21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3229)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla þessari till. Í þess stað ætla jeg að fara fram á það, að málið verði tekið út af dagskrá og vísað til nefndar, svo að tækifæri verði til þess að koma fram með brtt. Jeg skal þá líka gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna jeg æski þessa. Mjer þykir vænt um, að stigið er fótmál í þá átt að gera almenningi auðveldara að koma upp ljósastöðvum í sveitunum, svo sem með þessari till. á að gera.

En það er fleira, sem athuga þarf í sambandi við reglugerð Ræktunarsjóðs Íslands en þetta atriði. Í 9. gr. reglugerðarinnar eru talin upp verkefni þau, er lána má fje til úr sjóðnum, og eru þau átta. Hið síðasta er þetta, sem hjer um ræðir, byggingar rafmagnsstöðva. En við samning reglugerðarinnar hefir fallið niður eitt verkefni, sem eftir tilgangi sjóðsins átti þar að teljast, en það er heimild til þess að lána fje til varnar landspjöllum eða vatnagangi og skriðum. Mjög víða verða jarðabætur ekki unnar fyrir slíkum hættum, eða ekki tilvinnandi að leggja í þær. Enda er algengt, einkum í fjallasveitum, að bæði tún og engi sjeu undirorpin skemdum af skriðum og vatnagangi, sjerstaklega í vorleysingum. Þessu má víða afstýra með hægu móti, ef fjeleysi hamlar ekki. En þar, sem þessar hættur vofa yfir, leggja menn trauðla út í jarðabætur, hve nauðsynlegar og aðkallandi sem þær annars kunna að vera.

Inn í 9. gr. reglugerðar Ræktunarsjóðsins þarf einmitt að komast ákvæði um lánveitingar til þessara mannvirkja.

Jeg hefi minst á þetta við stjórn Ræktunarsjóðsins. Hún álítur, að það liggi í hlutarins eðli, að veita megi fje til þessa, en hún hefir samt ekki treyst sjer til að fara lengra en svo í þessu að lána aðeins helming upphæðar þeirrar, sem mannvirkin kosta, og mun til þessa lítið hafa veitt af þessum lánum.

Önnur ástæðan fyrir því, að jeg óska, að málið sje tekið út af dagskrá og athugað í nefnd, er sú, að mjer er ekki grunlaust um, að þessi rúma lánsheimild verði ef til vill misnotuð, þegar ákveðið er að lána út fje með vægari kjörum til rafmagnsstöðva en annari búnaðarbóta. Slík misbrúkun getur auðveldlega orðið aðiljum óviljandi, ef nauðsynlegar leiðbeiningar vantar, er reisa skal ljósastöðvar. Það er alkunnugt, að þegar um vatnavirkjanir er að ræða, þá verður venjulega hver hestorka því ódýrari sem meira er virkjað og því dýrari sem aflstöð er minni. Mjer er kunnugt um margar af þessum innlendu ljósastöðvum, og hefir hver hestorka í þeim kostað frá 600 kr. og jafnvel alt upp að 2000 kr. Munurinn er geysilegur. Auðvitað getur verið arðvænlegt að setja upp ljósastöð þar, sem hægt er að fá hestaflið fyrir 600 kr., en öðru máli gegnir, þegar það kostar alt að 2000 kr. Einfalt reikningsdæmi sýnir, að ljós og hiti, sem það veitir, er þá komið í afarverð. Þetta skilst mjer að þurfi vandlega að athuga, þegar á að fara að veita fje í stórum stíl til ljósastöðva í sveitum. Eins þarf að athuga það, áður en mikið fje er veitt til þessara hluta, hvar hægt er að virkja sameiginlega fyrir mörg býli. Þar sem því verður við komið og fjarlægðir eru ekki of miklar milli býlanna, þar er einsætt, að samvirkjanir verða að vera. Að setja upp margar smástöðvar, t. d. 2–3 hestafla, þar sem hægt væri með stuttum leiðslum að nota eina stærri stöð, er oftast afskapleg fjáreyðsla. Þess vegna þarf fyrst og fremst, áður en fje er veitt til þessara fyrirtækja, að rannsaka fallvötnin eða vatnsaflið í sveitunum og athuga, hvar hægt er að koma við samvirkjunum og hvar það er ekki hægt. Ef málið verður tekið af dagskrá og umr. frestað, gefst tækifæri til þess að koma fram með brtt., sem lagfærir þá annmarka, sem hjer hafa verið nefndir, og verð jeg að álíta, að það skifti miklu máli.

Jeg hjó eftir því við umr. um annað mál nýlega, að búið væri að lána úr Ræktunarsjóði 1¼ milj. kr. fram til þessa tíma. Það er ekki stór upphæð, er byggja þarf margar ljósastöðvar, rækta land, reisa bæi o. s. frv. Það er því augljóst, að það takmarkaða lánsfje, sem sjóðurinn ræður yfir, hrekkur skamt, ef stórfeldar eru framkvæmdir, en því meiri þörf er á að nota fjeð með varhygð og gát til þeirra fjárfreku fyrirtækja, sem till. ræðir um.