23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Sveinn Ólafsson:

Hv. frsm. landbn. (HStef) hefir lagt á móti brtt. minni á þskj. 238. Fyrri liður hennar lýtur að því, að lán veitist til þess að forðast landskemdir og vatnagang, með sömu kjörum og jarðræktarlán alment. Finst hv. frsm. (HStef), að ekki sje sjerstaklega aðkallandi þörf slíkra lána.

Jeg hefi, eins og jeg tók fram við fyrri umr. þessa máls, borið þetta undir framkvæmdarstjóra Ræktunarsjóðsins, og kannaðist hann við, að ákvæði um þetta vantaði í reglugerð Ræktunarsjóðs. Þó kvað hann stjórn sjóðsins hafa álitið sjer heimilt að verða við óskum manna um slík lán í stöku tilfellum, en mjög takmarkað og um stutt árabil. Eðlilega er ekki leggjandi fje í jarðabætur þar, sem landspjöll vofa yfir, og á slíkum stöðum er fyrsta og sjálfsagðasta jarðabótin einmitt landvörnin og þess vegna nauðsynlegt að taka upp í reglugerð sjóðsins ákvæði um lánsheimild til slíkra hluta.

Það er alkunna, að skriður og lækir skemma víða slægjulönd svo mjög, að ekki þykir tilvinnandi að bæta eða rækta landið. En víða er þó hægt að afstýra slíkum hættum með því að girða fyrir læki, sem bera fram aur, og mynda varnir gegn skriðum, en til þess brestur marga efni. Álít jeg, að viðleitni manna til þess að verjast þannig landspjöllum hafi eins mikinn rjett á sjer eins og ræktunarstarfið sjálft.

Um 2. lið brtt. minnar skal jeg geta þess, að með honum vildi jeg gefa frekari áherslu því, sem vakað hefir fyrir mörgum, sem til rafstöðva þekkja, að nauðsynlegt er við byggingu ljósastöðvar að haga virkjun svo, að sem allra flestir geti orðið aðnjótandi rafmagnsins frá sömu aflstöð. Við fyrri umr. gat jeg þess, að víða hagaði svo til, þar sem bygt er t. d. fyrir eitt heimili, að hægt væri að sameina fyrir eina virkjun nokkur býli. Hefi jeg borið þetta undir sjerfróða menn, og er álit þeirra yfirleitt skoðun minni samstætt. Að setja smáljósastöðvar fyrir hvert einstakt býli er fjáreyðsla, sem sjálfsagt er að forðast.

Eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið frá sjerfróðum manni, má að öllum jafnaði ætla, að vel sje tilvinnandi að tengja saman fleiri en eitt býli um eina virkjun, þegar ekki þarf lengri leiðslur en 1–2 km. Mjer er ekki grunlaust um, að á nokkrum stöðum hafi verið settar upp stöðvar fyrir eitt býli, þar sem með hægu móti hefði mátt sameina fleiri býli um notkunina. Sjálfur veit jeg um tvær slíkar stöðvar, sem reistar voru þó fyrir eitt heimili. Eins og menn sjá, er þessi bending um samvirkjun enginn hemill á, að lán verði veitt samkv. aðaltillögunni, heldur aðeins hvöt um, að athugað sje í hvert sinn, hvort ekki geti verið fleiri býli en eitt um hverja stöð, sem með lánsfje úr sjóðnum er reist.

Brtt. á þskj. 214 get jeg ekki fallist á. Mjer finst ekki rjett að gera þessum rafveitufyrirtækjum hærra undir höfði um lengd lánstímans en ræktunarstarfinu sjálfu. Það verður að vera höfuðatriðið; a. m. k. má rafveitulánið ekki hafa meira en hliðstæðan rjett við ræktunina.