18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jónas Kristjánsson:

Það er satt, að nokkur dráttur hefir orðið á afgreiðslu þessa máls, en þó ekki meiri en afsakanlegur er. Til þess að geta afgreitt málið nokkurnveginn sómasamlega, varð nefndin að afla sjer ýmislegra upplýsinga, svo sem nærri má geta. Magnús Einarson dýralæknir var erlendis, þar til fyrir skömmu, en vitanlega vildi nefndin leita álits hans um ýms atriði, þar sem hann er helsti sjerfræðingur í þessum efnum, sem hjer verður náð til.

Það er hverju orði sannara, að gin- og klaufaveikin er vágestur mikill, og hin mesta hætta á ferðum, ef hún berst hingað. Og síðan veikin barst til Noregs, hefir hættan vitanlega aukist að mun fyrir okkur. Vitanlega stafar aðalhættan af innflutningi dýra, en þar held jeg, að við höfum verið sæmilega á verði. Skömmu áður en veikin barst til Noregs, var t. d. sótt um leyfi til að mega flytja inn lifandi geitur frá sýktu landi, en því var neitað, að ráði dýralæknis. — Frv. það, sem hjer liggur fyrir, bannar vitanlega innflutning á lifandi fje. En að öðru leyti ber frv. með sjer, að það er samið af mönnum, sem eru bráðókunnugir þessum efnum. Þar er bannaður innflutningur á vörum, svo að segja af handahófi, án tillits til þess, hvort aðrar vörur eru ekki miklu hættulegri. Það er t. d. áreiðanlegt, að geti veikin borist með heyi og hálmi, og það efast jeg ekki um, þá getur hún engu síður borist með ýmiskonar korni og fóðurkökum, og ekki síst með kartöflum, sem ræktaðar eru í görðum, sem ef til vill er borinn í áburður sýktra dýra. En kartöflurnar eru ekki einu sinni almennilega þurkaðar, þegar þær eru teknar upp og síðan geymdar á dimmum stöðum, svo að sýklarnir hafa hjá þeim hin bestu lífsskilyrði. — En frv. nefnir engar innflutningshömlur á korni eða kartöflum, þótt það banni innflutning á nokkrum vörutegundum, sem sennilega eru alveg hættulausar. Þannig er frv. samið af handahófi, og vandlega sneitt hjá fyrirmælum um að leita ráða dýralæknis.

Mjer var nýlega bent á alveg nýjar upplýsingar um þessa veiki í ensku læknisfræði tímariti, „The Lancet“, 5. tbl. þ. á., sem út kom í mars. Þar er sagt frá því, að árið 1924 hafi enska stjórnin sett nefnd sinna allra færustu manna á þessu sviði, til þess að rannsaka háttsemi veikinnar og líf gerlanna, sem talið er að hún stafi af. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að gerlarnir (virus) gætu lifað nokkrar vikur á gleri eða þerripappír í rannsóknarstofu, við venjuleg skilyrði, þótt þeir sjeu í dagsbirtu. En á heyi og korni, möluðu og ómöluðu, geta þeir lifað 7–20 vikur. Ennfremur segir í þessari skýrslu, að hægt sje að sýkja fugla, en þeir sýki ekki frá sjer. Samkvæmt því ættu egg að vera hættulaus. En frv. bannar innflutning þeirra. Þetta er bygt á rannsóknum hinna færustu vísindamanna í þessum efnum.

Landbn. álítur því best sjeð fyrir málinu með því að nota lögin frá 1926, einkum ef stjórnin hefir óbundnar hendur um að gera frekari ráðstafanir, með reglugerð eða bráðabirgðalögum. Í samþykt þessa frv. telur nefndin ekki liggja neina tryggingu fyrir því, að veikin berist ekki hingað. — Sjerstaklega á jeg bágt með að fella mig við það, að í frv. er hvergi gert ráð fyrir, að leitað sje ráða dýralæknis. Þó hlýtur hann altaf að hafa mesta þekkingu á þessum málefnum og fylgjast best með í öllum rannsóknum á veikinni erlendis.