19.03.1927
Neðri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í C-deild Alþingistíðinda. (3072)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jón Kjartansson:

Það var af því að vinur minn, hv. 2. þm. Árn., var svo yfir sig reiður, þegar hann talaði, að hann fór með staðlausa stafi og fullyrti, að jeg hefði ýmislegt sagt, sem jeg alls ekki kannast við. Hann byrjaði að gefa í skyn, að jeg hefði farið með það eftir hv. þm. Barð., að landbn. hefði í fyrra bygt álit sitt á röngum upplýsingum. Á þetta mintist jeg ekki einu einasta orði.

Hann fór líka með rangar staðhæfingar, er hann fullyrti, að jeg hefði kveðið upp dóm í þessu svokallaða áburðarmáli. Jeg tók það einmitt fram, fyrir mitt leyti, að jeg heimtaði skýrslur í málinu og að öll gögn væru lögð á borðið, svo að hægt væri að kveða upp endanlegan dóm um sýknu eða sekt búnaðarmálastjóra. En hitt tók jeg fram, að búnaðarþingið hefði með afgreiðslu málsins kveðið upp dóm, enda get jeg. ekki betur sjeð en að það hafi þegar kveðið upp sýknudóm yfir Sigurði Sigurðssyni og hreinsað hann af þeim áburði, sem á hann var borinn. En okkur hina vantar þær skýrslur og upplýsingar, sem sá sýknudómur er bygður á.

Hv. 2. þm. Árn. hafði mörg orð um það, sem jeg hafði í ræðu minni kallað stjórnleysi og ábyrgðarleysi búnaðarfjelagsins, og heimtaði með þjósti miklum, að jeg færði rök fyrir því. Jeg gerði það á dögunum, en jeg get bætt því við, að jeg veit ekki hvað lýsir meira stjórnleysi og ábyrgðarleysi en framkoma stjórnar Búnaðarfjelags Íslands í þessu máli, er hún víkur frá starfi sínu alveg fyrirvaralaust einum aðalstarfsmanni fjelagsins, en svo, þegar rjettur aðili, búnaðarþingið, kemur til skjalanna og rannsakar málið, þá er frávikning mannsins að engu höfð og hann settur aftur í sitt fyrra embætti. En jafnframt reynir stjórnin á allan hátt að koma í veg fyrir, að nokkur fái vitneskju um það, sem gerst hefir. Er hægt að hugsa sjer meira stjórnleysi og meira ábyrgðarleysi en þarna kemur fram.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að eltast frekar við allar rangfærslur hv. 2. þm. Árn. á orðum mínum, og læt því þessari athugasemd minni lokið.