29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í C-deild Alþingistíðinda. (2899)

53. mál, strandferðaskip

Tryggvi Þórhallsson:

Það gerðust hjer á landi viðburðir fyrir einum mannsaldri, sem eru hliðstæðir því, sem nú er að gerast hjer. Það var þá talað um að bæta úr samgöngunum við hjeruðin fyrir austan fjall, og átti að leggja veg yfir Hellisheiði. Þegar þetta var ákveðið, þá komu menn að austan til þess að hafa tal af yfirvöldunum hjer um þetta vandamál. Það voru skoðanabræður hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl). Þeir sögðu við Magnús Stephensen landshöfðingja, að það væri hin mesta fásinna að ráðast í þetta fyrirtæki; þeir sögðu, að þetta væri svo dýrt, að það mundi ekki borga sig. Þeir hafa sjálfsagt líka sagt, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), að þetta gæfi enga vexti af sjer, og líklega líka, að samgöngurnar væru fullboðlegar eins og þær þá voru. Þessir menn voru sjálfsagt innilega sannfærðir um það, að þetta væri of dýrt, og að þeir hefðu á rjettu að standa, eins og jeg geri ráð fyrir að hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf. sjeu sannfærðir nú um sinn málstað. En við vitum nú, hvernig þetta fór. Þó vegurinn kostaði mikið fje, þá hefir hann orðið lífæð hjeraðanna. Það sannaðist ekki aðeins, að mikil þörf var á þessum vegi, heldur sannaðist líka þörf fyrir meiri og betri samgöngur, og nú eru fram komnar kröfur um það, og þeim kröfum mun verða fullnægt, fyr eða síðar.

Hjer er sagan að endurtaka sig. Hjer er farið fram á að byggja nýtt skip, til þess að koma betra skipulagi á strandferðir okkar. Hjer rísa upp hv. þm. og vilja reyna að koma í veg fyrir, að þetta verði gert. Jeg er sannfærður um, að hjer fer eins og áður. Það kemur í ljós svipaður árangur af strandferðaskipinu og Hellisheiðarveginum. Því ætla jeg að vera á móti þeim mönnum, sem eru á sama máli og karlarnir að austan, er báðu Magnús Stephensen að koma í veg fyrir það, að Hellisheiðarvegurinn yrði bygður.