24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Björn Líndal:

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) gat þess, að full þörf hefði verið á því að flytja þáltill. 1924 um Akureyrarskóla, því að annars mundi leyfið ekki hafa verið veitt, að stofna undirbúningsdeildina þar undir stúdentspróf. Jeg hygg, að ekki sje of djúpt tekið í árinni, þó jeg segi, að hv. þm. (BSt) tali hjer gegn betri vitund, því hann fór fram á það við mig þá, að jeg gerðist meðflytjandi hans að þáltill., en jeg sagði honum, að óþarfi væri að flytja till. þegar af þeirri ástæðu, að hæstv. þáverandi kenslumrh. (JM) hefði lofað því, og jeg man ekki betur en að hann lýsti yfir því hjer í hv. deild, að hann mundi leyfa þetta án þess að til kasta þingsins kæmi um málið. Þótt mjer sje kunnugt um, að hv. þm. (BSt) nærist hjer því miður á þeirri pólitískri fæðu, sem mjög er snauð af drengskaparbætiefnum, vona jeg þó, að svo mikið sje enn eftir af hans meðfædda drengskap, að hann kannist við, að jeg fer hjer með rjett mál.

Mjer þykir það næsta einkennilegt, er hv. þm. (BSt) nefnir krókaleiðir annara í þessu máli. Jeg mundi í hans sporum forðast að nefna hjer krókaleiðir, eins og snöru í hengds manns húsi.

Þá leyfir hv. þm. (BSt) sjer að tala um blekkingar og lagabrot í sambandi við þetta mál. En hvaðan kemur honum vald að fullyrða, að hjer sje um lagabrot að ræða, þvert ofan í tvímælalausa yfirlýsingu háskólans? Hjer á bak við standa ágætir lögfræðingar, sem halda því fram, að þessi heimild verði ekki veitt eins og farið er fram á með þáltill., eins og hjer er lagt til, þvert ofan í gildandi lög. Hv. þm. gat þess í þessu sambandi, að Alþingi gæti samþykt það, sem því sýndist. En er hv. þm. svo fáfróður að halda það, að hægt sje með venjulegri þáltill. að afnema gildandi lög? Annars er útrætt um þetta mál frá minni hálfu. — Jeg vona, að hv. deildarmenn hafi gert sjer ljóst, hvað hjer er um að vera. Annarsvegar ræðir um samþykt þáltill., sem gengur í berhögg við gildandi lög, en hinsvegar um samþykt till. um að hjálpa nokkrum efnalitlum og fátækum námsmönnum frá Akureyri með fjárstyrk til þess að fara hingað suður og ganga undir stúdentspróf.