06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Magnús Torfason:

* Jeg stend upp til þess eins að mótmæla, að sama sje látið ganga yfir vörubifreiðar og fólksflutningabifreiðar, en sú stefna sýnist mjer hafa komið fram hjá nokkrum hv. þdm. Flutningabifreiðar eru notaðar í þágu atvinnuveganna, bæði til lands og sjávar. Ef þær eru skattlagðar, eru það skattar á atvinnuvegina. í kaupstöðum eru þær t. d. mest notaðar í þágu fiskiveiðanna, og í sveitum til að flytja ýmsar vörur til bænda og frá þeim. — Skattur á mannflutningabifreiðum er aftur á móti nokkurskonar skemtanaskattur yfirleitt. Á það var bent af einhverjum, að með lítilli fyrirhöfn mætti breyta flutningabifreiðum í fólksbifreiðar. Ójá, þetta er hægt; en þá eru þetta opnir vagnar, með óþægilegum trjesætum. Þess háttar bifreiðar eru helst notaðar til að flytja kaupafólk fram og aftur, ásamt vörum. Og jeg held, að ástæðulaust sje að leggja skemtanaskatt á þá, sem leggja á sig að ferðast með þessum farartækjum. Við skulum segja, að t. d. „Kveldúlfur“ ljeti setja bekki á fiskbílana sína, og flytti svo verkafólkið í Þrastaskóg, þá held jeg að ástæðulaust væri að skattleggja hann sjerstaklega fyrir það. — Með gúmmískatti væri aftur á móti verið að refsa mönnum fyrir að fara vonda vegi, því að þar þarf meira gúmmí. — Þetta vil jeg aðeins taka fram til að leiðbeina mönnum, en ekki til að deila á neinn.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.