30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (2680)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Magnús Torfason:

Jeg þarf engu að svara hæstv. atvrh. (MG) því, er hann beindi til mín. En mjer fanst orð hans bera vott um það, að hann hefði að minsta kosti ekki lesið frv. með þeirri alúð, sem nauðsynleg var til þess að fá rjettan skilning á því. Hæstv. ráðh. var að tala um það, að 8. gr. frv. mundi vera gerð í blekkingartilgangi, og dró hann þá ályktun af því, að einn stuðningsmaður frv. ljet í ljós þá von, að ekki þyrfti að koma til útrýmingarböðunar 1930–’31. — Jeg verð nú að segja það, að eg er alveg sömu skoðunar, eða hefi þessa sömu von, að ákvæði frv. reynist svo merkileg í framkvæmdinni, að ekki þurfi að koma til útrýmingarböðunar; þá væri tilgangi okkar náð. Og ef svo vel færi, þá sýnir það, hvað frv. hefir verið vel og hyggilega samið.

Það virðist svo, sem sumir hafi gleymt því, að frv. er skoðað sem undirbúningur undir fullkomna útrýmingu. Það er líka vitanlegt, að slík útrýming þarf mjög mikinn undirbúning. Sem stendur höfum við ekki nógum mönnum á að skipa, sem sjeu færir um að veita slíku forstöðu. Dýralæknirinn hjer í Reykjavík getur ekki aðstaðið, vegna sjúkleika. Til þess að sjá um framkvæmd útrýmingarböðunar þarf hrausta menn á besta aldri og menn, sem beinlínis hafa lært að lækna kláða. Jeg lít svo á, að í frv. sjeu ákvæði, sem eigi að styðja að því, að ala slíka menn upp, enda er það víst, að það verður aldrei neitt gagn að útrýmingarböðun fyrr en við höfum á að skipa mönnum, sem hafa kunnáttu í þessum efnum.