28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (3324)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Jónas Jónsson:

Í ofanálag á það, að Íhaldsflokkurinn hefir gert að flokksmáli að fella till. um stúdentspróf á Akureyri og kúgað flm. með endemum til þess að drepa sitt eigið frv., bætist nú það, að hæstv. dómsmrh. (MG) vill varna Akureyrarpiltum að nota þennan styrk annarsstaðar en í Reykjavík, og hæstv. fjrh. (JÞ) áskilur sjer rjett til að skamta styrkinn á stjúpmóðurvísu. Þótt ekki sje um stærra atriði að ræða en það, að kosta 10 pilta milli kaupstaða, þótt sinn í hvorum fjórðungi sje, og til skammrar dvalar meðan á prófi stendur, þá ætlar hann að telja mönnum trú um, að það sje fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð að hafa styrkinn sem minstan.

Hjer er beinlínis um „organiseraða“ óvild að ræða. Og ekki bætir það úr skák, að hv. þm. Ak. (BL), stuðningsmaður hæstv. stjórnar, hefir verið manna djarfastur að leggja á móti þessu sjálfsagða metnaðarmáli síns eigin kjördæmis, sem jafnvel flestallir íhaldsmenn á Akureyri eru fylgjandi.

Hv. flm. (JKr) sagðist geta sannað með vottum, að jeg hafi viljað ofsækja sig. Jeg vildi gjarnan, að hann sannaði það einhvern tíma við tækifæri. Af sambúð okkar á þingi er annars það að segja, að jeg hefi stutt tvö mál, sem hann hefir áhuga á, og greitt atkv. með frv., sem hann var flm. að, og datt mjer síst annað í hug en honum þætti sjer með því greiði ger. Ennfremur hefi jeg flutt frv. fyrir bræður hans, templara, sem þeir fólu mjer, og töldu tvímælalaust mundu njóta stuðnings hv. 6. landsk. (JKr). En það fór nú á annan veg, sem kunnugt er.

Meðan jeg ekki leita til hv. þm. (JKr) um læknishjálp, ætti hann að láta sjer hægt um mitt heilsufar og spara sjer tilboð um lækningar hjer á þingi. Hv. þm. (JKr) ætti að vera kunnugt um það, að hann hefir að baki sjer heima í hjeraði eitt hið einkennilegasta hneyksli, sem nokkur læknir á landinu hefir að baki sjer. Til hans kom kona, og hugði læknirinn hana fárveika af sullaveiki, lætur sækja nágrannalækni, leggur hana á skurðarborðið og ætlar að byrja að svæfa hana. En þá bendir hinn læknirinn honum á, að ekki muni þurfa að skera konuna upp, heldur muni hún fæða barn eftir fáa daga, enda reyndist sá sjúkdómur rjettur. Þar sem hv. þm. er svo seinheppinn við skyldulækningar heima í hjeraði, ætti það a. m. k. að vera honum bending um að vera ekki að bjóða fram sína fávísu aðstoð heilbrigðum mönnum í öðrum landshlutum. Það getur ekki orðið til annars en að menn fari að rifja upp, að hann er ekki eingöngu dvergur í landsmálum, heldur líka í lækningum.