18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

87. mál, sala þjóðjarðarinnar Sauðár

Flm. (Jón Sigurðsson):

Það er komið að fundarslitum, og skal jeg því ekki tefja tímann með langri ræðu, enda er gerð nokkur grein fyrir þessu máli í greinargerð frumvarpsins. Jeg get því farið fljótt yfir sögu. Skal aðeins drepa á, að vegna búpeningseignar Sauðárkróksbúa er þeim mjög nauðsynlegt að fá þetta land til umráða, en skortur á landi hefir hingað til staðið þeim mjög fyrir þrifum. Nokkur hluti þessa lands er vel fallinn til ræktunar og hæg leið til aðflutninga, þar sem það liggur meðfram Skagafjarðarbrautinni. Á það má drepa, auk þess sem getið er í greinargerðinni, að í þessu landi er allgott mótak, og hefir það mikla þýðingu. Ástæður, sem mælt gætu á móti þessari sölu, eru mjer vitanlega engar. Því er stundum hreyft um slíkar jarðir, að hugsanlegt væri, að nota þyrfti þær fyrir embættisbústað. En hjer er ekki því til að dreifa. Önnur jörð, sem Skarð heitir og er næsti bær utan við Sauðárkrók, hefir verið fyrirhuguð sem prestssetur, ef á þyrfti að halda. Þess skal getið, að sýslunefndin hefir gefið söluheimild þessari bestu meðmæli. Jörðin er nú laus úr ábúð og því vill kauptúnið nota tækifærið og tryggja sjer þær landsnytjar, sem það hefir mjög tilfinnanlega skort. Jeg vænti, að þessu verði vel tekið, eins og öðrum slíkum málaleitunum á fyrri þingum.

Jeg óska, að málinu verði vísað til landbn., að lokinni þessari umr.