17.02.1927
Neðri deild: 8. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það þýðir ekki að deila mikið um þau atriði, sem felast í fátækralagafrv. hæstv. stjórnar, en þó skal jeg geta þess, að samkvæmt því frv. fellur það undir pólitískar sveitar- og bæjarstjórnir að ákveða, hvort menn hafa kosningarrjett eður ekki, og slík ákvæði eru enginn rjettur fyrir hlutaðeigandi menn, heldur verða þeir að leita á náðir meirihlutaflokksins í bæjar- eða sveitarstjórninni, sem óhæft er með öllu.

Um friðhelgi eignarrjettarins skal jeg aðeins taka það fram, að ekkert er til í reyndinni, sem heitir því nafni. Hæstv. forsrh. ætti að vita það, að eignarrjettur einstaklinga nær ekki lengra en ákveðið er með lögum, og löggjöfin takmarkar þennan rjett síðustu áratugina æ meira og meira. Benda vil jeg honum á það, að í stjórnarskrá Norðmanna eru orðin, að eignarrjetturinn sje friðhelgur, afnumin á sama hátt og gert er ráð fyrir í frv. mínu. En kjarni þess máls er: Hvað nær eingnarrjettur einstaklinga langt? Hann er ekki friðhelgur, því að hann nær ekki og getur aldrei náð lengra en almenningsheill krefur. Eignarrjettur þjóðfjelagsins vex að sama skapi og eignarrjettur einstaklinga minkar. Hver á svo að ákveða, hvenær eignarrjettur einstaklings á að víkja fyrir almannaheill og hvers virði hann er? Það er fulltrúaþing þjóðarinnar, sem kjósa ætti eftir lýðræðisreglum, og rjettara virðist að láta þjóðina þannig með lögunum sjálfum ákveða endurgjaldið, heldur en láta það fara eftir áliti misjafnra matsmanna.