06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Jakob Möller:

Það er í sjálfu sjer óþarfi fyrir mig að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, og gæti jeg látið mjer nægja að vísa til þess, sem hv. 2. þm. Reykv. (MJ) sagði um afstöðu sína til nál.

Jeg átti sæti í fjhn. á þingi 1921. Var þá borið fram frv. um bifreiðaskatt, og mælti jeg á móti skattinum, því jeg gat ekki sjeð ástæðu til þess að leggja sjerstaklega skatt á þessi samgöngutæki frekar en önnur, þegar sýnilegt var, að bifreiðarnar mundu verða æ almennari í notkun. Það tíðkast nú til sveita, að bændur eigi bifreiðar til flutninga, og það má gera ráð fyrir, að meira verði um það síðar og að þær komi í stað annara vagna. Er því engin ástæða til þess að leggja gjald á bifreiðarnar, fram yfir önnur flutningstæki, því að venjulegir vagnar skemma vegina ef til vill miklu meira en bifreiðarnar. Við meðferð málsins 1921 var því haldið fram, að bifreiðaskatturinn væri ekki hugsaður eingöngu sem vegaskattur, heldur einnig og jafnvel miklu fremur sem „luxus“-skattur, og með þeim röksemdum komst skatturinn á. Og af þessu stafar sá munur, sem gerður er á fólksflutningabifreiðum og vöruflutningabifreiðum, því vitanlega verða fólksflutningabifreiðar altaf mikið notaðar til skemtunar. En með framsögu þessa máls og nál. er lagt til að breyta skattinum í hreinan vegaskatt, og því er jeg mótfallinn, eins og jeg hefi áður verið. Það var rannsakað ítarlega, hvernig þessi breyting yrði í framkvæmdinni, og það reyndist svo, að skatturinn á fólksflutningabifreiðunum breyttist lítið eða jafnvel ekkert, en að breytingin kæmi aðallega niður á vöruflutningabifreiðunum. Jeg hefi fengið nokkrar upplýsingar þessu viðvíkjandi um flutningabifreiðar, sem notaðar eru til mjólkurflutninga í kjördæmi hv. flm. (ÓTh: Það er langt síðan jeg heyrði þær!). Jæja, það var ágætt, því að jeg er búinn að gleyma tölunum, en þær sýndu greinilega, að það er rjett, sem jeg hefi haldið fram. — Jeg mun því greiða atkv. með rökst. dagskránni, aðeins til að koma málinu fyrir.