31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

72. mál, fiskimat

Ólafur Thors:

Áður en jeg kem að sjálfu málinu, þykir mjer rjett að leiðrjetta misskilning, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÓl).

Hv. þm. gat þess, að árið 1921 hefðu yfirfiskimatsmenn farið til Spánar, og hefði árangur þeirrar ferðar orðið hinn glæsilegasti. — þeir hefðu flutt heim nýjungar, er fært hefðu landsmönnum miljóna gróða.

Þarna hefir hv. þm. ruglast dálítið í ríminu, því að mennirnir fóru hjeðan ekki fyr en síðla hausts 1921 og komu aftur um vorið 1922, en nýjungin, sem hv. þm. (JÓl) á við, var flutt hingað vorið 1921. Það er sannanlegt, að eitt fjelag hjer í bænum hafði fengið fulla vissu fyrir því, að fiskur hjeðan frá Faxaflóa, sá, er sendur var til Barcelona, var þurkaður of mikið. Fjelag þetta seldi þangað fiskfarm árið 1921, en fjekk á eftir skriflega yfirlýsingu kaupanda um það, að betra væri að fiskurinn væri ekki þurkaður eins mikið og venja hefði verið, en slíkar skriflegar yfirlýsingar höfðu til þessa reynst ófáanlegar. Gegn þessari yfirlýsingu gekk yfirfiskimatsmaður hjer inn á það, að láta framkvæma hið nýja mat — þetta sem við köllum „7/8 verkað“. Þegar svo þessi farmur kom til Barcelona, reyndist hann svo vel og fjell kaupendum svo vel í geð, að þeir keyptu tvo farma að nýju, með því skilyrði, að fiskurinn hefði fengið sömu þurkun og hinn farmurinn.

Með þessu var grundvallaður sá miljónagróði, sem hv. þm. (JÓl) var að tala um. Hitt er rjett, að frá árinu 1921 fór það að tíðkast meir en áður, að Íslendingar færu til Miðjarðarhafslandanna. Ein slík förin var sú, er hv. þm. gat um. Tóku þátt í henni framkvæmdarstjórar, verkstjórar og matsmenn, og efa jeg ekki, að för sú hefir orðið ferðamönnunum til gagns á einn og annan hátt.

Jeg kem þá að sjálfu málinu. — þótt undarlegt sje, hefir nýmæli þetta, er sjútvn. flytur, mætt alveg óvæntri mótspyrnu hjá hv. þm. Borgf., og mjer virðist, að hv. 3. þm. Reykv. standi nærri honum. Um báða þessa vini sjávarútvegsins er það sameiginlegt, að heggur sá, er hlífa skyldi. Ef jeg þekti aðeins skarpleik þessara manna, en ekki mannkosti, mundi jeg gera þeim þær getsakir, að þeim þætti mikils um vert í umbótastarfseminni sjávarútveginum viðkomandi, að uppástungurnar væru undan þeirra eigin rifjum runnar. En með því nú jeg veit, að þessir hv. þm. eiga sammerkt í því, að vera frægari að öðru en metorðagirnd, geri jeg þeim engar slíkar getsakir, en verð þá hins vegar að játa, að eigi veit jeg hvað veldur aðstöðu þeirra til málsins og málflutningi öllum. Þótt nú umr. hafi borið vott um töluvert kapp af andstæðinganna hálfu, ætla jeg að kúga þá ríku tilhneigingu, sem jeg finn hjá mjer til þess að gjalda auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, svo að ekki verði sagt, að við nefndarmenn teflum málinu í voða að óþörfu. En ekki get jeg stilt mig um að vekja athygli hv. þdm. á því, með hve miklum offögnuði hv. þm. Borgf. tók stuðningi hv. 3. þm. Reykv. Í þessu máli, ekki veigameiri en hann þó var. Ber þetta bæði vott um, að hv. þm. Borgf. tekur viljann fyrir verkið, og jafnframt hitt, að honum er fullljóst, að sjálfur hefir hann ekki flutt veigameiri rök fyrir sínu máli en svo, að sjerhver stuðningur, hversu lítilfjörlegur sem hann er, er honum mikils virði.

Við umr. þessa máls hefir fengist full, einróma viðurkenning á því, að fiskimatinu er mjög ábótavant. Það er þess vegna óþarft að ræða frekar um þá hlið málsins. Jeg vind því að því, að leiða rök að því, að till. sjútvn. sjeu haldbetri í þeim efnum en till. hv. þm. Borgf.

Jeg geri ráð fyrir því, að kjarni málsins sje nú mörgum hv. þdm. hulinn þeim hjúp, er vefarinn mikli af Skaganum, hv. þm. Borgf., vafði um hann í hinni löngu ræðu sinni. Jeg mun nú reyna að afhjúpa hugmyndina, svo hún megi verða öllum ljós.

Jeg vil þá fyrst slá því föstu, að hv. þm. Borgf., sem bæði hafði hlýtt á fyrri ræðu mína í þessu máli og auk þess lesið hana í handriti þingskrifara, er með öllu óheimilt að láta sem hann viti það eitt um þetta mál, sem lesið verður á þskj. 108. Ekkert af fyrirætlunum sjútvn. var honum hulið, þegar hann flutti síðari ræðu sína. Okkur nefndarmönnum er því fullheimilt að ræða málið með hliðsjón af hugmynd okkar, eins og hún endanlega verður, nái hún staðfestingu þingsins. En um hitt mætti spyrja, hversvegna við þá ekki þegar í stað bárum málið fram í því formi. Því skal jeg svara.

Ástæðan var sú, að jafnvel þótt við værum alveg sannfærðir um ágæti þess fyrirkomulags, er við stungum upp á, þótti okkur rjettara að láta dóm reynslunnar verða samferða skoðun okkar. Við töldum, að hið háa Alþingi mundi verða fúsara til að lögfesta hið fyrirhugaða fyrirkomulag og veita fje til þess, þegar reynslan hefði fært líkur fyrir eða jafnvel sannað ágæti þess, heldur en fyrir það eitt, að við nefndarmenn, jafnvel þótt við höfum töluverða reynslu á þessu sviði, fullyrðum, að hjer sje stigið nauðsynlegt framfaraspor.

En úr því svo er málum komið, sem komið er, verðum við nefndarmenn í bili að afsala okkur þeim tilstyrk, er við hugðum að öðlast með dómi reynslunnar, og byggja á skilningi hv. þdm. á rökum okkar einum saman.

Jeg tel, að ræðum. hv. andstæðinga verði best andmælt með því að bera saman uppástungur þeirra og okkar, en með því færi jeg vitanlega þá fórn, að neita mjer um að tæta sundur einstakar rökvillur þeirra. Uppástungur hv. andstæðinga gefur að líta á þskj. 175 og hníga að því tvennu: að yfirmatsmenn skuli eiga fund með sjer einu sinni á ári og ræða um endurbætur á fiskimatinu, og að yfirmatsmenn skuli fara til skiftis, að minsta kosti einn annaðhvert ár, til Miðjarðarhafslandanna, til þess að kynna sjer kröfur neytenda um verkun og alla meðferð fiskjarins.

Tillögur þessar eru tvímælalaust til bóta frá því sem nú er, en óþarfar, vegna þess að þær eru að mestu leyti aðeins brot úr því skipulagi, sem við höfum hugsað okkur, og beint skaðlegar verða þær, ef þær, gegn vonum okkar, skyldu verða til þess, að hefta framgang þeirrar hugmyndar, er nefndin ber fyrir brjósti. Því einar út af fyrir sig eru þær allsendis ófullnægjandi.

Jeg vil nú til samanburðar leggja fram hugmynd nefndarinnar. Við ætlumst til, að skipaður verði fiskimatsstjóri fyrir alt landið, og sje hann launaður af ríkissjóði. Hann skal hafa fulla þekkingu á allri meðferð fiskjar, frá því hann er veiddur og þar til hann er fullverkaður til útflutnings. Hann skal kynna sjer eftir föngum kröfur neytenda og ferðast árlega til aðalneyslulandanna í því augnamiði — alla jafna að vetrarlagi, en að sumrinu fer hann sem víðast um verstöðvarnar og sýnir mats- og yfirmatsmönnum, hvernig verka skuli fiskinn, svo að hann fullnægi síðustu kröfum neytenda. (PO: Þm. er búinn að segja þetta alt við fyrri umræðu málsins). — Já, en jeg hefi fundið, að einn okkar greindustu þm., hv. þm. Borgf., hefir ekkert af því skilið nje lært, svo að mjer finst full þörf að endurtaka það.

Vel gæti og komið til mála, að matstjórinn hjeldi námskeið fyrir mats- og yfirmatsmenn, og sýnist ekki ósanngjarnt, að þessir menn stæðust verklegt próf, áður en þeir öðlast rjettindi til fiskimats. Á þennan hátt vinnur matstjóri að því að auka þekkingu matsmanna á starfi sínu og samræma matið.

Annar og aðalþátturinn í starfi matstjórans er eftirlitið með mats- og yfirmatsmönnum. Skal hann hafa vakandi auga með starfi þeirra, og skulu yfirfiskimatsmenn skipaðir eftir till. hans. Matstjórinn hefir og æðsta úrskurðarvald í öllu því, er fiskimatið snertir, og skulu mats- og yfirmatsmenn sæta boði hans og banni í þeim efnum.

Að þessu sinni hirði jeg ekki að draga upp skýrari mynd af því, er fyrir sjútvn. vakir, en vænti, að hv. þdm. hafi skilist, að við teljum þrent nauðsynlegt til þess að sæmilegt öryggi fáist um fiskimatið. Í fyrsta lagi haldbetri þekkingu matsmanna á starfi sínu. Í öðru lagi stöðugt eftirlit með því, að þeir inni af hendi störf sín eftir því sem þeir hafa best vit á, og í þriðja lagi, að matsmannahernum verði skipað höfuð, er hafi æðsta vald í öllum ágreiningsatriðum. Í fæstum orðum: Nefndin heimtar: fræðslu, aðhald og vald.

Hv. andstæðingar hafa nú aðeins komið auga á eina hlið þessa máls, það er að segja, nauðsynina á að auka þekkingu matsmanna. Að því marki stefna bæði till. um utanfarir þeirra og fundahöld, því á fundunum er matsmönnum ætlað að mentast fyrir fræðslu stjettarbræðra sinna, og þá væntanlega fyrst og fremst þess, er síðast hefir farið utan.

Jeg skal nú leiða rök að því, að einnig þessu marki ná háttv. andstæðingar fyr og betur, ef þeir fylgja okkur nefndarmönnum. Jeg skal þá byrja með að ráðast á sterkasta vígi andstæðinganna. Þeir munu halda því fram, að yfirmatsmönnum sje nauðsyn á því að fara utan, svo þeir megi sjá og heyra kröfur neytenda. Í þessu hafa hv. andstæðingar okkar nokkuð til síns máls. En þó er þeim hentast, að halda varlega á þessu. Í fyrsta lagi bendi jeg á, að sjútvn. hefir ekkert um það sagt, að hún ætlist til, að slíkar ferðir falli með öllu niður, en þar næst leiði jeg athygli að höfuðatriðinu, með því að biðja hv. þdm. að fylgja mjer út í veruleikann, athuga matið, eins og það er nú í framkvæmdinni. Hverjir meta fiskinn? Undirmatsmenn. En hvað gera þá yfirmatsmenn? Leggja matsmönnum lífsreglurnar, segja fyrir og sýna, hvernig meta skuli fiskinn. En nú er það einmitt yfirmatsmaðurinn, það er að segja sá, sem leiðbeinir, sem hv. andstæðingar vilja menta, en ekki þann, sem matið framkvæmir, undirmatsmanninn. — Hvaða játningu höfum við nú lokkað út úr hv. andstæðingum okkar með þessu. Í fyrsta lagi þá, að þeir meta mest kunnáttu þess, sem leiðbeinir, og í öðru lagi, að af slíkri kunnáttu er auðvelt að miðla öðrum. Eða með öðrum orðum,

að betri er matstjóri, sem fer árlega til neyslulandanna, en yfirmatsmenn, sem þangað fara tíunda hvert ár. Því að hann mentast betur og getur miðlað yfirmatsmönnum, á sama hátt og þeir miðla undirmatsmönnum nú. Mönnum þykir kanske, að jeg eigi ósannað, að matstjórinn verði betur mentaður en yfirmatsmenn. En mjer þykir augljóst, að úr því að gagnsemi utanfarar er viðurkend, hljóti sá að standa betur að vígi, sem fer árlega, en hinn, sem aðeins fer tíunda hvert ár. Og í þessu sambandi vil jeg benda á það, að yfirmatsmenn, sem ætlað er að fara utan tíunda hvert ár, fara margs á mis í för sinni, sem fellur í skaut þess, sem vanur er ferðalögum og kunnugur orðinn, eins og matstjórinn mundi verða. Hinir fyrir eru allajafna mállausir og vinafáir í ókunnu landi, skylduræknir, en þeirri stundu fegnastir, er lagt er af stað heim. Matstjórinn aftur á móti lærir málið, kynnist smátt og smátt höfuðfiskinnflytjendum. Í hvert skifti, er hann kemur til neyslulandanna, tekur hann upp þráðinn, þar sem hann slepti honum, hverfur að starfinu, þar sem það fjell niður. Hann heilsar fornkunningjunum, þakkar þeim fyrir síðast og spyr nýrra tíðinda. Á skömmum tíma kynnist hann nýjungunum, frá því hann síðast var á ferðinni, kveður og fer. — Hann fær á skömmum tíma margfalt meiri fræðslu en fiskimatsmenn mundu geta öðlast á löngum tíma. Svona mikill er aðstöðumunurinn. Það yrði því vafalaust ríkissjóði miklu ódýrara, að matstjóri færi árlega utan, en þótt yfirmatsmenn færu annaðhvert ár. Þetta veit jeg að allir skilja, sem fundið hafa mun þess, að fara sjaldan utan, og hins, að vera þar tíður gestur.

Okkur nefndarmönnum sýnist því, að með matstjóranum sje skipaður lifandi tengiliður milli framleiðenda og neytenda, stöðugur boðberi milli kröfu neytandans og þeirrar viðleitni, sem framleiðandinn æfinlega í eiginhagsmunaskyni hlýtur að vera reiðubúinn til að sýna til að fullnægja henni. Okkur sýnist þetta vera hægasta leiðin til að flytja inn þá þekkingu, sem nauðsynleg er til að geta flutt út þá vöru, sem neytandinn óskar, en að því verðum við Íslendingar að keppa, ef við eigum ekki að verða undir í bardaganum við áhugasama keppinauta.

Jeg þykist nú hafa sýnt með ljósum rökum, að jafnvel þótt þekkingin ein skifti máli, þá er skipulag það, er sjútvn. stingur upp á, mjög miklu fullkomnara en uppástungur andstæðinganna, og jeg leyfi mjer að vona, að það sje orðið öllum hv. þdm. ljóst, að aðstaða matstjóra til að afla sjer þekkingar er ólíkt betri en yfirmatsmanna, þótt þeir öðru hvoru fengju að fara utan. Um hitt verður ekki deilt, að útbreiðslu þekkingarinnar er best borgið, ef hugmynd nefndarinnar kemst í framkvæmd.

Þannig er það þá bert orðið, að, jafnvel á þessu eina sviði, er hv. andstæðingar hafa með till. sínum sýnt viðleitni til að keppa við hugmynd sjútvn., jafnvel á þessu eina sviði ná þær till. þeirra ekki hælum á till. nefndarinnar. En auk þessa skal nú sýnt og sannað, að þótt mikið riði á þekkingunni, þá ríður hjer engu síður á öðru. Nefni jeg þar fyrst til eftirlit með því, að farið sje eftir bestu þekkingu. Hugmynd nefndarinnar hnígur að því, að auka eftirlitið með störfum mats- og yfirmatsmanna. Því auk þeirrar fræðslu, er matstjórinn miðlar matsmönnum á ferðum sínum, á hann að líta eftir því, hvernig undirmenn hans inna starf sitt af hendi.

Hv. andstæðingar játuðu í ræðum sínum, að strangt eftirlit yfirmatsmanna með matsmönnum væri alveg nauðsynlegt. En mundi þá saka, að auka það með yfirferðum matstjóra? Og mundi það draga úr skyldurækni yfirmatsmanna, að þeir ættu sjer yfirmann? Nei, hjer eins og á flestum sviðum er eftirlitið einstaklingunum nauðsynlegt aðhald til að gera skyldu sína. Hv. andstæðingar játa nú kanske, að alment talið sje eftirlitið þarflegt, en halda því enn fram, er þeir áður sögðu, að matstjóri hafi ekki aðstöðu til þessa eftirlits. Þannig sagði hv. 3. þm. Reykv. „Slíkur eftirlitsferðalangur getur ekki haft áhrif á matið.“ — Jeg skal nú svara honum með því að láta þann tala, sem samherji hans, háttv. þm. Borgf., telur „elsta og reyndasta manninn í þessum efnum hjer í deildinni.“ Sá mæti maður segir í sömu ræðu og jeg áður vitnaði í: „Gildandi matslög gera ráð fyrir, að yfirmatsmenn ferðist um og leiðbeini, og álít jeg það gæti komið að góðum notum.“

Jeg vænti, að óþarft sje að henda á, að einu hlýtur að gilda, hvort „ferðalangurinn“ heitir yfirmatsmaður eða matstjóri. Úr því leiðbeiningar yfirmatsmanns á ferðalagi eru gagnlegar, ætti líkt að vera um leiðbeiningar matstjóra. Nefndin hefir þannig orðið svo heppin að eignast viðurkenningu þessa reynda manns á því, hvílíkt gagn matstjóri gæti unnið með ferðum sínum. Um hitt var ekki deilt, að matinu er ábótavant og þörfin því brýn.

Jeg kem þá loks að 3. kjörorði nefndarinnar, úrskurðarvaldinu. Hv. andstæðingar vita, að nú fara 5 menn með jafnt vald á þessu sviði. Þeir játa, að þessir 5 menn hafi ólíkar skoðanir á kjarna málsins — matinu. Um þetta ber till. hv. þm. Borgf. vott. Hann leggur höfuðáherslu á að samræma matið. Segir með því, sem satt er, að ósamræmi sje á því, þ. e. a. s., að yfirmatsmenn fylgi mismunandi reglum, hver í sínu umdæmi. Úr þessu vilja hv. andstæðingar bæta með því að láta þessa 5 yfirmenn hittast og ræða um matið. Jeg skal nú geta þess, að eigi fyrir löngu áttu þeir með sjer slíkan fund, og er ekki vitað, að hann hafi borið neinn árangur. Fullvíst er hitt, að gífurlegt ósamræmi er í matinu. Þess er heldur ekki að vænta, að annað spretti en sáð var. Meinið liggur í fyrirkomulaginu. Herinn er höfuðlaus; þar vantar úrskurðarvaldið. „Gerir ekkert til,“ segja hv. andstæðingar, „því að þessir 5 menn hafa úrskurðarvald hver í sínu umdæmi.“ En hvað er nú þetta? Þessir sömu hv. andstæðingar ætlast til, að yfirmatsmenn ræði um samræming á matinu. Nú er auðvitað, að matið í hverju umdæmi er spegill af þekkingu og dugnaði yfirmatsmannsins. Þegar nú hinir 5 jafnrjettháu dómarar koma saman og eftir ítarlegar rannsóknir finna út, að hver hefir sína skoðun á matinu, og haga framkvæmdum eftir því, ja, þá rísa þessar spurningar: Er jeg vitlausari en þú? Er þessi vitlausari en hinn? Heldurðu, að jeg þurfi að láta þig kenna mjer? Jeg var þó orðinn matsmaður áður en þú fæddist!, o. s. frv. Og endirinn verður sá, að þessir 5 jafnvísu og jafnrjettháu spámenn hverfa aftur heim til síns föðurlands og setjast að hjá þeirri villu, er þeir hurfu frá.

Sjá nú ekki allir menn, að einnig af þessum ástæðum er matsstjóri nauðsynlegur? Skilur ekki hver einasti hv. þdm., hve stórkostleg framför það er, að eignast úrskurðarvald í höndum haldgóðrar þekkingar. Játar ekki hv. þm. Borgf., að hann vildi heldur vera vinnumaður en búa í sambýli við annan, ef það eitt gilti um bústjórn, sem báðir samþyktu. Veit ekki hv. 3. þm. Reykv., að sjeu skipstjórarnir tveir, er skipið í voða ? Eða höfum við þdm. látið okkur nægja að ræða, hvað sje rjett? Höfum við ekki heimtað úrskurðarvaldið? Og jafnvel sjálfir flokksbræðurnir — menn, sem hafa gengið í bræðralag, vegna samstæðra skoðana — jafnvel þeir heimta sjer forystumenn, til að skera úr, þegar mest á ríður og þeir geta eigi orðið á eitt sáttir. — Nei, hv. andstæðingar verða að játa, að valdið er nauðsynlegt, jafnvel þótt þeim hafi gersamlega sjest yfir það í till. sínum. Þótt þetta þrent, fræðsla, eftirlit og vald, sje nauðsynlegt, þá er þó valdið nauðsynlegast.

Jeg þykist nú hafa sýnt sæmilega fram á þá yfirburði, er hugmynd nefndarinnar hefir yfir till. hv. þm. Borgf., og skal aðeins geta þess, að ekkert ósamræmi er í því, er hv. frsm. og jeg höfum sagt. Hann talaði um uppástungu sjútvn. eins og hún er á þskj. 108. Við álítum frekari skýringar óþarfar og ætluðum að láta þær bíða næsta þings. Jeg aftur á móti talaði um hugmyndina alla, tilknúður af andmælum hv. þm. Borgf.

Hv. andstæðingar hafa talað um þetta mál rjett eins og sjútvn. hefði stungið upp á að afnema bæði mats- og yfirmatsmenn og setja matsstjóra í staðinn. En matsstjórinn á ekki að koma í staðinn heldur í viðbót, eins og þriðja dómsstigið, þar sem tvö eru fyrir. Slíkt mundi alstaðar vera talið aukið öryggi. Og vilji hv. andstæðingar, sem báðir hafa játað þörfina, vilji þeir í hlífðarskyni við ríkissjóð afsala sjávarútveginum þeim kröfurjetti, sem hann á hjer, og þar með taka á sig ábyrgðina á áframhaldandi mistökum á fiskimatinu, spái jeg því, að þeir kikni í knjáliðunum áður en langt um líður.

Jeg vil svo skýra frá því, að fyrirkomulag nefndarinnar er að mestu sniðið eftir því, er Norðmenn búa við. Þar eru eiginlega 9 yfirfiskimatsmenn og matsstjóri, er ætlað er líkt verk og okkar fyrirhugaða matsstjóra. Þannig hafa Norðmenn þegar fyrir nokkrum árum sjeð og skilið þörfina fyrir þekkingu, aðhald og vald, og vjer Íslendingar eigum mikið undir, að eigi dragist lengur að stíga fyrsta sporið í þessa átt, því að við eigum stöðugt á hættu að verða undir í samkepninni. Ennfremur skal jeg geta þess, að sá eini yfirfiskimatsmaður, sem jeg hefi átt tal við um þetta mál, tjáði sig eindregið samþykkan till. okkar nefndarmanna. Mjer varð á að brosa, er hv. þm. Borgf. gat þess í ræðu sinni, að sjer væri ekki kunnugt um skoðun þessa yfirfiskimatsmanns — til hans hefði ekki náðst. En jeg hafði einmitt sýnt þm. skeyti frá þessum manni. Kvað hann alveg skýrt á um skoðun sína og taldi uppástungu okkar mjög góða. Annars skal jeg geta þess, vegna vottorða þeirra, er þm. Borgf. var að veifa frá yfirmatsmönnum, að mjer þykir þeim nokkur vorkunn, þótt þeir óski ekki, að þeim sje skipaður yfirmaður. Þeir telja sig einfara í slíkum efnum. Það er ekki venja, að þjófurinn óski eftir lögreglunni, og þó jeg biðji menn að taka þessa samlíkingu ekki bókstaflega, nefni jeg hana þó til sönnunar, að tæplega er þess að vænta að sá, sem á að verða undir eftirliti, óski eftirlitsins.

Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að jeg hefi átt tal við ýmsa menn, er þessum málum eru kunnugastir, um till. nefndarinnar og till. hv. þm. Borgf. Hafa þeir einróma talið okkar till. miklu fremri, og þeir, sem þess voru beðnir, gefið um það skriflega yfirlýsingu.

Þá ætla jeg að endingu að svara þeirri spurningu hv. þm. Borgf., hvort jeg sæi ekki þann reginmun, sem væri á nefndarinnar tillögum og hans. Jú, sannarlega, enda vona jeg að mjer hafi tekist að sýna hann öðrum. Tillögum nefndarinnar má líkja við ungan og velskapaðan og gáfaðan dreng, sem menn gera sjer miklar vonir um, ef hann fær að lifa. En till. hv. þm. Borgf. eru eins og fullorðinn, andlegur og líkamlegur rindill, sem enginn dáist að, nema hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf. sjálfur. En langi hv. þm. til að sjá drenginn fullvaxinn, skal jeg gera mitt til að það megi verða, ef hv. andstæðingar vilja þá sættast á málið. Og er jeg þá fús til að bera fram frv., er umlyki hugmynd nefndarinnar, eins og jeg nú hefi lagt hana fram. Og þætti mjer mikils um vert að njóta þar stuðnings þeirra ágætu manna, hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf., sem jeg ber mikla virðingu fyrir, þó að jeg hafi þurft að vera hvassyrtur í þeirra garð núna.