11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Árni Jónsson:

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla þessu frv., heldur til þess að skjóta nokkrum bendingum til nefndar þeirrar, sem frv. verður vísað til. Eins og hv. þdm. hafa heyrt, breytir þetta frv. skipulagi því, sem nú er. Í stað bifreiðaskattsins á að koma skattur á bensínið. Þetta virðist í sjálfu sjer rjettlátara, en það er vegna annara bensínnotenda, sem jeg vildi segja nokkur orð. Hv. flm. (ÓTh) sagði, að bensínnotkun mundi vera lítil til annars en bifreiða. En notkun bensíns til annars er að fara í vöxt. Á Austurlandi er mikill smábátaútvegur. En flestir eru farnir að nota vjelar í bátana, sem eyða bensíni. Eins mun það vera á Vesturlandi, eftir því sem forseti Fiskifjelagsins sagði mjer. Þetta mun vera í nokkuð stórum stíl, því að forseti Fiskifjelagsins komst svo að orði, að það væri „urmull“ slíkra báta, sem notuðu bensín. Þótt þeir noti ekki bensín að öllu leyti, þá mun það þó vera 14 eldsneytis þeirra. En það er algerlega rangt, að þeir borgi þennan toll af bensíni, og vil jeg því skjóta því til hv. fjhn., að koma með undanþágu ákvæði fyrir þá. Þá mun þess og ekki langt að bíða, að flugvjelar komi hingað. Þær eru frekar á bensín. Er því spurning, hvort ekki muni einnig rjett að gera strax undanþágu með bensín til flugvjela, því að ekki slíta þær vegum landsins frekar en bátarnir. Þetta ætti hv. nefnd að taka til athugunar.