23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3238)

81. mál, ræktunarsjóður Íslands

Sveinn Ólafsson:

Mjer láðist að minnast á athugasemd hv. frsm. viðvíkjandi niðurfellingu á heimild til að flytja þessa lánsheimild yfir á þau lán, sem þegar eru veitt. Jeg feldi þetta niður af ásettu ráði; ekki af því að jeg teldi slík lán óeðlileg eða ónauðsynleg, heldur með hliðsjón af því, hve sjóðurinn hefir yfir litlu fje að ráða. Það er engin hætta á, að þær stöðvar verði feldar niður, sem þegar eru komnar á fót, en því fleirum er hægt að bæta við, sem meira fje er fyrir hendi. Þótt fram kæmi skrifleg brtt. um að setja þetta ákvæði inn aftur í till. mína, mundi jeg greiða atkv. móti því.