23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (3234)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Jeg hefi ekki margt um þetta mál að segja af hálfu landbn. Hún leggur það til, að till. verði samþ., og sömuleiðis leggur meiri hl. nefndarinnar til, að brtt. á þskj. 214 verði samþ. En um brtt. á þskj. 238 er það að segja, að um fyrri brtt. hefir nefndin óbundnar hendur, en um síðari till. leggur nefndin til, að hún verði feld. Ástæðan til þess, að meiri hl. nefndarinnar er mótfallinn fyrri brtt. á þskj. 238 er sú, að hún lítur svo á, að þar sem rekstrarfje Ræktunarsjóðs er svo takmarkað, þá beri að láta þær framkvæmdir sitja fyrir um lán, sem taldar eru upp í reglugerð sjóðsins. — En viðvíkjandi staflið 2 á sama þskj. skal jeg geta þess, að þar er felt niður atriði, sem er í þáltill. sjálfri, um það, að þessi breyttu lánskjör nái einnig til þeirra lána, sem þegar eru veitt. Nefndinni þykir sjálfsagt, að þessi lánskjör — ef samþ. verða — megi ná einnig til lána, sem þegar er búið að veita. Að öðru leyti þykir nefndinni tillöguviðbótin ekki falla vel við form till., þar sem till. er stíluð til landsstjórnarinnar, en viðbótin er stíluð til lántaka. Hinsvegar telur nefndin viðbótarákvæðið óþarft vegna þess, að öllum má vera það hugleikið að gera framkvæmdirnar á þann hátt, sem hagfeldast er.

Fleira hefi jeg ekki að segja af hálfu nefndarinnar og sje ekki ástæðu til þess að ganga alment inn á málið.