02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Björn Líndal:

Jeg held, að hv. flm. (PO) hafi misskilið mig. Jeg hefi ekkert út á það að setja, þótt bannaður sje innflutningur á ull og dún frá þeim löndum, þar sem gin- og klaufaveiki liggur í landi eða gengur. í frv. er aðeins talað um „næma alidýrasjúkdóma“, og það er það, sem mjer finst fjarstæða. Það nær t. d. engri átt að banna innflutning á ull og dún frá þeim löndum, þar sem eru sömu alidýrasjúkdómarnir, sem hjer liggja í landi, og aðrir ekki. — Hv. frsm. (PO) mintist lítillega á 4. gr. í tilefni af því skal jeg taka það fram, að jeg er ekki nægilega kunnugur þeim lagaákvæðum, sem erlendis gilda um þau atriði, til þess að geta gert á þessu ábyggilegan samanburð. En það er mikils vert að ganga ekki of langt í þeim efnum.