02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (2695)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Það er nú orðið æði langt síðan frv. þetta var borið fram hjer í deildinni, og mestan þann tíma hefir það legið hjá landbn., eða upp undir 4 vikur. Ástæður nefndarinnar fyrir þessum drætti eru þær, er fram koma í nál. og frsm. (ÁJ) hefir nú skýrt frá, að hún hafi orðið að leita sjer ýmissa upplýsinga. Og svo hefir hún talið, að málið væri ekki svo vel undirbúið, að rjett sje að afgreiða það nú. Jafnframt hefir hún lýst yfir því, að við mættum una við núverandi löggjöf um þetta efni.

Þar sem nefndin talar um það, að málið vanti undirbúning og nauðsynlegt sje að byggja á reynslu annara þjóða, þá get jeg ekki gengið inn á það, að undirbúningurinn sje ófullnægjandi. Jeg fæ ekki betur sjeð heldur en að það sje betur trygt með frv. en með núgildandi heimildarlögum, að spornað verði við því, að þessi skaðræðisveiki berist hingað til lands. Hjer í frv. eru taldar upp þær vörur, sem reynsla er fengin um á Norðurlöndum að eru hættulegar, þannig, að veikin geti borist með þeim, t. d. mjólkurafurðir, svo sem smjör og ostar, og ekki síst egg, sem fullkomin reynsla er fyrir, að sýkin berist með. Þar eru líka taldar upp ýmsar aðrar vörur, sem líklegt er talið, að veikin geti borist með, og þess vegna ætlast til, að hömlur sjeu settar á um flutning þeirra, eins og gert er annarsstaðar á Norðurlöndum. Hjer er og nokkru nánar gengið inn á að takmarka innflutning frá mjólkurbúum, því að það er ábyggileg reynsla fyrir því í Noregi, að veikin getur borist með fóðurvörum, sem mjólkurbú selja, og í einum stað í Noregi voru upptök veikinnar að minsta kosti rakin þá leiðina til mjólkurbús. Með öðrum orðum: upp í þetta frv. eru teknar þær vörutegundir, sem reynslan hefir sýnt, að veikin berst með og þær vörutegundir, sem grunaðar eru um það að geta flutt veikina. Jeg held því, að þótt nefndin hefði átt kost á að kynnast löggjöf annara þjóða um þetta efni, þá hefði hún ekki talið ástæðu til að ganga lengra en í frv. er gert, og á þessu bygðum við flm. frv.

Jeg hygg því, að ástæðulaust sje að fresta málinu af þessum sökum eða til þess að bíða eftir frekari reynslu, sjerstaklega þegar litið er til þess, hvílík óskapahætta vofir yfir okkur. En úr því að vitnað er í það, að við þurfum frekari reynslu, þá er það ekki útilokað, að við fáum hana sjálfir, þannig, að veikin berist hingað áður en varir. En sú reynsla yrði of dýrkeypt. Það er betra að byrgja brunninn í tíma, og sjálfsagt að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að hindra það, að veikin berist hingað.

Þá er að athuga það, hvort örugt sje að varpa öllum áhyggjum upp á núverandi löggjöf um þetta efni. Það er nú svo um þá löggjöf, að samkvæmt henni er ekki hægt að banna innflutning á hættulegum vörum, neina frá þeim löndum, þar sem veikin geisar, og í lögunum er líka gert ráð fyrir, að það bann gildi aðeins um stundarsakir. Það er kunnugt, að því er svo háttað með þessa veiki, að hún gýs upp alt í einu og leggur þá undir sig stór svæði í einu vetfangi, en getur svo legið niðri um lengri tíma. En reynslan hefir sýnt, að þrátt fyrir það, þótt hún hafi legið niðri, þá er sýkillinn ekki útdauður að heldur, og veikin logar upp aftur innan mismunandi langs tíma. En það er hæpið, að hægt sje samkvæmt heimildarlögunum að banna innflutning frá þeim löndum, þar sem sýkin liggur niðri, og þá getur hún engu að síður borist hingað, meðan svo er ástatt. Það er ekki fullkomin reynsla fengin fyrir því, en þó nokkur, að gripir í þeim löndum, þar sem veikin er landlæg, verði ónæmari fyrir henni. En hitt er vitanlegt, að þar sem veikin kemur í fyrsta skifti, er sýkingarhættan afskapleg og afleiðingar veikinnar ekki síður. Og eins og nú er komið í útlöndum um veikina, þá verðum við að tryggja okkur með ákveðinni löggjöf, en ekki með neinum bráðabirgðaákvæðum. Það er sá stóri munur, sem er á núgildandi lögum og þessu frv. Það er miklu öruggara að ganga hreint til verks nú, heldur en að slá öllu á frest og byggja varnarráðstafanir sinar á svo ófullkominni löggjöf sem heimildarlögin eru.

Þá er annað atriði þessa máls, að veikin berst eigi aðeins með alidýrum og dauðum hlutum, heldur einnig með mönnum, og það er reynsla fyrir því, að mikil hætta er á að hún berist úr einum stað í annan með fólki. Út af þessu gaf hæstv. stjórn út auglýsingu 27. desember s. l. um það, að allir, sem kæmu frá útlöndum, yrðu að gefa drengskaparvottorð um það, að þeir hefðu eigi síðustu 6 mánuðina dvalið þar, sem veikin er, en ef svo væri, að þeir hefðu dvalið þar, var þeim bannað að fara upp í sveitir um ákveðinn tíma. Það er engu síður nauðsynlegt að hefta útbreiðslu veikinnar á þennan hátt. í frv. er ákvæðum þessarar auglýsingar að mestu fylgt, en tíminn þó lengdur í samræmi við það, sem er um slík samgönguhöft í Danmörku.

Jeg býst nú við því, að auglýsing þessi eigi að byggjast á heimildarlögunum frá síðasta þingi, en það geta verið skiftar skoðanir um, hvort hægt er að byggja slík ákvæði á þeim lögum, eða hvort þessi auglýsing hefir yfirleitt við lög að styðjast og hvort hægt sje að fylgja henni fram til þrautar, ef sýndur er mótþrói. Grundvöllurinn er að minsta kosti mjög valtur, og gerir það með öðru lagabreytingu nauðsynlega.

Það urðu mikil vonbrigði fyrir mig, að hv. landbn. skyldi taka svo í þetta mál sem hún hefir gert, og það því fremur sem nefndin segist vera. okkur flm. sammála um það, hver hætta sje hjer á ferðum og vill, að beitt sje öllum ráðum til þess að fyrirbyggja, að veikin berist hingað.

Jeg býst nú ekki við því, að það hafi mikla þýðingu að spyrna á móti broddunum, því að málið muni tæplega, sökum þess, hversu tíminn er orðinn naumur, verða afgreitt á þessu þingi, bæði vegna þeirrar tafar, sem það hefir orðið fyrir, og eins vegna þess að hv. landbn. er því mótfallin. En það tel jeg síst lakari afgreiðslu, að vísa frv. til hæstv. stjórnar, úr því sem komið er, heldur en að það verði felt, eða dagi uppi í þinginu. Þó verð jeg að segja, að mjer finst það heldur óráðlegt af nefndinni að skila ekki nál. sínu svo tímanlega, að frv. hefði getað náð fram að ganga þess vegna. Það, sem nefndinni kann að þykja áfátt við frv., hefði hún getað lagað í hendi sjer með brtt.

Þrátt fyrir það, þó komið sje í hálfgert óefni með afgreiðslu þessa máls sökum tímaskorts, þá vil jeg samt skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún ekki sjái sjer fært, að fengnum þessum upplýsingum, að leggja það nú til, að málið verði afgreitt.