark, en það mundi auðsjáanlega verða erfitt, og jeg tel það ekki mjög nauðsynlegt, og menn eru ekki svo fjáðir hjer — alment sagt. Það mundi altaf fara nokkuð eftir verðlagi á hverjum tíma, en það er eins og kunnugt er mjög á reiki nú. Nýbyggjendur mundu líka altaf þurfa að hafa nokkurn mátt, fje eða lánstraust, til að leggja á móti. Þetta ætti því að mínu áliti eins vel að vera reglugerðaratriði.

Þá benti hv. þm. á, að ekkert eftirlit væri sett með byggingarframkvæmdum. Ákvæði um þetta má enn setja inn í frv., af þurfa þykir, og er ekki ósennilegt, að þetta mætti sameina við það eftirlit, sem ræktunarsjóðurinn þarf að hafa í sambandi við þau lán, sem hann veitir. Þá benti hv. þm. á það, að ekki væri tilskilið, að nýbýli væru vátrygð, og er auðvitað nauðsynlegt, að það sje ákveðið í lögunum. Ennfremur benti þm. á, að engin trygging væri sett fyrir því, að býli legðust í auðn. Þetta er alveg rjett, en jeg verða að segja, að það er mjög óljóst fyrir mjer, hvaða tryggingu er yfirleitt hægt að setja fyrir slíku með lögum. Hinsvegar tel jeg litla hættu á, að svo geti farið með býli, sem eftir ákvæðum frv. eiga að vera bygð innan takmarka bygðra sveita. Ástandið hlyti þá að breytast á annan veg en menn alment munu óska, ef gera þarf ráð fyrir slíku.

Jeg get tekið undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ástæðan til þess að býli hafa lagst í auðn sje sú, að húsum hefir verið svo mjög áfátt og farið hrörnandi smátt og smátt, vegna þess að ábúendurnir hafa ekki verið þess megnugir að halda þeim við. Vegna fjárskorts hafa svo engir treyst sjer til að reisa þessi býli við aftur.

Þá benti háttv. þm. á það, að engar kröfur væru gerðar um ræktunarframkvæmdir nýbyggja. En það segir sig sjálft, að þörfin yrði þar mesta aðhaldið og tryggingin. Því aðeins er hægt að búa á þessum býlum, að landið sje ræktað, og hefir nefndin hugsað sjer, að stuðning til ræktunarinnar fengju menn með lánum úr ræktunarsjóði, og kemur því til greina það eftirlit, sem hann hefir með sínum lánum. Hinsvegar hefir nefndin ekkert á móti því, að ákvæði um þetta sje sett inn í lögin eða reglugerð. Þá spurði hv. þm., hvort þessi kjör væru ætluð stóreignamönnun eða fátæklingum. Það er rjett, að í frv. eru engin eignatakmörk sett, og getur vel verið, að þeirra þætti þörf, einkum að ofan. Það er auðvitað, að þessi kjör eru ekki ætluð þeim mönnum, sem sjálfir eru færir um þessar framkvæmdir, en hjer er svo lítið af slíkum mönnum. En að því er snertir takmörk að neðan, þá hefði jeg helst ekki viljað setja þau. Enda ætti þeirra ekki að vera þörf, því að það segir sig sjálft, að eitthvað verða menn að geta lagt á móti, bæði bústofn og annað, til þess að geta notfært sjer kjör sjóðsins. Algerlega efnalausir menn, sem ekki njóta neins stuðnings frá öðrum, ættu þess, því miður, engan kost, að stofna til nýbýla. Þessi atriði snerta nú að mestu verkefni frv., eins og það var í upphafi. Að því leyti sem háttv. þm. talaði um útfærsluna á verkefni sjóðsins, eins og lagt er til í nál., eftir till. hv. 3. þm. Reykv., virðist hann vera henni frekar andvígur. En nefndin lítur svo á, að þetta verkefni, að viðhalda bygðum býlum, sje alveg hliðstætt og jafnnauðsynlegt hinu, að byggja upp nýbýli; einkum ef um er að ræða býli, sem annars mundu leggjast í auðn. En vitanlega eru ekki settar sömu reglur um þá starfsemi eins og hina.

Eins og jeg tók fram áðan, hefi jeg tekið þetta fram út af þeim athugasemdum, sem fram hafa komið, en ekki af því, að jeg geti ekki fallist á að frv. geti verið í ýmsu áfátt. En nefndin lítur svo á, að í frv. beri að setja fyrst og fremst hin óhreyfanlegu grundvallaratriði, en hin önnur, sem hreyfanlegri þurfa að vera, og mega teljast frekar aukaákvæði, eigi að setja með reglugerð, og verður þá að fara eftir reynslunni, jafnótt og hún kemur fram, um ýmislegt, enda verður hún besti grundvöllurinn til að byggja slíkar reglur á.

Þó að jeg hafi skrifað ýmislegt upp eftir hv. 3. þm. Reykv., þá var það hvorttveggja, að það voru ekki venjulegar aðfinslur, heldur talaði hann af velvild til málsins, eins og vænta mátti, eftir því, sem áður hafði fram komið frá honum. Hv. þm. þótti ekki víst, að rjettara væri að fara eftir till. hreppstjóra og hreppsnefnda, eins og nefndin leggur til, en eftir till. búnaðarsambandanna. En í fyrsta lagi er engin trygging fyrir því, að búnaðarsambönd sjeu jafnan til, og í öðru lagi mundu þau altaf verða að byggja álit sitt á tillögum einstakra manna, sem sje sinna trúnaðarmanna, sem væru ekki jafnkunnugir staðháttum og hin staðlegu stjórnarvöld, sem frv. til nefnir.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði um, að honum þætti afgjaldskvöðin, 2%, of lágt sett, þá má vera, að það sje álitamál. En gæta verður þess, að setja það ekki hærra en svo, að nýbyggjendur fái undir risið. Auðvitað er það hugmyndin, að hafa þetta svo ljettbært fyrir nýbýlastofnendur sem unt er, enda er vitanlegt, að þeir mundu flestir eiga við allmikla fjárhagsörðugleika að stríða. Og þó að afgjaldskvöðin sje lág, þá verður þetta ævarandi kvöð, eða þangað til ef býlin verða keypt undan henni. Jeg held, að menn megi líka athuga það, að það er ekki einskisvert fyrir ríkið, að menn fáist til þess að haga svo ráði sínu sem hjer er gert ráð fyrir. Það er nú svo, að hávaðinn af fólkinu vill alls ekki vera í sveitum, og jeg lít svo á, að menn megi vera þakklátir, meðan einhverjir fást til að vera þar.

Þá líkaði hv. þm. ekki stefna nefndarinnar að því er snertir hugmynd hennar um að hindra óeðlilega verðhækkun og brask með þessi býli, og vildi láta nýbyggjendur njóta allrar þeirrar verðhækkunar, sem þeir gætu fengið. En nefndin setur með till. sínar engar hömlur á það, að þeir fái að njóta eðlilegrar verðhækkunar, sem stafa af framkvæmdum þeim og umbótum, sem þeir hafa gert á býlunum. Hún telur sjálfsagt, að menn njóti eðlilegrar verðhækkunar, sem menn hafa sjálfir skapað. En hitt væri jafnóheppilegt og óeðlilegt, að verðið hækkaði svo við „spekulationir“, að býlin yrðu eftir á svo dýr, að ekki væri hægt að lifa á þeim. En svo gæti farið, og svo hefir farið, af því að í okkar löggjöf hafa engin ákvæði verið, sem hafa hindrað óeðlilega verðhækkun á jörðum, og því vill nefndin nú setja skorður við því um þessi býli.

Þá mintist hv. þm. á það, að málið yrði ekki afgreitt á þessu þingi. Jeg geri nú heldur ekki ráð fyrir því, eftir það, sem fram er komið, en jeg hafði hugsað, að þingið mundi vilja vinna sem best að málinu og koma því sem lengst áleiðis, eftir því, hvað hv. þdm. hafa sýnt því góðan hug. Jeg hjelt um eitt skeið, að enginn mundi leggja kapp á, að málinu verði á þessu stigi vísað til nefndar í landbúnaðarmálum.