18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Guðmundur Ólafsson:

* Mjer þykir verst, að hv. form. landbn. (EJ) er ekki við. Hann veittist að mjer lítillega í ræðu sinni. En mjer fanst öll ræða hans sanna mitt mál og bera þess vott, að hann hafi ekki úr hófi fram heitan áhuga á þessu máli. Hann vildi segja, að lögin frá 1926 um svipað efni og þetta frv. væri að mestu leyti nægileg. En þó ekki væri nema að mestu leyti, vildi hann samt láta þar við sitja og ekki setja nein ákvæði um frekari varúð, meðan hættan er sem mest. Hvað sýnir betur en slík ummæli og önnur eins, að sá, er tekur þau sjer í munn, er með öllu áhugalaus og alvörulaus hvað þennan voða snertir? Hann sló á gamanstrengi, og kvaðst fyrir sitt leyti vilja hafa brauð til matar, þótt til mála kæmi að banna innflutning á korni. Hann þarf ekki að vera hræddur um, að til þess komi, og ekki er farið fram á það í frv.

Nokkuð líkt fór fyrir hv. 6. landsk. (JKr), þegar hann hann tók kartöflurnar t. d., og var að útmála, hvað fyrir okkur lægi, ef við ætum ekki kartöflur, jeg held mest mata. Ef bannaður yrði innflutningur á kartöflum, hjelt hann að menn mundu fá skyrbjúg. Bara að hann gæti þá sýnt okkur fram á, að við fengjum ekki aðra sending öllu verri viðureignar en nokkurntíma skyrbjúg.

Það kátlegasta við þetta alt saman er það, að hv. nefnd er ýmislegt að finna að frv., en hefir svo annaðhvort ekki nenning eða getu, nema hvorttveggja sje, til þess að koma með brtt. við frv.

Þá er það hæstv. atvrh. Mjer þótti satt að segja ekki nema eðlilegt, að honum þætti skynsamleg till., að málið færi til stjórnarinnar, þar sem hann á sjálfur sæti í þeirri hæstv. stjórn og veit gerst, hversu þeim málum er vant að reiða af, er þar lenda. Síðan fjelst hann á hugsanagang hv. landbn., að gallar væru á frv., og því ekki vert að samþ. það. Hann hnaut um það atriði í frv., að heimilt væri að veita undanþágu um innflutning á dýrum, en ekki t. d. eggjum. Mátti ekki breyta því og hafa endaskifti á heimildinni, strika út innflutning dýra og setja inn eggin í staðinn? En hv. nefnd hefir ekki orðið úr vegi að gera, hvorki þessa breytingu nje aðrar, sem henni kynnu að hafa þótt betur fara. Hvað sýna nú slík ummæli og aðgerðir sem þessar? Ekkert annað en það, að hæstv. ráðh. (MG) og háttv. nefnd, eða meiri hl. hennar, eru ánægð með ástandið eins og það er og vilja ekki setja neinar strangari varúðarreglur við því, að veikin berist hingað til lands. Hæstv. atvrh. vildi reyndar fara að kynna sjer þetta betur ytra, mjer skildist einkum og sjer í lagi á Englandi. En það er ekki víst, að veikin bíði eftir þeir rannsóknum öllum og hyggilegu framkvæmdum og tryggu ráðstöfunum, sem af þeim á að leiða. Jeg geri mjer engar vonir um, að hún geri boð á undan sjer eða spyrjist fyrir um, hvenær hæstv. ráðh. (MG) er tilbúinn að taka á móti henni. Hann kvað heldur ekki vera ástæðu til að sporna við varúðarráðstöfunum. Full ástæða væri til að reyna að verjast veikinni. — Þó það nú væri! Jeg býst við því, að það mætti vera grunnhygginn maður í stöðu hæstv. atvrh. (MG), ef hann færi að halda því fram, opinberlega að minsta kosti, að engin ástæða væri til að standa eitthvað á móti. En alt þyrfti þetta að rannsakast áður en hafist væri handa, sagði hæstv. ráðh. (MG). Það er nú svo. Jeg held, að sú rannsókn hefði átt að vera komin fyr og árangur hennar lagður fyrir þetta þing, til þess að svigrúm ynnist í tæka tíð til tryggari löggjafar í þessu efni heldur en lögin frá 1926 eru.

*Ræðuhandrit óyfirlesið af þm.