18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Ingvar Pálmason:

* Það hefir verið kastað hnútum til hv. landbn. út af meðferð hennar á þessu máli, en þó frekar til hv. meðnefndarmanna minna en til mín. Samt vil jeg ekki láta hjá líða að víkja nokkrum orðum að aðfinslum þeim, sem fram hafa komið í garð nefndarinnar.

Menn eru óánægðir yfir því, að nefndin skuli hafa farið þá leið í þessu máli, sem hún hefir kosið að fara, en ekki þá leiðina, að breyta frv. Jeg vil taka það fram, að eins og áliðið er nú þingtímans, þá myndi málið ekki verða afgreitt nú, ef frv. yrði breytt, heldur hefði afleiðingin orðið sú, að frv. hefði dagað uppi, vegna þess að nefndinni hefði ekki unnist tími til þess að afgreiða málið á þann hátt. Því taldi jeg rjettast að afgreiða það á þann hátt, sem nefndin hefir gert. Jeg hefi tekið það fram, að með þessu ætti að vera hægt að verjast veikinni, og jeg hefi einnig tekið það fram, að nefndin vill á engan hátt slaka til um öryggisráðstafanir, heldur væntir þess, að stjórnin fylgi þeim fast fram og gefi út bráðabirgðalög, ef þörf gerist. Þessa afgreiðslu verð jeg að telja vingjarnlegri við málið heldur en að láta það daga uppi í þinginu, því að með því er ekki um neina fasta stefnu í málinu að ræða, sem hægt er að vinna samkvæmt til næsta þings. En í nál er skýrt frá því, hvað nefndin vill, að gert sje í málinu. Jeg fæ því ekki skilið, hvers vegna fylgismenn frv. átelja þá leið, sem nefndin hefir farið. Hitt skil jeg vel, að þeir hefðu heldur kosið að málið yrði afgreitt í frv.-formi, og er svo einnig um mig. En þar sem málið kom svo seint frá hv. Nd., þá var ekki hægt að afgreiða málið hjeðan úr hv. deild í því formi.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.