06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Jakob Möller:

Jeg sje, að það er ekki nægilega skýrt fyrir sumum, sem jeg sagði um breytinguna á bifreiðaskattinum í bensíntoll. Jeg fjekk fyrir nefndarinnar hönd nokkrar upplýsingar um þetta hjá einni stærstu bifreiðastöðinni hjer í bæ. Útkoman varð sú, að með helmingi lægri bensíntolli en frv. gerir ráð fyrir, yrði jafn hár skatturinn og nú er. Þessi stöð á aðallega fólksbifreiðar, en þó nokkrar vörubifreiðar, og eru vagnar hennar vitanlega í gangi alt árið. Það er vitanlega rjett hjá hv. flm. (ÓTh), að aukist skatturinn til muna á sumum bifreiðum, en útkoman verður hin sama, þá hlýtur það að stafa af því, að einhver græðir á umskiftunum. Þarna verða það auðvitað lítið notaðar fólksbifreiðar. Jeg get játað, að það sje rjett, ef menn vilja breyta bifreiðaskattinum í vegaskatt, að leggja hann þá á eftir því, hve mikið bifreiðarnar nota vegina. En jeg get bara ekki fallist á, að hann eigi að vera vegaskattur.