30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Tryggvi Þórhallsson:

Það mun vera í 12. sinnið, sem frv. þetta er á dagskrá hjer í deildinni. Þar að auki hefir annað mál, nær sama efnis, verið álíka oft á dagskrá. Er því ekki undarlegt, þó að umræðurnar um þau sjeu orðnar nokkuð langdregnar, enda þótt þau hafi ekki altaf verið rædd, þegar þau hafa staðið á dagskránni.

Þá virðist það ekki hafa verið ófyrirsynju gert, þegar þess var óskað, að mál þetta væri tekið út af dagskrá, svo hægt væri að koma að brtt. við það, því að nú hafa komið fram við það margar brtt., bæði frá háttv. form. landbn. (PÞ) o. fl. Er það því ljóst, að ekki hefir verið ástæðulaust að fá málinu frestað. Það gladdi mig ekki svo lítið að sjá till. háttv. þm. Mýr. (PÞ), form. landbn., því að það gleður mann altaf, þegar einn syndari bætir ráð sitt. Annars bjóst jeg altaf við því, að það yrði hv. þm. Mýr., sem fyrstur sæi að sjer.

Jeg á hjer brtt. á þskj. 423; ganga þær að mestu leyti í sömu átt og brtt. þær, sem við háttv. 2. þm. Skagf. bárum fram við útrýmingarfrv. nú fyrir nokkru. Þó kveða þær nánar á í 8. gr., ef sýnilegt er, að kláðanum er ekki hægt að útrýma með þeirri aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir, þá fái stjórnin heimild til þess að láta fara fram útrýmingarböðun um land alt, þó ekki fyr en í árslok 1930. Það er því lagt á vald stjórnarinnar að ráða fram úr þessu, með aðstoð þeirra sjerfræðinga, sem hún hefir á að skipa.

Þetta mál er nú þegar orðið svo þrautrætt, að jeg finn ekki ástæðu til þess að fara inn á kjarna þess nú. En till. þessar hefi jeg borið fram sem nokkurskonar milliveg milli tillagna þeirra, sem fram hafa komið, og nú finst mjer ekki það djúp staðfest á milli þeirra, að ekki megi samþykkja þessar brtt. En það tek jeg fram, að verði þessar tillögur mínar ekki samþ., þá er jeg neyddur til að greiða atkv. á móti frv.

Þá skal jeg geta þess, að jeg hefi heyrt, að þess mundi verða óskað, að forseti úrskurði till. þessar frá, af því að þær sjeu líkar að efni og till. þær, er feldar hafi verið við hitt frv. En þetta er ekki rjett. Till. voru sem sje alls ekki feldar. Till. þessar eru og að sumu leyti annars eðlis. Auk þess var því frv. vísað frá, einmitt með þeim forsendum, að hægt væri að koma fram með brtt. við þetta frv. Um þetta hefi jeg vin minn, háttv. þm. Barð. (HK), grunaðan, og til þess að spara mjer ræðu síðar, vildi jeg mótmæla þessu fyrirfram.