05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3477)

106. mál, skipun opinberra nefnda

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Mjer er jafnkært að kannast við vingjarnlegar og sanngjarnar undirtektir eins og jeg tel mjer hinsvegar skylt að mótmæla ósanngirni.

Háttv. 5. landsk. (JBald) tók, að því er virtist, með fullum skilningi í þetta mál, og það er mikið rjett, að hans flokkur, Alþýðuflokkurinn, hefir sýnt í verki lofsverða forgöngu í þessu. Og að því kemur, að talið verður rjett, og ekki aðeins rjett, heldur líka nauðsynlegt, að í opinberum málum vinni saman karl og kona, eins og þau þurfa að standa saman á einkaheimilunum, til þess að hag þeirra sje sem best borgið.

Háttv. 5. landsk. (JBald) fanst farið fram á meira í till. en sanngjarnt væri að ætlast til af landsstjórninni. Ef maður les till. með skilningi — jeg hefi nú heyrt svo miklar aðfinslur um ófullkomið orðalag hennar — þá felst hvorki meira nje verra í henni en hver sanngjarn maður getur fallist á og er tími kemur til framkvæmda á tilgangi hennar, verður orðalagið því ekki til fyrirstöðu, að vel lánist.

Ójá, satt er það, að milliþinganefndir eru skipaðar af flokkum. Jeg er ekki vön að vera myrk í máli og skal heldur ekki vera það nú. Það er nú svo, að kona skipar eitt sæti hjer á Alþingi. og hefir hún sannast sagt ekki orðið þess vör, að leitað væri hófanna við hana um að taka sæti í nokkurri slíkri nefnd.

Háttv. 5. landsk. (JBald) vildi halda því fram, að ekki væri gengið fram hjá konum um opinber mál meir en sem svaraði óhjákvæmilegri afleiðing þess, hve stutt er síðan þær fengu tilhlutunarrjett um þau. Má vel vera, og skal jeg ekki um það deila.

12 ár eru ekki langur tími, er litið er til baka yfir aldirnar, þar sem konan hefir skipað hinn lága sess, en jafnframt þann háa sess, að bera jafna ábyrgð á heimilinu, þótt ekki þætti hún bær til að ráða utan heimilis.

12 ár, mæld á langa stiku, eru hverfandi stuttur tími. Það er satt. En nútíminn er þannig vaxinn, að hann er hraðfara og óbiðgjarn. Hann getur ekki beðið 12 ár, eða tvenn 12 ár, eftir að sjá efndir gefinna loforða.

Jeg vil mótmæla því, er hv. 5. landsk. (JBald) sagði, enda þótt mjer fyndist hann að öðru leyti hafa skilið efni, eðli og framkomu till. rjett, að hjer er alls ekki neitt það á ferðum, sem hægt er að kalla byltingu. (JBald: Fullkomnun á byltingu). Ekki heldur. Kvenrjettindi voru viðurkend sem almenn og sjálfsögð mannrjettindi, en voru ekki knúin fram með „demonstrationum“. Það gerir muninn.

Hvað myndar þjóðfjelagið? Karl og kona. Án hvors má vera? Hvorugs. Einu sinni var Alþingi Íslendinga svo skipað, að því þótti rjett að veita konum þessi ótvíræðu mannrjettindi. Jeg býst ekki við, að þessi þjóð, svo fámenn sem hún er, hafi frekar en aðrar þjóðir ráð á því að láta meira en helming þjóðarinnar vera án íhlutunarrjettar um mál, sem varða alla jafnt, karla og konur, unga og gamla, nútíð og framtíð.

Jeg hefi ekki enn látið sannfærast um, að konan geti aðeins rækt störf sín vel undir askloki því, sem kallað er að gæta bús og barna. Raddirnar, er um það gala, eru of hjáróma til þess að jeg taki þær sem gildar sannanir. En annars eru dæmin utan úr heimi, sem benda í gagnstæða átt, of mörg og auðsæ til þess að þörf sje, að jeg standi hjer og vitni!

Það er fjarri mjer að vilja með þessu bera á móti því, að karlmenn standi mætavel í stöðum sínum margir hverjir og vinni þarft verk í nefndum og á annan hátt, en — og það er það, sem jeg vil fá fram — það er alls ekki þar með útilokað, að konur kunni að gera það líka.

Mjer þótti vænt um að heyra, að hv. 5. landsk. (JBald) taldi ekki æskilegt að samþykkja dagskrártill. hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). En hún er að minni hyggju vægast sagt nokkurskonar grímuklædd vantraustsyfirlýsing á konur.