23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3237)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Eins og jeg hefi tekið fram áður, hefir nefndin óbundin atkv. um fyrri lið brtt. á þskj. 238. Nefndin telur það ekki miklu máli skifta, hvort þetta er samþ. eða ekki, en vill ekki leggja beinlínis með því, þar sem hún lítur svo á, að á öðru sé brýnni þörf, en fjármagn Ræktunarsjóðsins takmarkað. Síðari lið brtt. getur nefndin ekki fallist á, af því að þar er felt niður ákvæðið um, að þessi hugsuðu lánskjör megi ná til stöðva, sem búið er að reisa með láni úr Ræktunarsjóði. Ef hv. flm. hefði ekki felt þetta niður, má vel vera, að nefndin hefði fallist á brtt. hans. Það er víst enginn ágreiningur um, að rjett sje að athuga, hvort sameina megi fleiri býli um eina stöð, en það virðist ekki fara vel saman, þar sem till. er stíluð til stjórnarinnar, að ræða jafnframt um, hvað einstakir menn, sem lán ætla að taka, eigi að gera. En þetta er aðeins formsatriði. Eins og jeg hefi tekið fram, er það aðallega vegna þess, sem felt hefir verið niður úr till., að nefndin er á móti brtt. Ef viðbótin væri hinsvegar skeytt aftan við till. sjálfa án nokkurrar niðurfellingar, sje jeg ekkert verulegt á móti því, að hún væri samþykt.