31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í C-deild Alþingistíðinda. (2935)

72. mál, fiskimat

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Mjer kom það mjög á óvart, hve mikill gustur var gerður að þessu frv. við fyrri hluta þessarar umr., sjerstaklega vegna þess, að þeir, sem mótmælum hreyfðu gegn frv., virðast þó sammála sjútvn. um að gera þurfi þær tvær aðalbreytingar á fiskimatslögunum, sem nefndin flytur.

Þær tvær brtt., sem fram eru komnar við frv. á þskj. 175 og 206, og sem báðar eru frá hv. þm. Borgf., sýna þetta best. Þær eru að miklu leyti eins og nefndin hafði hugsað þær að efni til, og að því er snertir brtt. á þskj. 206, þá er enginn ágreiningur um hana milli nefndarinnar og hv. flm. í brtt. á þskj. 175 er aðeins um að ræða fyrirkomulagsatriði, en ekki stefnumun. Sjútvn. hefir í frv. á þskj. 108 lagt til, að fiskimatið yrði samræmt um land alt með leiðbeiningum hæfs manns, sem ráðherra skipaði til þess að líta eftir því, ferðast um og gefa ráð og bendingar. Hv. þm. Borgf. vill aftur fá samræmingu með fundahöldum yfirfiskimatsmanna og utanförum þeirra til skiftis. Auðvitað má líta svo á, að eftirlitsmaðurinn, eftir till. nefndarinnar, verði einskonar húsbóndi yfirfiskimatsmanna, þótt ekki sje það fram tekið í frv. En við það er ekkert að athuga, og ætla verður, að yfirfiskimatsmenn tækju fúslega til greina allar hendingar eftirlitsmanns.

Jeg held því fram, eins og jeg hefi áður gert, að jeg sje enga leið til þess, að samræma fiskimatið um alt land, neina því aðeins, að einhver einn yfirfiskimatsmaður fari um helstu útflutningsstaði og leiðbeini. Jeg hefi enga trú á því, að samræmi fáist í fiskimatið, þótt fiskimatsmenn komi hjer saman einu sinni á ári til þess að skeggræða um það. Þeir mundu vanalega koma saman á vetrum, en þá hafa þeir ekki allar þær kröfur fyrir sjer, er komið geta til greina, þegar á að fara að flytja fiskinn út að vori eða að sumrinu. Og jeg tel ekki heldur, að utanfarir fiskimatsmanna mundu koma á betra samræmi um mat en nú er. Það er kunnugt, að matskröfurnar breytast sí og æ frá ári til árs, og gefur að skilja, að slíkar kröfur, svo sem um herslustig fiskjarins með 1/3, ¾ eða 7/8 herslu muni geta valdið misjöfnum skilningi, er fara skal eftir táknum brotanna einum.

Hv. þm. Borgf. tók það fram við fyrri hluta þessarar umr., að jeg hefði komið með skilaboð frá sjútvn. um það, að hún teldi brtt. hans á þskj. 175 aðeins leiða til aukins kostnaðar, en enga þýðingu hafa að öðru leyti. Þessi skilaboð komu ekki frá nefndinni, heldur lýsti jeg það skoðun mína, að mikinn kostnað mundi hún hafa í för með sjer og lítinn ávinning. En hinu skilaði jeg frá nefndinni, að hún fjellist á brtt. á þskj. 206. Lengra náðu þau skilaboð ekki.

Hv. þm. Borgf. tók það fram um gagnsemi utanfara yfirfiskimatsmanna, að þeir styddu sjálfir þá hugmynd. Jeg skil það vel, að þeir mundu fúsir til að taka á móti opinberum styrk til þess að ferðast fyrir til Spánar annaðhvort ár og ljetta sjer upp. En hitt get jeg ekki skilið, að þeir þurfi að fara þangað til þess að læra að meta fiskinn. Fiskimat er ekki sú íþrótt, að æfa þurfi um langan tíma, eða venjast nýjum aðferðum við að framkvæma. Leiðbeining frá hæfum manni og sýnishorn geta vel nægt fiskimatsmanni til þess að þekkja nýjar kröfur.

Jeg ætla ekki að svara þeim köpuryrðum, sem hv. þm. Borgf. vjek að mjer, sjútvn. og frv., en því lýsti hann svo, að það væri hvorki fugl nje fiskur. (PO: Þau orð komu frá hv. 2. þm. G.-K.). Jæja, það skiftir minstu fyrir málið, hvaðan háttv. þm. lánaði þessi orð, en frá honum komu þau. Hinsvegar vil jeg taka það fram, nú þegar, að öllu því, sem hv. þm. Borgf. hefir ætlað sjer að ná með brtt. á þskj. 175, samfundi yfirfiskimatsmanna og utanförum, er hægt að ná með einfaldri þál., án þess að lögfesta það. Og sýni það sig, eftir að frv. er samþ., að slíkar ráðstafanir sjeu nauðsynlegar, þá má víst gera ráð fyrir því, að þeirra verði krafist. Fæ jeg því ekki sjeð, að neitt sje við það unnið að samþ. brtt. á þskj. 175 og verð því, fyrir hönd sjútvn., að óska þess, að þær verði feldar.

Þau önnur meðmæli, er hv. þm. Borgf. studdi till. sínar með, svo sem umsögn Fiskifjelagsins, met jeg að vísu, en jeg efast þó um, að Fiskifjefjelagið hafi skoðað þetta mál niður í kjölinn, og víst er það, að fjelagið hefir ekki borið sig saman við sjútvn. þingsins um þetta mál, sem þó lá næst.

Að svo komnu þarf jeg ekki að taka fleira fram.