26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Árni Jónsson:

Jeg veit ekki, hvort hv þm. Barð. (HK) er að halda þessar ástæðulausu hrókaræður til að stytta þingtímann eða flýta framgangi mála. Það eina, sem hann sýndi nú, var, að hann hefir reiðst hv. fjvn. fyrir að leita ekki samþykkis hans eða leyfis til austurfarar. Hv. þm. (HK) fann sig knúðan til að blanda allshn. inn í þetta mál og gera lítið úr ferðum hennar í fyrra. Jeg átti sæti í þeirri nefnd þá og er þar enn. Skal jeg nú sýna hv. þm. Barð. gerðabók nefndarinnar, svo að hann geti sjeð, hvað upp úr ferðalaginu hafðist. Af því að við höfum altaf verið vinir, þykir mjer leiðinlegt að heyra hann fara með staðlausa stafi fyrir ókunnugleika sakir.