08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. minni hl. hefir lagt fram viðamiklar brtt. við frv. það, seni hjer liggur fyrir. En till. þær bera það með sjer, eins og reyndar hv. frsm. minni hl. hefir og viðurkent, að hv. minni hl. hefir ekki haft tíma til þess að gera þær svo úr garði, að þær geti staðist sem lög, ef þær verða samþyktar.

Hv. minni hl. hefir tekið út úr Flensborgarskólann og Ísafjarðarskólann, en hefir engin ákvæði um aðra kaupstaði. Hefði verið meira rjettlæti í því, að koma með tillögu um alla kaupstaði, er náð hefðu ákveðinni íbúatölu. Með því hefði verið komist hjá þeim leiðindum, að þurfa að breyta lögunum í hvert skifti sem óskir koma frá nýjum kaupstað um að vera tekinn inn í kerfið.

Auk þessa sleppir hv. minni hl. öllum unglingaskólum öðrum en þeim stærstu. En hjá því verður ekki komist, að taka upp alla unglingaskóla, sem gera verulegt gagn, enda hefir um langt skeið verið veittur nokkur styrkur til flestra unglingaskóla, sem upp hafa risið. Þá hefir og hv. minni hl. alveg slept húsmæðraskólunum.

Það er nú svo með ungmennafræðsluna, að þörfin skapar smáskóla, sem svo leita til ríkisvaldsins um stuðning. Þegar mikið kveður að þessu, þá er nauðsynlegt að koma föstu skipulagi á þessa skóla, og jeg hygg, að ekki hvað síst þurfi nú að setja ákveðið skipulag á húsmæðraskólana, til þess að hindra það, að skólarnir vaxi upp skipulagslaust. En þetta eru alt atriði, sem þurfa rannsóknar og umhugsunar við, áður en vissa er fyrir, að komið verði á því skipulagi, er geti verið til frambúðar.

Í brtt. hv. minni hl. er gert ráð fyrir því, að kenslumálaráðuneytið skipi skólastjóra og kennara eftir till. þeirra, er lagt hafa fram stofnfje skólanna, Þetta er óframkvæmanlegt. Stofnkostnaðurinn við skólana er oft svo tilkominn, að ómögulegt er að ná til rjettra aðila, auk þess sem það getur oft verið mjög óheppilegt að fela aðilum að gera slíkar till. eins og hv. minni hl. vill vera láta. En hvers vegna eiga þeir aðilar að ráða mestu, er lögðu fram stofnkostnaðinn? Jeg vil heldur hallast að því, að farið væri eftir till. þeirra, sem legðu fram rekstrarkostnaðinn á móti ríkinu. En það eru oft ekki þeir sömu og lögðu fram stofnkostnaðinn. Um þetta þarf nú nánari og betri ákvæði en hv. minni hl. hefir búist við.

Það kemur oft fyrir í brtt., að hv. minni hl. talar um skólahjerað sem aðila. En þessi skólahjeruð eru ekki til. Það er hvergi hægt að ná tökum á þeim. Í lögunum þarf að ákveða, hver hjeruðin skuli vera og hvernig þau eiga að koma vilja sínum að, þegar um skólana er að ræða. Það þyrfti að setja skólanefndir, er svaraði til skólaráðs í samskólafrv. Þetta þarf alt að vera ákveðið í lögunum. Ef brtt. væru í samræmi við samskólafrv., þá ættu skólastjórarnir að teljast til kennara. Auk þess vantar fjölda skóla, sem eiga fullan rjett á því að vera teknir með. Ákvæðin um aðila er leggi til stofnkostnað og reksturskostnað, og um skólanefndirnar, eru losaralegar, auk þess sem ýmislegt fleira vantar í till. Skal jeg ekki fara ítarlegar út í það. En hvernig sem á þetta er litið, þá er ógerningur að samþ. till. eins og þær liggja fyrir. Þó að hægt væri á viku að gera ítarlegar breytingar á frv., þá þyrftu þær að ræðast mikið og það mundi taka langan tíma og stofna málinu í heild í mikla hættu. Mundi jeg helst kjósa, vegna unglingaskólanna, að það fengist svo sem eitt ár til rækilegs undirbúnings um það, hvernig þeim væri best fyrir komið. Hv. minni hl. hefir sagt það um meiri hl., að stefna hans væri að ýta sem mest á eftir samskólafrv., en skilja aðra unglingaskóla eftir.

Jeg vil leyfa mjer, til leiðrjettingar þessu, að lesa nokkur orð upp úr nál. meiri hl., er að þessu lúta; þar segir:

„Með þessu frv., ef það verður að lögum, er stigið svo stórt spor, að meiri hl. telur trygt, að ekki verði lengra að bíða almennrar löggjafar um sveitaskólana en til næsta þings.“

Nú hafa engin andmæli komið fram fyr í þessari hv. deild gegn frv., á þeim grundvelli, að ef þetta spor yrði stigið, þá leiddi það af sjer meiri aðgerðir á næsta þingi um ungmennafræðsluna í sveitum. Þetta sýnir aðeins tortrygni hv. minni hl. Þá tortrygni hafði jeg ekki til að bera, sem heldur, að samskólafrv. verði til að tefja fyrir öðrum unglingaskólum. Jeg veit þvert á móti með vissu, að samþykt þessa frv. verður til að hjálpa almennri unglingaskólalöggjöf áleiðis. Einnig get jeg bent á það, að samskólar Reykjavíkur verða ekki afgreiddir til fulls, þó frv. verði samþ. á þessu þingi, þar eð sækja verður til næstu þinga um endanlegar framkvæmdir málsins, og er þannig víst, að næsta kjörtímabil mun ráða úrslitum þess.

Jeg sje því enga ástæðu til þess að víkja frá stefnu meiri hl. um það, að frv. það, sem fyrir liggur, verði afgreitt nú, í trausti þess, að það, sem eftir er af unglingaskólamálum, verði afgreitt á næsta þingi.

Slíkar tillögur sem þessar eiga ekki að koma fram við 3. umr. Ef þær eru bornar fram í fullri alvöru, þá eiga þær að koma fram við 2. umr., og á þá að fylgja þeim ítarlegt nál. Meiri hl. mentmn. hafði fyrir sitt leyti hugsað sjer að afgreiða frv. um gagnfræðaskóla á Ísafirði með rökstuddri dagskrá, þess efnis, að deildin treysti því, að stjórnin leggi fyrir næsta þing frv. um ungmennafræðslu utan Reykjavíkur. En jeg mun láta mjer nægja, ef hæstv. kenslumálaráðh. (MG) lýsir yfir því, að hann muni leggja fyrir næsta þing frv. um unglingafræðslu utan Reykjavíkur. Ef hann lýsir yfir því, þá mun jeg ekki hika við að láta þessar brtt. allar bíða næsta þings.

Eins og jeg hefi margtekið fram við 2. umr., þá er kerfi um kostnaðarhlutfalli milli ríkis og hjeraðs afgreitt með þessum lögum, svo það er óþörf tortrygni að halda, að aðrir landshlutar sæti lakari kjörum en Reykjavík. Jeg hygg, að fæstir hv. þm. mundu verða því fylgjandi, þó ekki væri nema vegna kjósendanna, svo maður nefni ekki göfugri hvatir, að setja hjeruð úti um landið lægra en höfuðstaðinn í þessum efnum.

Í fullu trausti þess, að þessu máli verði vel borgið á næsta þingi, ef stjórnin ber fram frv. um það, mun jeg greiða atkv. á móti öllum brtt. minni hl., til þess að greiða aðalfrv. götu. Vænti jeg þess, að hv. deild geti gert slíkt hið sama.