30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í C-deild Alþingistíðinda. (2684)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Guðnason:

Jeg hefi til þessa leitt hjá mjer þau tvö fjárkláðafrv., sem hjer hafa verið á ferð. Það hefir ekki stafað af því, að jeg væri hikandi eða óákveðinn um það, hvernig jeg ætti að greiða atkv., heldur af hinu, að mjer hefir þótt litlu þurfa við að bæta það, sem hv. flm. útrýmingarfrv. hafa sagt. Þó vil jeg nú lýsa afstöðu minni stuttlega, áður en hv. deild afgreiðir málið endanlega af sinni hálfu.

Jeg tel, að hv. fylgismenn og flytjendur þessa frv. hafi nú komið málinu í algert óefni. Því mun jeg greiða atkv. með því, að vísa þessu frv. til stjórnarinnar. Hæstv. landsstjórn hefir sýnt það í verki, að hún er í kláðamálum betur fær um að koma með tillögur á viti bygðar heldur en meiri hluti hins háa Alþingis. (HK: Henni er fullvel treystandi í öllum öðrum málefnum. Betur, að hv. þm. sæi það!). — Jeg sagði, að málinu hefði nú verið komið í óefni. Jeg er sannfærður um, að þótt þetta frv. verði að lögum. verður eftir sem áður sama kákið í útrýmingu kláðans. Það, sem við getum lært mest af í þessu máli, eru Myklestadsbaðanirnar, þótt þær tækjust ekki betur en raun er á orðin, þá er þó víst, að þær eru hinn mesti gróðahnykkur okkar Íslendinga í kláðamálum á þessari öld. (Atvrh. MG: Alveg rjett!). Þær gerðu það að verkum, að hjer á landi var sama sem kláðalaust næstu 10 árin á eftir. Ef menn gætu reiknað út sparnaðinn af því, að hjer yrði kláðalaust, að minsta kosti í mörg ár á eftir að allsherjar útrýmingarböðun væri framkvæmd, þá hygg jeg, að allir sæju, að sjálfsagt væri að leggja út í hana. Þótt e. t. v. ekki gæti fyrir fult og alt tekist að útrýma kláðanum með snerpunni, mundi það þó áreiðanlega hafa orðið annar stærsti gróðahnykkurinn í þessu máli að samþykkja útrýmingarfrv. Enginn efi er heldur á því, að nú vill mestur hluti bænda, einkum hinna framsýnni og framsæknari, reyna að útrýma kláðanum með öllu, og þeir hafa enga trú á þessu kostnaðarsama káki, sem nú er framkvæmt og einnig á að framkvæma eftir frv. því, er nú er hjer til umræðu. (HK: Annað sanna skýrslurnar!). Þótt nú sje stundum skipað fyrir um útrýmingarbaðanir á takmörkuðu svæði, þá eru þær jafnan framkvæmdar með hangandi hendi, því að menn vita, að kláðinn flæðir rjett strax yfir þetta svæði aftur frá nágrannasveitum, þar sem engin útrýmingarböðun hefir á sama tíma fram farið. Hv. þm. Barð. sagði, að til væru þeir menn, sem ekki vildu leggja það á sig eða fje sitt, að framkvæma útrýmingarböðun. (HK: Þetta eru ósönn orð; þetta hefi jeg aldrei sagt!). Jeg skrifaði þetta upp eftir hv. þm„ en úr því að hann vill svo fúslega taka það aftur, þá er síður en svo, að jeg vilji meina honum það. — En með kákinu er verið að ala upp í mönnum mótþróa gegn þessum málum. Það er vitanlegt, að fjeð tekur ögn út við að vera baðað, og menn vilja ógjarnan leggja það á það, nema einhver von sje um árangur. Jeg er eiginlega hissa á því, að nokkur skuli vera með þessu kákfrv. Allar almennilegar og þrifnar húsmæður ganga að því með oddi og egg, ef óþrifnaður berst inn á heimili þeirra, að útrýma honum með öllu. Mjer finst Alþingi ekki mega sýna minni manndóm en hinar góðu húsmæður, sem ekki vilja láta neinn óþrifnað eiga sjer stað innan síns valdssvæðis, sem er heimili þeirra. (MT: Nú fer maður að skilja, af hverju alt morar af kláða í Dölum. — TrÞ: Og í Árnessýslu! — MT: Nei, þar er ekki mikið um kláða. — Forseti: Ekki samtal!). Valdsvið Alþingis í löggjafarefnum nær yfir landið alt. A því stóra heimili eigum við sem bráðast að láta fara fram mikla hreinsun, útrýma þeirri plágu, fjárkláðanum, sem svo lengi er búinn að baka okkur skömm og skaða.