18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (2741)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jónas Jónsson:

Það er auðsjeð, að dýralæknirinn í Reykjavík hefir mikil áhrif á gang þessa máls. Er kunnugt hald manna um það efni í hv. Nd. Og nú er það hann, sem hefir komið þeirri bakteríu inn í hv. meiri hl. landbn. hjer, sem veldur dauða þessa frv. nú. Það er auðsætt af orðum hæstv. atvrh., að honum er ljóst, að dýralæknirinn er ekki eins vel fær til leiðbeininga síðan hann veiktist í vetur, og því hefir hann nú við orð að leita til útlanda um upplýsingar. En eins og tekið hefir verið fram, getur orðið langt að bíða eftir þeirri þekkingu, sem þaðan á að fást, og hættan vofir yfir. Þar sem nú dýralæknirinn var veikur í vetur og gat ekki aðstoðað hæstv. stjórn, þá hefði verið eðlilegt, að hún hefði leitað upplýsinga í þessu skyni og leiðbeint þinginu samkvæmt því, í stað þess að draga úr framkvæmdum í málinu. Sinnuleysið í þessum sökum er gallinn á framkomu hæstv. stjórnar og sumra fylgismanna hennar hjer í Ed. Hinsvegar á það alls ekki við um marga stuðningsmenn hennar í hv. Nd., t. d. hv. þm. Borgf. (PO), sem vítti hæstv. stjórn fyrir það, að hafa ekki gert samkvæmt þeim lögum, sem sett voru í fyrra, neinar nýjar ráðstafanir til varnar gegn sýkinni, fyr en eftir að veikin hafði blossað upp í Noregi og knýja varð fram einhverjar aðgerðir með ítrekuðum áskorunum í blöðum. Og loks, er þær komu, voru þær ekki merkilegri en svo, að eitt blaðið, sem þó styður hæstv. stjórn, gerði jafnvel gys að þeim. Hvernig stendur á því, að ekki voru gerðar ráðstafanir í sumar, eftir að lögin gengu í gildi, og í haust, eftir að frjettist um veikina, viðvíkjandi þeim mönnum, sem komu frá útlöndum og grunur gat leikið á að kæmu frá sýktum hjeruðum? Mjer finst það benda á, að lögin frá 1926 sjeu ekki nægilega sterkt aðhald, og hæstv. stjórn hafi hinsvegar ekki haft þann áhuga, sem skyldi. Og nú reynir hvorki hæstv. landstjórn með þeirri þekkingu, sem hún ætti að hafa aflað sjer, nje háttv. meiri hl. landbn., sem manni sýnist þó málið skyldast, að laga frv. eða breyta því, heldur gera þessir tveir aðilar alt til þess, að það dagi uppi eða verði beinlínis felt. Því hefir verið haldið fram, að í frv. væri taldar vörutegundir, svo sem egg, smjör og kartöflur, sem ekki kæmi til mála að banna innflutning á. En alt eru þetta vörur, sem við ættum að geta framleitt nægilega mikið af í landinu sjálfu. Hvaða ástæða er t. d. til að flytja inn smjör? Hjer er nóg af fólki, sem líður neyð af atvinnuleysi, af því að okkur hefir enn ekki lærst að leggja fulla stund á það, sem hægt er að vinna að í okkar eigin landi. Þyki einhverjum hjer kenna of mikils „agrarisma“, þá vil jeg benda þeim hinum sama á það, að þetta frv. er samið og sniðið eftir þeim reglum, sem gilda í Noregi. Og annaðhvort hefir hv. Nd. skjátlast hrapallega, þar sem meiri hl. hennar samþ. frv., eða reglurnar eru í öllum aðalatriðum fullkomlega frambærilegar.

Hæstv. atvrh. kvað dýralækninn hafa gert mikið gagn með því að hindra innflutning lifandi dýra. Má satt vera. En óskynsamlega langt má ganga í því efni, því að hægur vandi er að ganga úr skugga um, að engin hætta fylgi, með því að einangra dýrin vissan tíma, t. d. í úteyjum, áður en þau eru flutt í land. En það verður hæstv. ráðh. (MG) þó að játa, að dýralæknirinn hefir ekki gert neinar sjerstakar ráðstafanir gagnvart þessari veiki. Hefði þó verið sjálfsögð skylda hans, að vekja að minsta kosti eftirtekt þings og stjórnar á hættunni.

Röksemdaþrot hv. 6. landsk. (JKr) hlaupa með hann, eins og vant er, út í fúkyrði. Hann bregður mönnum um fáfræði og heimsku. Hann ætti að láta sjer hægt og varast að nefna snöru í hengds manns húsi, því að kunnugt er, hve lítið hann hefir til brunns að bera af andstæðum þessa, þekkingu og viti, hvað þingmál snertir, og það lítið hann leggur til málanna, þá er það veikt bergmál af öðrum.

Þrátt fyrir alla bakteríufáfræði háttv. 6. landsk., er það fyllilega rjett, sem jeg sagði, að enn er það vísindalega ósannað, sem hann fullyrti rjett vera, að hægt sje að vita aldur bakteríu, sem enginn þekkir. Enda neyddist hv. þm. til þess að játa vitleysurnar óbeinlínis og fór að tala um alt annað, þol og verkanir bakteríunnar, sem hægt væri að athuga, þótt ekki þektist hún. En hver heilvita maður sjer, að meðan hún er ekki hreinræktuð og einangruð frá öllum óviðkomandi áhrifum, er engin trygging fyrir því, að veikin stafi ekki af annari orsök en ætlað er. Og menn hafa ekki leyfi til að halda því fram sem fullsönnuðu, sem er á líkum bygt. Jeg veit vel, að hv. 6. landsk. (JKr) trúir þessu, sem hann heldur fram, af því að honum hefir verið sagt þetta.