22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í C-deild Alþingistíðinda. (2871)

53. mál, strandferðaskip

Þorleifur Jónsson:

Það eru ekki margir hv. þm. viðstaddir nú í þessari hv. deild, og virðist það benda á, að áhugi manna fyrir þessu máli sje ekki mikill. Jeg tel það alveg þýðingarlaust að halda um þetta mál langa ræðu, enda hefir hv. frsm. meiri hl. sótt málið svo vel, að óþarfi er að fella í skörðin. Út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), skal jeg taka það fram, að það kom fram hjá honum eins og hv. þm. Barð. og hæstv. atvrh., að getuleysi ríkissjóðs væri aðallega til fyrirstöðu því, að mál þetta kemst ekki í framkvæmd, en ekki að þeir áliti þetta ónauðsynjamál. Hv. frsm. minni hl. sagði, að samgöngubætur á landi væru meira aðkallandi en samgöngubót sú, sem hjer er farið fram á. Jeg held, að það kenni nokkurrar þröngsýni hjá hv. þm. (JÓl), að hann hefir verið með því að veita heimild til 2 miljóna kr. framlags úr ríkissjóði til samgöngubóta á landi, en legst nú á móti þessari samgöngubót, sem hjer er um að ræða. Það má vel vera, að járnbraut austur sje mjög nauðsynleg, en jeg held, að hún sje ekki meir aðkallandi en þessi samgöngubót á sjónum, þótt hann metti hana meira. En það er nú svo, að þó að margt sje enn ógert, bæði að því er vegi og brýr snertir hjer á landi, þá er það ekki lítið aðkallandi, að hjeruðin við sjávarsíðuna geti notað sjer sjóleiðina betur en nú er.

Hv. frsm. minni hl. talaði um, að hörmung væri til þess að vita, að sumstaðar væru góðar jarðir alveg að leggjast í eyði af samgönguleysi. Vegna vega- og brúaleysis gætu hinar bestu beitarjarðir ekki aflað sjer heyfanga annarsstaðar að o. s. frv. Það má vel vera, að þetta sje rjett um ýmsar einstakar jarðir, og er vitanlega ákaflega leitt. En þetta sama má sumstaðar segja um heil hjeruð, sem standa opin fyrir margskonar framkvæmdum, ef þau aðeins fá samgöngur á sjó. Það eru til stórar sveitir, þar sem svo að segja eru sjálfgerð tún, ef borið er á, og fjölga mætti gripum að miklum mun. En það þýðir lítið að hefja stórfelda ræktun í þeim hjeruðum, þar sem ekki er unt að koma afurðunum frá sjer á markað. Samgöngur, bæði á sjó og landi, eru undirstaðan undir því, að hægt sje að breyta búskaparlaginu í samræmi við kröfur tímans. Ýms hjeruð verða nú að sætta sig við gamalt og að nokkru leyti úrelt búskaparlag, af því að þau hafa ónógar samgöngur. Í þessu sambandi má t. d. líta til Borgarfjarðarhjeraðs. Hvergi á landinu munu samgöngur komnar í eins gott horf og þar, enda er víst ekkert hjerað á blómlegra framfaraskeiði. Þetta dæmi sýnir, að það getur borgað sig að hafa samgöngurnar góðar, enda þótt það kosti allmikið. Strandferðaskipið gerir t. d. ekki það eitt, að flytja póst, farþega og lítilræði af vörum, heldur skapar það jafnframt aukna atvinnumöguleika úti um land. Það er að sínu leyti eins nauðsynlegt fyrir hinar afskektari sveitir með ströndum fram að fá strandferðaskip, eins og fyrir hjeruðin á Suðurlandsundirlendi að fá járnbraut til Reykjavíkur.

Það er rjett, að á undanförnum árum hefir allmikið fje verið veitt til strandferða, en þó varla nógu mikið. Þegar litið er á þetta stóra eyland og hina afar dreifðu bygð, ætti mönnum að vera það ljóst, að eitt strandferðaskip getur ekki annað að flytja alt það, sem þarf, á milli hafna, jafnvel þótt millilandaskipin taki líka nokkurn strandflutning. Menn hafa talað um, að litlir vextir hafi fengist af Esju. Má ekki segja hið sama um brýr og vegi? Af þeim koma litlar beinar tekjur í landssjóð á ári hverju. Þó efast enginn um, að óbeini hagnaðurinn sje svo mikill, að það borgi sig fyrir þjóðina að hafa vegi og brýr. Menn tala um, að 120 þús. kr. tekjuhalli muni verða á þessu skipi á ári hverju. Þetta er auðvitað ekkert annað en spádómur, og er bygður á þeirri reynslu, sem fekst af skipi því, er fór strandferðirnar með Esju um tíma í haust. Á því er sagt að hafi verið 10 þús. kr. tekjuhalli á mánuði. Jeg verð nú að segja, að mig furðar ekki, þótt mikill halli yrði á þeim farkosti, því að það eru víst allir sammála um, að aumari dallur hafi ekki sjest á siglingu fram með ströndum Íslands í manna minnum. Síst er þetta að furða, þegar menn vita, að hripið sigldi stundum fram hjá höfnum, þar sem mikinn flutning var að fá. T. d. voru í haust um 140 tn. af kjöti og aðrar haustvörur, sem lágu á Hornafirði og þetta „skip“ hafði lofað að taka, en svo siglir það beina leið frá Djúpavogi til Vestmannaeyja og skilur vörurnar eftir. Það er lítið miðandi við skip af þessu tæi.

Nú hefir verið bannað að flytja hey til landsins, svo sem sjálfsagt er, og hefði átt að vera löngu fyr. En kaupstaðirnir, sem ekki geta aflað heyja sinna sjálfir og hafa flutt inn mikið af heyi frá Noregi, verða nú að kaupa það úr slægjuhjeruðum landsins. En eins og strandferðum er nú háttað, er það oft hinum mestu erfiðleikum bundið að fá hey flutt frá höfn, sem liggur við hin bestu heyskaparhjeruð, til þeirra staða, þar sem þarf að nota það. Þannig er á ýmsu auðsjeð þörfin fyrir nýtt skip til hringferða um landið.

Mjer þótti vænt um, að háttv. frsm. minni hl. viðurkendi, að Hornafjörður yrði hart úti með núverandi skipulagi á strandferðum. En það mun hafa stafað af ókunnugleika hans, að hann hugði, að ekki væri hægt að bæta úr þessu öðruvísi en með vjelbátum, því að oft hafa litlu minni skip en Esja lagst á innri höfnina í Hornafirði, án þess að þau sakaði. Má þar t. d. nefna Austra og Vestra. Hv. frsm. minni hl. vjek að því í ræðu sinni, að samgöngur með ströndum fram væri betri nú en fyr meir. Það kann að vera, að sumstaðar sjeu þær orðnar skárri, en um Austur-Skaftafellssýslu verður það ekki sagt. 1912 voru t. d. 16 skipaviðkomur á Hornafirði, 16 á Papaós og 16 á Skinneyjarhöfða, eða samtals 48 skipaviðkomur í sýslunni. Hv. frsm. minni hl. sagði, að 1913 hefðu aðeins fimm sinnum komið skip á Hornafjörð. Jeg skal ekki segja um þetta, en það er áreiðanlega satt, að samgöngur versnuðu mikið, er Austri og Vestri duttu úr sögunni.

Jeg hefi ekki skrifað neitt verulega hjá mjer af því, sem hv. þm. Barð. sagði, enda hjakkaði hann að mestu í sama farið og hv. frsm. minni hl. Sje jeg því ekki ástæðu til að svara honum. — En það vil jeg að komi skýrt fram, að nauðsynlegt er að bæta við skipi, fyrst og fremst til þess að hægt sje að bæta búskaparlagið. Nú er alstaðar verið að breyta sauðfjárrækt í nautgriparækt, en þá þarf um leið að sjá fyrir nógu tíðum ferðum, til þess að menn geti komið afurðunum frá sjer. — Jeg vona, að þegar hv. frsm. minni hl. athugar þetta betur, snúist hann alveg frá villu síns vegar og á sveif með okkur.

Loks vil jeg láta í ljós þá ósk mína, að þetta mál megi ná fram að ganga á þessu þingi.