11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í C-deild Alþingistíðinda. (2833)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Jónas Jónsson:

Jeg bjóst við því, að hæstv. stjórn ljeti eitthvað frá sjer heyra um þetta mál. En jeg sje, að hæstv. mentmrh. (MG) er ekki viðstaddur, en hæstv. forsrh. (JÞ) er hjer, og mun hann vera málinu kunnugur, og vil jeg því beina til hans nokkrum orðum. En nú sje jeg alt í einu, að inn kemur hæstv. mentamálaráðherra, og mun jeg því snúa máli mínu til hans.

Það, sem sjerstaklega er eftirtektarvert með þetta frv., er það, að hjer er ekki gert ráð fyrir, að um sje að ræða byrjun, heldur fullkomnun á því verki, að landið taki ungmennafræðsluna í sínar hendur, og að örara verði komið upp unglingaskólum bæði í bæjum og sveitum, þar sem þurfa þykir. Þetta er mesta nýjungin í frv. því að áður hefir verið unnið mikið á móti þessari stefnu hjer í þinginu. Hinn látni forsrh. (JM) mun fyrir 2–3 árum, í sambandi við styrkveitingu til eins slíks skóla upp í sveit, hafa látið þess getið, að aðalástæðan fyrir því, að hann væri á móti þeirri styrkveitingu, væri sú, að hann óttaðist, að þegar unglingaskólunum fjölgaði, þá yrði sú niðurstaðan, að þess yrði krafist, að þeir væru að öllu leyti kostaðir af landinu. En hann kvaðst ekki sjá, að landið hefði efni á því, að annast bæði barna- og unglingafræðsluna. Jeg segi þetta, til þess að gefa hæstv. stjórn kost á því að segja, hvort hún sje horfin frá þeirri stefnu, sem þessi látni leiðtogi hennar hefir markað í þessum efnum.

Annars eru tvö höfuðatriði í þessu máli, og vil jeg lítillega drepa á þau. Hið fyrra er, hvort ríkið ætlar með opnum augum að ganga inn á þá braut að kosta þessa skóla, sem væntanlega verða síðar einn fyrir hverja sýslu, en þó gæti það átt sjer stað sumstaðar, að tvær sýslur yrðu um sama skólann. Þá er hitt atriðið, sem athuga þarf, hvort það sje betra fyrir þetta mál, að ríkið reki skólana. En jeg efa mjög mikið að svo sje. Í næstu löndum, t. d. Danmörku, starfar fjöldi unglingaskóla án ríkisstyrks, og álit manna þar í landi er það, að ekki sje heppilegt að breyta um og að ríkið taki á sínar herðar að kosta þá alfarið.

Næst vildi jeg leyfa mjer að spyrja, hvort hæstv. stjórn hugsi sjer að gera þessa stefnubreytingu í þessu máli, og ennfremur, hvort það geti skeð, eins og kom fram í umr. í hv. Nd., að þessi hlunnindi eigi aðeins að ná til unglingafræðslunnar í Reykjavík, en minni kaupstaðir út um land og sveitirnar eigi að bera þar skarðan hlut frá borði?

Jeg vil vekja athygli á því, að þegar frv. þetta var á ferðinni í hv. Nd., greiddu allir Íhaldsmenn atkv. með því, að Reykjavík nyti þessara fríðinda, en á móti því, að alþýðuskólar út um land yrðu sömu rjettinda aðnjótandi, svo sem Hafnarfjarðarskólinn, Borgarfjarðarskólinn, Vesturlandsskólinn, Laugaskólinn og tveir væntanlegir skólar, sem búast má við að komist upp þegar á næsta eða næstu árum.

Það getur vel verið, að hæstv. stjórn hafi ekki viljað fara lengra að þessu sinni, eins og hún mun hafa látið í veðri vaka í hv. Nd. En mjer finst, að hitt geti eins verið meining hæstv. stjórnar, að taka Rvík eina út úr og demba allri alþýðufræðslunni þar á ríkið, en láta svo hina skólana verða útundan. Þó að það kynni að hafa vakað fyrir hæstv. stjórn að auka ekki eyðslu meira en þarna er farið fram á, þá held jeg, að alt þetta fyrirkomulag sje vanhugsað og af vanefnum gert, því það er ekki hægt að færa nein skynsamleg rök að því, að Rvík eigi frekari heimting á þessu heldur en aðrir landshlutar. Enda hljóta hjeruðin að keppa að því, að þetta komist í kring, úr því að fordæmið er skapað.

Þessum spurningum vildi jeg fá svarað, áður en frv. verður vísað til 2. umr. og nefndar, sem jeg á sæti i, enda mundi svarið geta haft talsverð áhrif á afgreiðslu málsins.

Að lokum vildi jeg svo bæta einni spurningu við, sem sje þeirri, hvað hæstv. stjórn hefir hugsað sjer að þetta gengi fljótt fyrir sig, hvenær hún ætlaðist til, að þessari stórbyggingu, sem er fáeinum metrum styttri en landsspítalinn, verði lokið, og hvort ekki þurfi að reisa tvö hús, annað fyrir verklega kenslu.

Sömuleiðis vildi jeg fá upplýsingar um, hve mikið fje hæstv. stjórn hefir hugsað sjer að ríkissjóður þyrfti að leggja í bygginguna. Öllum þessum spurningum vænti jeg að hæstv. stjórn svari nú þegar.