13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (3411)

102. mál, rannsókn á hafnarbótum og vörnum gegn snjóflóðum

Frsm. (Árni Jónsson*):

Fyrirspurn hæstv. atvhr. (MG) um það, hvort hlutaðeigandi hjeruð muni taka að sjer að greiða kostnaðinn við rannsóknirnar, get jeg að svo stöddu ekki svarað, enda hefir um þá hlið málsins ekki verið rætt í nefndinni. En mjer er kunnugt um, að þegar þessa var óskað á þingmálafundinum á Vopnafirði í haust, þá var engum vitanlegt, að í beinan kostnað mundi þurfa að leggja vegna rannsóknarinnar. Þess vegna get jeg ekkert um það sagt, hvernig Vopnfirðingar muni taka í það, að greiða kostnaðinn við mælingarnar.

Annars finst mjer, að þessi kostnaður þurfi ekki að vera mikill. Úr því að maður fer þarna austur til þess að líta eftir vitum, ætti honum að vinnast tími til, í sömu ferðinni, að framkvæma þessar mælingar. — Viðvíkjandi hinni spurningunni, um aðstoð við mælingarnar, þá þori jeg að svara henni játandi, að hjeraðið muni láta hana í tje eftir þörfum og ókeypis.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.