31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

72. mál, fiskimat

Pjetur Ottesen:

Þó að jeg hafi ekki rjett til þess að gera nema stutta athugasemd, þá vænti jeg þess, að hæstv. forseti verði eins frjálslyndur við mig og frekast er unt.

Það er ekki laust við, að háttv. sjútvn. ætli að neyta hjer aflsmunar, þar sem einn nefndarmannanna hefir nú risið upp að nýju, þegar mjer hafði verið synjað um orðið og hv. 3. þm. Reykv., sem stutt hefir mínar till., var dauður, og tók þessi hv. nefndarmaður að veitast að mjer. (SigurjJ: Jeg sveigði ekki að hv. þm. Borgf.) — Jú, það gerði hann auðvitað með því að ráðast á till. mínar.

Jeg ætla þá fyrst að geta þess, að jeg gleymdi hjerna á dögunum að tala um brtt. mína við 1. gr. frv. Hv. 1. þm. S.- M., sem skráður er í nál. frsm. nefndarinnar — enda þótt 2. þm. G.-K. hafi nú tekið að sjer framsöguna og afdankað hinn rjetta frsm.hv. 1. þm. S.-M. sagði, að nefndin gæti fallist á þessa brtt. En hann bætti því við, að reyndar væri þar um enga breytingu að ræða. En þetta er nú ekki rjett, því að þar er einmitt nýtt atriði, sem sje að halda skyldumati á fiski, sem keyptur er upp úr salti af erlendum skipum, þ. e. af færeysku skipunum. Auk þess er till. svo orðuð, að ef hún verður samþ., þarf maður ekki annað en líta á 1. gr. frv. til þess að sjá, hvaða ákvæðum þar er breytt. En orðalagið á 1. gr. frv., eins og það kemur frá nefndinni, er svo óljóst framsett, að fletta þarf upp sjálfum fiskimatslögunum til þess að geta sjeð, hvað það er, sem nefndin vill breyta. Jeg hefi því gert hvorttveggja í senn: bætt þarna mikilsverðu atriði inn í 1. gr., og auk þess gert nauðsynlega rjettingu á orðalagi greinarinnar.

Hv. 1. þm. S.-M. fór nokkrum orðum um till. mína og mintist í því sambandi á frv. nefndarinnar. Gerði hann tilraun til þess að sýna fram á, að frv. nefndarinnar væri ekki jafnfánýtt og því hefir verið lýst. Hann sagði, að eftir því sem nefndin liti á, væri þetta eina leiðin til þess að fá matið samræmt. Jú, jeg býst nú við, að það sje rjett hermt, að sjútvn. líti svo á, að þetta sje svo. En það sætir furðu, hvað nefndin getur verið glámskygn á þessi mál. Ekki lagði hann mikið upp úr því, að yfirfiskimatsmennirnir kæmu saman til að ræða um fiskmatið og endurbætur á því. Hann vildi halda því fram, að þrátt fyrir það, þótt ekki sje gert ráð fyrir því í frv. nefndarinnar, að eftirlitsmaðurinn hafi nokkurt vald, þá sje það þó sama sem, þar sem stjórnarráðið gæti veitt honum það. Þetta er kátbrosleg kórvilla og einhver sú fáránlegasta lagaskýring, sem nokkurntíma hefir skotið upp höfðinu.

Samkvæmt lögum um fiskimat frá 1922 er svo ákveðið, að yfirfiskimatsmennirnir hafi hver í sínu umdæmi æðstu ráð og úrskurðarvald í þessum málum. Verði ágreiningur um þessi mál, skera þeir úr, og er úrskurður þeirra hæstarjettardómur í þessum málum. Þetta er svo enn frekar skýrt í þeirri reglugerð, sem gefin hefir verið út, þar sem starfssvið og tilhögun yfirmatsmannanna er nánar tilgreint. Nú hefir það margsinnis verið tekið fram, að í því frv., sem hjer um ræðir, er vald þessara manna ekkert skert, því þessum umferðamatsmanni er ekki fengið neitt vald í hendur, hvorki til eins nje neins; hann er með öllu valdalaus. Hvernig hugsar hv. 1. þm. S.-M. sjer svo, að stjórnin geti með einföldu erindisbrjefi svift yfirfiskimatsmennina því valdi, sem þeir hafa að lögum, og fengið það í hendur þessum ferðalang. Þetta eru fáránlegar kenningar, og þótt sjútvn. sje komin í bobba með þennan óburð sinn, þá er það ekki nema að bæta gráu ofan á svart, að vera að slá þvílíkri reginfjarstæðu fram.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að jeg væri að gera yfirfiskimatsmönnunum þær getsakir, að þeir mundu ekki í öllu og einu fara að ráðum þessa umferðamatsmanns. Það er með öllu rangt, að jeg sje að gera þeim getsakir, þó jeg haldi því fram, að svo gæti farið, að þeir færu ekki að ráðum hans, og ætla jeg að færa rök fyrir því. Jeg hefi nú með tilvitnun í lögin um fiskimat sýnt það, sem flestum hefði raunar átt að vera kunnugt, að fiskimatsmennirnir hafa hjer æðstu völd í þessum málum og bera alla ábyrgð á starfinu. Það gæti nú hæglega farið svo, að þessi umferðamaður, eða hvað hann nú heitir, þessi maður, sem hvorki er fugl nje fiskur, eins og hv. 2. þm. G.-K. rjettilega sagði, vildi fara aðra leið en yfirfiskimatsmennirnir væru sannfærðir um, að rjett eða heppilegast væri að fara, og að þeir þannig yrðu ósammála þessum umferðamatsmanni, hvað er þá eðlilegra en að yfirfiskimatsmennirnir, sem bera alla ábyrgðina, færu sínu fram? Það er blátt áfram skylda þeirra að gera í hvívetna það eitt, sem þeir eru sannfærðir um að er heilladrýgst fyrir þá, er njóta eiga ávaxtanna af starfi þeirra. Að hvika nokkuð frá þessu er blátt áfram brot á því drengskaparheiti, sem þeir hafa undirskrifað, er þeir tóku við starfinu. Það er þess vegna einber fjarstæða að halda því fram, að jeg sje að gera yfirfiskimatsmönnunum neinar getsakir með þessu. Það er alveg það gagnstæða. Svo er á það að líta, hverju megin líkurnar sjeu meiri fyrir því, að stefnt sje í rjetta átt, þegar svo bæri við, að sitt sýndist hverjum, yfirfiskimatsmönnunum og þessum umferðafiskimatsmanni. Annarsvegar eru þaulreyndir menn, með mikla þekkingu og reynslu að baki sjer, en hinsvegar maður, sem gripinn hefir verið úr lausu lofti — jeg segi þetta af því, að hv. 2. þm. G.-K. sagði, að ekki kæmi til mála að fela neinum af núverandi yfirfiskimatsmönnum þetta starf. Hjer er ærinn aðstöðumunur, það er óneitanlegt, þó samt sem áður megi náttúrlega um það deila, hverra álit sje rjettara. En hvað sem um það er, þá eru yfirfiskimatsmennirnir bundnir við — það er bláber skylda þeirra — að fara eftir bestu þekkingu og sannfæringu.

Háttv. þm. Ísaf. var einnig að drótta þessu sama að mjer, að jeg gerði yfirfiskimatsmönnunum getsakir. En jeg ætla, að þessum báðum hv. þm. sje fullsvarað hvað þetta snertir, með því, sem jeg nú hefi sagt.

Þá sagðist hv. frsm. vera á móti því, að gefa yfirfiskimatsmönnunum kost á að fara til Miðjarðarhafslandanna og kynnast þeim kröfum, sem neytendurnir gera til verkunar á fiskinum. Það væri þýðingarlaust og ekkert annað en óþarfa kostnaður. Hinsvegar bjóst hann við því, að yfirfiskimatsmennirnir mundu ekki slá hendinni á móti því, að fara slíka skemtiför. Jeg ætla nú ekkert að svara þeirri staðhæfingu, að slíkar sendifarir bæru engan árangur. Það þarf ekki annað en benda til reynslunnar í því efni og þess, að fyrsti grundvöllurinn undir fiskimatið hjer á landi var lagður með för Þorsteins Guðmundssonar til Spánar. En þetta gefur mjer tilefni til að minnast á það, sem hv. 2. þm. G.-K. hefir sagt um þá hina stóru hugsjón sjútvn., sem hún hefir nú alveg nýlega komið auga á úti í ómælisgeimnum, að koma hjer á fót matsstjóraembætti og að matsstjórinn ætti að taka sjer ferð á hendur á hverju hausti suður á Spán. Það er sjerstaklega vert að athuga þessi ummæli hv. 1. þm. S.-M. í sambandi við það, að hann á sjálfsagt sinn hlutfallslega þátt, miðað við höfðatölu nefndarinnar, í þessari stóru hugsjón.

Þá sagði háttv. 1. þm. S.-M., að það væri ekkert vandaverk að meta fisk, þegar menn annars væru einu sinni komnir upp á lag með það. En í sömu andránni segir hann, að matið sje sífeldum breytingum háð. Jeg held, að það sje nú ekki vel gott samræmi í þessu, frekar en fiskimatinu.

Það er nú raunar fleira, sem jeg hefði þurft að drepa á út af ræðu þessa hv. þm. En af því mjer er skamtaður svo naumur tími, þá verð jeg líklega að sleppa því. — Nei, jeg verð að minnast að eins á eitt atriði enn. Hv. þm. sagði, að þær breytingatillögur, sem jeg hefi borið hjer fram, hefði jeg eins getað flutt í þál.-formi. Jeg hefi nú áður lýst því, hversu mikilsverð atriði til endurbóta á fiskimatinu felast í mínum brtt. og þar af leiðir, að nauðsynlegt er að slík ákvæði sjeu tekin upp í lögin. En út frá þessari skoðun hv. 1. þm. S.-M. vil jeg benda honum á það, að þær tillögur sem sjútvn. ber hjer fram sem breytingu á lögunum, hefðu þá alveg eins getað komið fram í þál.-formi, og vitanlega það því miklu fremur sem þær eru ómerkari og gagnslausari en mínar tillögur. Þá vildi háttv. þm. ekki leggja mikið upp úr því, sem samþ. var á aðalfundi Fiskifjelagsins um þetta mál, en háttv. þm. Ísaf. hafði aðalgögn sín í þessu máli frá einum manni úr Fiskifjelaginu. Jeg hefi nú svarað háttv. þm. Ísaf. að því er snertir afstöðu þessa umferðafiskimatsmanns til yfirfiskimatsmannanna. En það var fleira í ræðu hans, sem er þess vert, að það væri athugað. Það var nú næstum því broslegt, þegar háttv. þm. fór að tala um það og útlista það, hvaða verk þessi umferðafiskimatsmaður ætti að vinna, þessi gersamlega valdalausi ferðalangur. Það var nú ekki nóg með það, að hann ætti að vera hæstráðandi um alt það, er að fiskimatinu lýtur, heldur ættu fiskútflytjendurnir og að öðru leyfi að lúta boði hans og banni. Hann ætti sem sje að ráða því, hvað hver og einn fiskútflytjandi á landinu ljeti verka mikið á þessu og þessu þurkstigi, ákveða meðferð hins svonefnda Labradorfiskjar og þar fram eftir götunum. Háttv. 3. þm. Reykv. hefir nú tekið þetta til athugunar, og varð það til þess, að hv. þm. Ísaf. ýmist tók aftur sumt af því, sem hann sagði um þetta, eða þá dró úr því, og get jeg því slept að minnast á það frekar. Þá var háttv. þm. með allmikla útreikninga í tapi, sem hlotist hefði af því ósamræmi, sem hefði verið á síðastl. ári á kröfum neytendanna og verkunaraðferðunum, að því er þurkunina snertir og meðferð Labradorfiskjar. Taldist honum svo til, að mikið tjón hefði af þessu hlotist. Hjelt hann þar fram, að hjá þessu yrði komist, ef sett væri á stofn yfirstjórn í þessum málum. Við þetta er fyrst og fremst að athuga, að kröfur neytendanna eru breytilegar frá ári til árs, og það verður ekki sjeð fyr en jafnóðum, hvers krafist er á þessum og þessum tíma. Þess vegna eru litlar líkur til, að bót yrði ráðin á þessu með því að ákveða fyrirfram fyrir alt landið, hvernig þessu skyldi hagað á því ári. En að því leyti sem þessi háttv. þm. viðurkendi þörfina á því, að kynnast kröfum manna í neyslulöndunum um verkun fiskjarins og alla meðferð til leiðbeiningar við matið, þá var hann kominn inn á mínar tillögur um að yfirmatsmennirnir ættu kost á því að fara til Miðjarðarhafslandanna í þessum erindum. En honum þótti það ófullnægjandi, og kvað þessu betur fyrir komið á þann hátt, sem ráð væri fyrir gert í hinni stóru hugsjón sjútvn., að matstjórinn með alræðisvaldinu og málaþekkingunni færi þessar ferðir. Það er nú ekki hægt að gera ráð fyrir því, að yfirfiskimatsmennirnir mæli á spánska tungu, en þar er bót í máli, að við höfum fulltrúa suður á Spáni, sem vitanlega leiðbeindi og liðsinti fiskimatsmönnunum að þessu leyti og öðru eftir þörfum. Og að því leyti sem þörf er á að vinna að þessum málum suður þar, fyrir utan verksvið yfirfiskimatsmannanna, þá getur fulltrúi okkar á Spáni vitanlega gert það og gerir að sjálfsögðu. Það þarf þess vegna alls ekki að standa í vegi fyrir því, að fult gagn geti orðið að för yfirfiskimatsmannanna þangað suður, þó þeir sjeu ekki spönskumælandi, meðan fulltrúans nýtur við. Með þessu er þá líka fullsvarað því, sem háttv. 2. þm. G.-K. sagði um þetta. Og þá er jeg nú kominn að háttv. 2. þm. G.-K. Og jeg býst við því, að teflt sje á fremsta hlunn með þolinmæði hæstv. forseta. Mjer gefst því ekki færi á að stikla nema á örfáum atriðum í ræðu háttv. 2. þm. G.-K. Vildi jeg þó sannarlega, að jeg hefði haft nokkuð rýmra svið til þess að athuga ummæli þessa háttv. þm. Jeg býst við því, að það hafi ekki farið fram hjá háttv. deildarmönnum, hvað þessi hv. þm. talaði af miklum myndugleik, og að það sást varla framan í hann fyrir sjálfsáliti. Hann vildi láta það koma skýrt og ótvírætt fram, að hann væri ekki óbreyttur liðsmaður í sjútvn., heldur bæri hann höfuð og herðar yfir aðra nefndarmenn. Hann má nú ekki taka þetta svo, að jeg taki undir þetta með honum eða að það sjeu nokkur „kompliment“ í þessu frá mjer til hans, eða að í þessu felist nein viðurkenning frá minni hendi um að það sje samræmi í sjálfsálitinu hjá honum og því, sem hann hefir til brunns að bera í þessu máli, heldur er hjer að eins lýsing af því, hvernig hann lítur á sjálfan sig og hlutverk sitt. En þrátt fyrir þennan myndugleik og alt sjálfsálitið, sem var uppistaðan og fyrirvafið í ræðu hv. þm., þá hefir háttv. 3. þm. Reykv. annarsvegar sýnt ljóslega fram á, að ótrú háttv. 2. þm. G.-K. á tillögum mínum er annaðtveggja bygð á skilningsskorti hv. þm. á því, hver sje heppilegasta leiðin til úrlausnar og endurbóta í þessu máli, eða að þessi hv. þm. vill ekki viðurkenna þær umbætur á matinu, sem fólgnar eru í því skipulagi, sem gert er ráð fyrir, að tekið verði upp eftir mínum till. En hinsvegar sýndi háttv. 3. þm. Reykv. fram á, að það væri oftrú, að þessi valdalausi ferðalangur, sem frv. sjútvn. gerir ráð fyrir, gæti gert þau undur og stórmerki, sem háttv. 2. þm. G.-K. gerir ráð fyrir, og nokkuð væri svipað á komið með stóru hugsjónina, sem þessi sami þm. hefir komið auga á úti í framtíðinni. Og eiginlega var svo komið í lok ræðu háttv. 3. þm. Reykv., að háttv. 2. þm. G.-K. sat fastur í hugsjóninni. Háttv 2. þm. G.-K. var að gefa í skyn, að jeg, bóndi ofan úr sveit, bæri ekki mikið skyn á þessi mál. En heldur þótti honum það skuggalegt, að svo hefði nú viljað til, að skoðanir okkar háttv. 3. þm. Reykv. í þessu máli fjellu saman. En til þess að deyfa eggjarnar, tók þessi hv. þm. til þess ráðs að gera lítið úr háttv. 3. þm. Reykv. og niðra honum á allan hátt. Hann sagði, að jeg þyrfti á öllum styrk að halda, hve lítilfjörlegur sem hann væri. Þessu er vitanlega öllu stefnt á háttv. 3. þm. Reykv. Jafnframt því sem háttv. 2. þm. G.-K. freistar þess að gera lítið úr þekkingu háttv. 3. þm. Reykv. á þessu máli, til þess að draga úr þeim stuðningi, sem hann veitir mjer, þá er það og líka gert af því, að háttv. 2. þm. G.-K. vill upphefja sjálfan sig á kostnað háttv. 3. þm. Reykv., og gekk hann svo langt í því efni, að hann vildi auðsjáanlega láta það skína í gegn, að eiginlega væri sjer að þakka alt, sem unnist hefir á í fiskimatinu. Jeg býst nú við, að annaðhvort hafi háttv. 2. þm. G.-K. ekki verið fæddur eða sem ómálga barn í vöggu, þegar fyrsti grundvöllurinn var lagður að fiskimatinu og það sett í fastar skorður. Jeg hygg því, að háttv. þm. eigi erfitt með að fá aðra en sjálfan sig til að trúa því, að hann eigi heiðurinn af þessu. Þá mintist háttv. 2. þm. G.-K, á „vefarann mikla af Skaganum“ og þann hjúp, sem hann hefði sveipað um tillögur sínar, og kvaðst þessi háttv. þm. ætla að svifta af hjúpnum. En það tókst nú ekki að þessu leyti sem hönduglegast. (ÓTh: Það var sorglegt!). Já, vel má vera, að svo sje, en því skal ekki neitað, að hv. þm. svifti hjúpnum af þeim tvískinnungi og óheilindum, sem er í öllum flutningi þessa máls hjá sjútvn. En hann var nú reyndar búinn að þessu að nokkru leyti áður. Eins og frv. liggur fyrir og eins og talað var fyrir því í upphafi, gat engan mann grunað, að þetta, sem nú er fram komið með stóru hugsjónina, byggi undir, ef þetta er þá ekki bara uppfundið nú á síðara stigi málsins.

Þá get jeg ekki alveg gengið fram hjá því að minnast á það, þar sem hv. þm. var að draga upp mynd af því, hvernig það mundi ganga til, þegar yfirfiskimatsmennirnir kæmu á fund, samkvæmt mínum tillögum, og færu að ræða um endurbætur á fiskimatinu. Hann gerði ráð fyrir því, að það mundi alt lenda í rifrildi fyrir þeim; þeir mundu standa hver uppi í hárinu á öðrum og segja hver við annan: Hvað ætli þú vitir þetta betur en jeg, þú, sem ekki varst fæddur, þegar jeg var orðinn fiskimatsmaður! o. s. frv. það er nú rjett að bera þetta saman við það, sem þessi háttv. þm. var áður búinn að segja um þessi fundarhöld. Þá bar hann engar brigður á það, að fiskimatsmennirnir mundu koma sjer saman, en það væri bara ekki nóg. (ÓTh: Þetta er alveg rangt!). Nei, þetta er alveg rjett. Jeg var búinn að benda háttv. þm. áður á þessi ummæli hans, en þá reyndi hann ekki að neita þessu, enda var þá svo skamt um liðið frá því hann sagði þetta. Það er alveg rjett, að háttv. þm. hefir ratast satt á munn, þegar hann sagði, að þeir mundu koma sjer saman. Fundarhöldin mundu áreiðanlega leiða til nauðsynlegs samræmis á og heppilegra endurbóta á matinu.

Háttv. þm. talaði mikið um það, að það færi jafnan illa, þar sem margir rjeðu; þá vantaði höfuðið. Því er haldið fram af sumum, að þegar eitthvað brestur á um góða fjárhagsafkomu sumra fjelaga, þá eigi það meðal annars rót sína að rekja til þess, að þau fjelög hafi svo marga stjórnendur. Hvað segir þessi háttv. þm. um það? Þá talaði hv. þm. um það, hvernig þessum málum væri fyrir komið í Noregi. En hvert sótti hann þekkinguna á því? Til yfirfiskimatsmannsins á Austurlandi. Hann fjekk þessar upplýsingar um leið og hann skýrði honum frá frv. sjútvn. og fjekk samúð hans með þessum breytingum. En þessi yfirmatsmaður fjekk þá ekkert að vita um, að fram væru komnar aðrar tillögur í málinu. En það má með sanni segja, að hv. þm. hafi seilst um hurð til lokunnar að vera að sækja upplýsingar um fyrirkomulag Norðmanna á þessum málum til Austfjarða. Jeg hefði t. d. getað gefið honum upplýsingar um þetta alt saman.

Þá endurtók þessi hv. þm. það, sem hv. 1. þm. S.-M. var áður búinn að segja, að yfirfiskimatsmennirnir mundu ekki hafa á móti því að sigla sjer til skemtunar, en hinsvegar mundu þeir þess ófúsari, að þeim væri skipaður yfirmaður. Líkti háttv. 2. þm. G.-K. þeim við þjóf og lögreglu. Jeg vil nú hafa sem fæst orð um þessa samlíkingu; hún er álíka smekkleg og hún er góðgjörn og viturleg. Þá dró þessi hv. þm. að síðustu upp myndir af till. sjútvn. og mínum tillögum. Tillögur sjútvn. voru auðvitað gáfaður og göfugur drengur, sem rennur öruggur út í lífið, en mínar tillögur voru fulltíða rindill. Jeg vil nú í allri vinsemd benda þessum hv. þm. á það, um leið og jeg lýk máli mínu, að hann ætti helst ekki að minnast á rindla, hvorki í líkamlegum nje andlegum efnum.