17.02.1927
Neðri deild: 8. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þar sem stjórnin hefir lagt fyrir þetta þing 2 frv., sem þessu máli eru nákomin, og jeg vona að komi til umr. í þessari hv. deild síðar, þá ætla jeg yfirleitt að skjóta því á frest að gera frv. hv. 4. þm. Reykv. að umtalsefni. Þess mun gefast kostur síðar, í sambandi við frv. stjórnarinnar.

Hv. flm. undraðist það, að stjórnin skyldi hafa lagt frv. sitt til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskránni fyrir hv. Ed. Jeg vil benda honum á það, að stjórninni er það algerlega í sjálfsvald sett, fyrir hvora þingdeildina hún leggur frv. um breytingar á stjórnarskránni. Slíkar breytingar hafa oft verið á döfinni fyr, og frv. um þau hafa ýmist verið lögð fyrir neðri deild Alþingis eða efri deild.

Jeg skal hjer geta þess, að framan af þingi hefir hv. Nd. ærið að starfa við þau mál, sem ákveðið er, að fyrir hana skuli lögð. Það er því gert til hagnýtingar á starfskröftum Alþingis, að leggja önnur vandamál en þau, er beint heyra undir hv. Nd., fyrir hv. Ed. þegar í þingbyrjun, og svo var gert nú.

Að svo mæltu skal jeg fyrst snúa mjer að því atriði, er hv. flm. nefndi í sambandi við annað frv., er stjórnin ber fram, þar sem hann ræddi um missi kosningarrjettar vegna þegins sveitarstyrks. Jeg hygg, að hv. flm. hafi ekki farið rjett með sögulegar ástæður fyrir slíkri rjettindasviftingu. Hv. flm. sagði, að aðalástæðan fyrir rjettarsviftingunni væri sú, að menn álitu yfirleitt, að styrkþegar af sveit væru svo ljelegir borgarar, að þeir ættu ekki skilið að njóta jafnrjettis við aðra menn. Þetta er ekki rjett. Höfuðástæðan til þessa er sú, að þjóðfjelagið hefir álitið rjettarskerðing nauðsynlega sem aðhald, svo að ekki sæktu alt of margir eftir slíkum styrk. Og nú á tímum er það áreiðanlegt, að þessari svokallaðri rjettarskerðingu er haldið, beint með þetta fyrir augum. Flestir reyna nú að verjast sveitarstyrk, hvort það eru fátæklingar sjálfir eða aðrir, sem samkvæmt lögum ber að sjá fyrir þeim, ekki hvað síst vegna rjettindamissisins, sem sveitarstyrknum fylgir.

Að þessu mæltu vil jeg benda hv. flm. á þá úrlausn málsins, sem liggur fyrir í frv. stjórnarinnar um brtt. á fátækralöggjöfinni og hann mintist á áðan. Þær brtt., sem þar koma fram, eigi að bæta úr því, sem hjer kann að vera áfátt hjá okkur að þessu leyti, og þær breytingar má gera án breytingar á stjórnarskránni.

Um þetta frv., er hjer liggur fyrir, vil jeg taka það fram, að það er alt umbúðir utan um eitt höfuðatriði, sem sje það, er felst í 21. brtt., að afnema friðhelgi eignarrjettarins og leggja það á vald þingmeirihluta í hvert skifti, hvort koma skuli gjald fyrir tekna eign, eða ekki. Þetta er sú grundvallarbreyting, sem þetta frv. fer fram á, og þegar hv. flm. lýsir hjer yfir því, að frv. fari ekki út í æsar eftir vilja jafnaðarmanna, þá má nú búast við því, að lengra verði haldið í sömu átt, ef nú tekst að stíga þetta byrjunarspor.

Jeg vil nú grípa tækifærið og skjóta því til bandamanna hv. flm., bæði hjer í deildinni og eins meðal kjósenda út um land, að þeir athugi vel, hvað það er, sem hv. flm. þykir hæfa að bera hjer fram — ekki sem stefnuskrá sína, nje síns flokks — heldur sem sæmilega málamiðlun handa þessum bandamönnum sínum.