21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Flm. (Halldór Stefánsson):

Við berum hjer fram þrír þm. áskoranir til ráðh. í þál.-formi um að breyta reglugerð Ræktunarsjóðs Íslands. Það má heita nýmæli, að byrjað er í sveitum að byggja rafmagnsstöðvar til afnota fyrir heimilin. Er vaknaður á því mikill áhugi og alment álitið, að þetta sjeu einhverjar þær þýðingarmestu framkvæmdir, sem hægt er að gera til umbóta í sveitum, bæði í menningarlegu og hagsmunalegu tilliti. Það hefir þá menningarlegu þýðingu, eins og vikið hefir verið að í sambandi við annað mál, að skapa húsþægindi, þrifnað og híbýlaprýði. Þá er hjer um hagsmunamál að ræða, en þar er mikill og margvíslegur vinnusparnaður og aflgjafi til ýmissa framkvæmda. Það má nefna t. d. kornmölun, sem af ýmsum læknum er talin hafa mikla heilbrigðislega þýðingu. Síðast en ekki síst hlýtur þetta að hafa mjög mikla þýðingu fyrir ræktun landsins, því að víða er enn notað og hlýtur að verða notað mikið til eldsneytis það, sem er í rauninni hinn besti áburður til ræktunar.

Nú er, eins og áður er sagt, vaknaður mikill áhugi víða á því að koma upp rafmagnsstöðvum. En fjárþröng hamlar mönnum frá að gera það, sem þeir gjarnan vildu í þessum efnum. Það er engin lánsstofnun nema Ræktunarsjóður Íslands, sem lánar til þessara framkvæmda. Það var nýmæli og góðra gjalda vert, er tekið var upp í reglugerð Ræktunarsjóðs, að lána mætti til rafmagnsstöðva. En það, sem þykir bresta á, er það, að lánskjörin eru að ýmsu leyti ekki nægilega rúm. Það er leyfilegt að lána aðeins til 10 ára, en lán til ýmissa annara jarðræktarframkvæmda eða húsabóta má veita til 20 ára. Þá er ekki leyft að lána nema út á hálft virðingarverð og ekki að borga út lánin fyr en mannvirkinu er lokið, en til ýmissa annara framkvæmda má lána 3/5 hluta og jafnótt og verkinu miðar áfram. Yfir þessu er alment mikið kvartað.

Við flm. höfum borið það undir stjórn Ræktunarsjóðsins, hvort hún sæi nokkuð því til fyrirstöðu, að breytingar þær, sem till. bendir á, nái fram að ganga. Stjórnin hefir mikinn áhuga á þessum framkvæmdum og telur þær mikilsverðar. Þess vegna mælir hún með því, að till. okkar nái fram að ganga.

Við höfðum hugsað okkur víðtækari breytingar á reglugerðinni, en vildum þó ekki bera þær fram, ef það skyldi verða til þess, að menn ættu örðugra með að fallast á þessar mikilsverðustu breytingar, sem við höfum mestan hug á að samþyktar verði. Verði þær samþyktar, þá getur Ræktunarsjóðurinn í framtíðinni mætt sanngjörnum óskum lánbeiðenda.

Jeg vil nota tækifærið og benda á það, að þó að þessu fáist framgengt, þá vantar í raun og veru eitt skilyrði enn, sem nauðsynlegt er til þess að framkvæmdir þær, sem hjer ræðir um, megi vel takast. En það er, að kostur sje á aðstoð sjerfróðra manna, sem gætu sagt fyrir um rafveituskilyrði, gert kostnaðaráætlun og sagt fyrir um

byggingu rafstöðvanna. Úr þessu þarf að bæta og á þann hátt, að komið gæti að sem bestum notum. Jeg hygg nú, að Búnaðarfjelag Íslands hafi tekið að sjer að bæta úr þessu, en ekki veit jeg, hvort aðgerðir þess eru fullnægjandi í þessu efni. Ef það væri ekki, þá væri ástæða til þess, að ríkið hlutaðist til um, að menn ættu kost á þeirri sjerþekkingu og aðstoð, sem nauðsynleg er, til þess að þessi mannvirki verði svo vel uppsett og komi að svo fullum notum sem kostur er á.

Að lokum vona jeg, að háttv. deild geti fallist á þessa till. okkar, fyrst stjórn Ræktunarsjóðsins hefir tekið henni svona vel. Einnig vona jeg, að hæstv. stjórn verði fús á að verða við þessari áskorun, ef hún nær samþykki deildarinnar.