29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

53. mál, strandferðaskip

Jónas Jónsson:

Jeg vildi segja fáein orð til skýringar þessu frv., sem hefir verið til umr. í hv. Nd., bæði á þinginu í fyrra og eins nú. Það var felt þar í fyrra, og þess vegna er það í fyrsta skifti, sem þessi hv. deild hefir fengið ástæðu til að fjalla um það. Það hefir því miður bólað á nokkrum mótþróa gegn því, að þetta frv. næði fram að ganga. En jeg held, að þessi mótþrói stafi nokkuð mikið af ókunnugleik manna víða á landinu um það, hve mikil nauðsyn er á að fá þetta skip.

Það er nú svo ástatt hjá okkur, að strandferðirnar eru að mörgu leyti erfiðari heldur en á meðan við áttum engin skip. Á meðan „Hólar“ og „Skálholt“ gengu með ströndum fram, voru fjölda margar smáhafnir á landinu, sem höfðu betri samgöngur þá, heldur en þær hafa nú. Nú hafa stóru hafnirnar aftur miklu betri samgöngur heldur en smáhafnirnar, eins og t. d. Búðir, Skarðsstöð, Salthólmavík, Hornafjörður, Kópasker, Þórshöfn, og margar fleiri hafa ákaflega slæma afstöðu enn sem komið er. Esja getur ekki með nokkru móti fullnægt strandferðum landsins og þess vegna er ekki um annað að tala en að fyr eða síðar verður að bæta úr þessari þörf; það verður að kaupa eða byggja nýtt skip, sem lagað er eftir okkar staðháttum.

Jeg geri ráð fyrir, að þeir menn, sem fyrir nokkrum dögum hafa samþykt að leggja ekki óverulega upphæð í að byggja járnbraut á milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur, muni líta svo á, úr því að þeir hafa talið rjett að tryggja daglegar samgöngur milli höfuðstaðarins og þessara bygðarlaga, sem eru hafnlaus að heita má, að það sje nokkuð hart aðgöngu fyrir hjerað eins og Austur-Skaftafellssýshi að fá ekki nema 2–3 ferðir á ári, eða innri hluta Barðastrandarsýslu að fá engar samgöngur að heita má, nema ef til vill smábát með tvöföldu eða þreföldu farmgjaldi við það, sem annarsstaðar á sjer stað, eða þá óhentugt bátssamband við Reykjavík tvisvar eða þrisvar á ári.

Það, sem á eftir rekur, er í stuttu máli það, að margar af minni höfnum landsins eru þannig settar, að það stendur atvinnuvegum fólksins stórkostlega fyrir þrifum, að það er ekki hægt að nota sjóleiðina skynsamlega. Jeg vildi t. d. minna á það, að á norsku ströndinni, víða þar sem líkt stendur á og hjá okkur, er erfitt að fara á landi, svo að aðalsamgöngurnar verða að vera á sjónum, þá lætur ríkið sjer ekki nægja minna, þó að bygðin þar sje að vísu þjettari en hjer, en að strandferðaskipin komi við á svo að segja hverjum hafnarstað tvisvar og þrisvar á hverjum sólarhring. Náttúrlega dettur engum manni í hug, að við í fyrirsjáanlegri framtíð getum haft nokkuð svipað hjer. En ef borin er saman íbúatala á þessum svæðum, þá sjest það, að við getum búist við að hafa 7 sinnum verri samgöngur, en það er líka munur á að hafa samgöngur á sjó eins og á vesturströnd Noregs, eða eins og á Hornafirði, þar sem skip okkar koma ekki nema 2–3 sinnum á ári, og svo kanske eitt útlent skip að vorinu.

Jeg tek Hornafjörð til samanburðar, því að það er einna glegst þar, þar sem heil sýsla á aðsókn að og ágætisland í nánd við kauptúnið og svo nálega alstaðar í sýslunni. En það er óhugsandi að bæta nokkuð verulega ræktun í landshluta eins og Austur-Skaftafellssýslu, nema með því að hún fái betri samgöngur með siglingum. Um millilandaskip er ekki að tala; þau komast ekki inn þangað, en þetta skip á ekki að vera stærra en svo, að það komist inn á höfnina og geti líka farið inn á Breiðafjörð, sjerstaklega til þeirra hafna, sem eru Barðastrandarmegin og nokkrar í Dalasýslu, sem aðallega verða útundan. Svo eru sýslur eins og Suður-Múlasýsla og Vestur-Ísafjarðarsýsla með sínar miklu vegleysur, þar sem landið leggur líka lítið til vega fyrst um sinn. Og þó að nokkur bót hafi verið ráðin á þessum samgönguerfiðleikum með því að hafa stóra mótorbáta á ferð milli ýmsra staða, eins og t. d. á Austfjörðum, þá er reynsla fengin fyrir því, bæði með m. b. Svan og fleiri skip, hvað slíkt kostar ríkissjóðinn; í öðru lagi eru slík farartæki varla bjóðandi fólkinu. Fyrir því eru eftir sem áður stór svæði af landinu, sem eru nær samgangnalaus.

Nú er það hugmynd þeirra hv. þm. í Nd., sem gengist hafa fyrir þessu máli, en það er sjerstaklega hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að það verði skipulagsbundin verkaskifti í strandferðunum, eftir að þetta skip er komið. Nú sem stendur er Esja þrent, mannflutninga-, póstflutninga- og vöruflutningaskip, og þó er því þannig varið, að hún getur ekkert af þessu gert vel, ef hún á að gera þetta alt. Vegna mannflutninganna verður hún að reyna að flýta sjer, en vegna vöruflutninga á staði eins og Hvammstanga og Kópasker og fleiri staði, verður hún oft að tefjast og fólkið reynir því að komast einhvernveginn öðruvísi en með þessu strandferðaskipi, sem er fjarska lengi á leiðinni, vegna þess að það er með vörur til erfiðra hafna, og niðurstaðan, sem orðið hefir með norska skipið, sem gengur fyrir Norður- og Austurlandi, og dönsku skipin, sem koma hjer til Reykjavíkur og ganga fyrir Vestur- og Norðurlandi, sýnir það, að þau fleyta rjómann af strandferðunum hjer við land. Við verðum á einhvern hátt að leggja stein í götu þessara útlendu skipa, því að það er, eins og menn vita, ekki venjan, að útlend skip taki það besta af strandferðum annara landa. Ef nú væri komið nýtt skip, þá væri Esja látin sinna póstflutningum og fólksflutningum, og ekki öðru, nema á þær hafnir, sem eru svo góðar, að hægt væri að leggjast þar að bryggju; með því væri sennilegt, að skipið gæti farið þrjár ferðir á mánuði kringum landið, og kæmi þá á allar þolanlegar hafnir, og þyrfti, ef mögulegt væri, að geta komið inn á Hornafjörð, vegna póstflutninga, og það jafnvel þótt hún tefðist þar eitthvað, vegna sjávarfalla. Aftur á móti myndi hún varla fara lengra inn á Breiðafjörð en til Stykkishólms, og sleppa þá við þann mikla krók, sem er við það, að fara inn á Búðardal. Skipið mundi þá fara nokkuð líkt að og norsku strandferðaskipin, sem ekki standa við nema nokkrar mínútur á staðnum; fólkið stígur á land, og þar sem vörur eru fluttar, er þetta afgreitt í snatri. Þetta er ákaflega ólíkt því, sem á sjer stað hjá okkur, þar sem skipið verður að bíða góðan part úr sólarhring á höfninni. Með þessu móti gæti Esja áreiðanlega borið sig betur; hún gæti flutt miklu meira fólk, fengi að vísu minni vörur, en hún mundi hafa miklu betur undan, og yrði þannig miklu meira eftirsótt; og þá yrði það ávinningur fyrir útgerðina. Um leið mundu póstgöngur batna, á þá leið, að þá yrði hætt við þá fráleitu ráðstöfun að vera að flytja hringpóstinn á hestum; hann yrði þá fluttur á aðalhafnirnar og þaðan upp í landið. Þetta mundi stórum bæta póstflutningana og sömuleiðis vinna mikið á móti þeirri einangrunartilfinningu, sem fólkið í hinum dreifðu bygðum hefir nú.

Ennfremur gera forgöngumenn málsins ráð fyrir því, að Esjan muni geta flutt gripi; og það væri mjög æskilegt, vegna þess að víða á landinu, þar sem erfiðast er um samgöngur, er alveg ómögulegt að koma stórgripum þangað, sem markaður er fyrir þá, svo að þetta mundi vera mikill hagur, bæði fyrir neytendur og framleiðendur.

Þá víkur sögunni að hinu skipinu, sem talað hefir verið um að ætti að vera dálítið minna en Esja. Þetta skip yrði af því að það á að annast smáhafnirnar og hinar erfiðari hafnir, að vera lengur á leiðinni en Esja; jeg veit ekki, hve langan tíma hver hringferð mundi taka, en minna en 20 daga býst jeg varla við að það mundi verða. Af þessu leiðir, að þetta skip á ekki og þarf ekki að hafa mjög mikið farþegarúm; fólkið mundi yfirleitt ekki fara með því, nema þá á milli hafna, að frátöldum þeim svæðum, sem ekki hafa annað skip. Jeg býst við, að það mundi verða notað töluvert, ef það hefði lítið, en þægilegt farþegarúm. Jeg býst við, að Austur-Skaftfellingar og Breiðfirðingar mundu nota það töluvert, og þó sjerstaklega Breiðfirðingar, sem ekki hefðu um aðrar ferðir að velja frá Brjánslæk, Króksfjarðarnesi, Salthólmavík og Hagabót og öðrum stöðum þar, sem skipin gætu komið við á, þegar lokið er uppmælingu á Breiðafirði norðanverðum. Nú vita menn það, að úr báðum þessum sýslum, Dalasýslu og Barðastrandarsýslu, eru mjög óvissar ferðir út í Stykkishólm og Flatey, og er oft mesta furða, að ekki verða slys að; þá er oft mjög erfitt, þegar þarf að flytja veika til þessara staða, og sú reynsla, sem menn hafa fengið með vjelbáta, hefir margsinnis fært mönnum heim sanninn um það, að það verður aldrei gott að treysta eingöngu á slíka báta til strandferða. Þetta litla, sterkbygða skip, með litlu farþegarúmi, á að vera fyrir smáhafnirnar, sem nú eru vanræktar, og á að fullnægja þeim alveg að því er vörur snertir, og í vissum tilfellum spara millilandaskipunum það ómak að koma á minstu hafnirnar. En skip Eimskipafjelagsins sjerstaklega tefjast oft við þær fyrir litlar vörur. Ennfremur var gert ráð fyrir því í milliþinganefndinni, sem hafði þetta mál til meðferðar, að kælirúm væri í skipinu, til þess að flytja nýmeti milli hafna, eftir því sem markaður horfir við. Jeg hygg líka, að vel verði bætt úr hinu, sem jeg nefndi áðan, með því að hægt yrði að flytja lifandi gripi með því skipi, sem hraðara gengi, en aftur minni sendingar með hinu.

Náttúrlega geta menn sagt, að enda þótt Esja bæri sig betur, að nokkur rekstrarhalli hljóti að verða á skipunum, þó að ekki sje gott að segja, hve mikill hann verður. En það er í fullkomnu ósamræmi við það, að menn hugsa sjer að bæta úr samgönguþörf eins hjeraðs fyrir 7–8 milj. kr., og þar sem rekstrarhalli getur orðið um alla eilífð, en þykir aftur of mikið að hafa 2 skip fyrir alla hina hluta landsins, skip, sem geta farið hringferðir, annað á 20 dögum, en hitt á 10 dögum. Samgöngurnar eru þó svo „prímitívar“ hjer hjá okkur, að slíkt þekkist ekki hjá nábúaþjóðunum. En þegar við erum búnir að fá þessi 2 skip og þar við bætast 4 skip Eimskipafjelagsins, þá fer að nálgast, að við getum lagt hindranir í veg fyrir útlendu skipin, sem á ári hverju græða tugi eða jafnvel hundruð þúsunda kr. á vöruflutningum með ströndum fram. En með þeim hætti, sem nú er, er ekki hægt að leggja hindrun í veg fyrir þessi skip eða fjelög.

Þá er það mjög óþægilegt að láta Eimskipafjelagið, sem reynir að bæta úr þörfum landsmanna í þessum efnum, missa ekki lítið af sínum bestu tekjum í hendur útlendu fjelaganna, sem að eins sleikja rjómann, það er að segja: koma ekki við nema á stærstu höfnunum, þar sem mestan gróða er að fá.

Mjer hefir verið sagt, að hæstv. atvrh, mundi líklegast leggja það til, að mál þetta verði svæft í nefnd, enda er það ekki ólíkt honum. Jeg vil því spyrja hæstv. ráðh. (JÞ), sem hjer er, hvort þetta sje tilætlun, og ef svo er, þá hvernig hann fari að samræma það, að leggja í mikinn kostnað við að koma á samgöngubótum milli Reykjavíkur og upplandsins, en þykja aftur á móti þetta of mikið handa öllum hinum landshlutunum.