06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Magnús Jónsson:

Jeg er hræddur um, að hv. flm. (ÓTh) megi vara sig á því að vera fjhn. mjög þakklátur fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Hygg jeg, að hann hafi ekki nægilega áttað sig á því, að þrír nefndarmanna skrifa undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn er í fyrsta lagi bygður á því, að jeg er mótfallinn bifreiðaskatti, af því að jeg tel hann ósanngjarnan, og jeg greiði því atkvæði með dagskránni til þess að koma málinu fyrir nú, en ekki af því að jeg óski eftir neinni löggjöf um þetta efni. Í öðru lagi, þá er jeg ekki samþykkur forsendum dagskrárinnar, því að fyrir mjer vakir, að ef byggja á eingöngu á tolli á bensíni og bifreiðahringum um hæð bifreiðaskattsins, þá er numin burt sú rjettarbót, sem þó er í lögum nú, að ívilna vöruflutningabifreiðum. Það er augljóst, að sje hjer um gjald að ræða í ríkissjóð til þess að bæta vegina, þá nær engri átt, að koma miklum hluta þess á vöruflutningabifreiðarnar, sem eru nær eingöngu í Reykjavík, en koma aldrei á þá vegi, sem bæta á fyrir þennan skatt. Fólksflutningabifreiðarnar gjalda jafnt, hvort sem skattinum er breytt í þetta horf eða ekki, en aukningin lendir á vöruflutningabifreiðunum. Jeg legg áherslu á það, að verði lögunum um bifreiðaskatt breytt, þá verði það gert á þann hátt, að haldið verði áfram að ívilna vöruflutningabifreiðunum. — Eins og jeg tók fram í upphafi, þá greiði jeg dagskránni atkvæði, án þess þó að jeg æski nokkurrar löggjafar um þetta efni.