25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (3490)

71. mál, áfengisvarnir

Flm. (Jón Guðnason):

Það munu ekki vera skiftar skoðanir um það, að stærstu sporin, sem við Íslendingar höfum stigið í löggjöf okkar á síðustu árum, eða áratugum, sjeu þau spor, þegar bannlögin voru sett 1909, og svo þegar sambandslögin voru sett 1918. Þessi tvenn lög eru mjög sambærileg, þegar að því leyti, að bæði eru sett með óvenjulegum hætti. Það var ekki látið nægja, að Alþingi samþykti þau, heldur var einnig leitað um þau bæði álits allra kjósenda í landinu. Með þeirri aðferð við setningu laganna hefir því verið slegið föstu, að þessi lög bæði voru álitin mjög þýðingarmikil fyrir þjóðina, fram yfir önnur lög í seinni tíð.

Um sambandslögin þarf jeg ekki að fjölyrða. Sú mikla barátta fyrir þeim, sem var á undan gengin, er ljós vottur þess, hve mikið fjöregg þjóðarinnar lögin eru. En um bannlögin er sama máli að gegna. Þau lög komust á eftir mikla og langvinna baráttu og eftir að margir menn og mörg fjelög höfðu stefnt að því í mörg ár að koma þeim á.

Bannlögin eiga sammerkt í því við sambandslögin, að þau hljóta, allri löggjöf fremur, að vekja athygli á landi og þjóð út á við. Það er ekki aðeins, að við sjeum ein hin fyrsta þjóð, sem setur hjá sjer þessháttar löggjöf, heldur er löggjöf þessi einnig ávöxtur þeirrar hreyfingar, sem nú er einhver hin sterkasta alheimshreyfing. Má því fullyrða, að eins og örlög þjóðarinnar eru undir því komin, hvernig hún heldur á sjálfstæði sínu gagnvart öðrum þjóðum á komandi tímum, þá mun og það álit, er þjóðin nýtur úti í frá í nálægri framtíð, fara að miklu leyti eftir því, hvernig hún fer með þessa þýðingarmiklu löggjöf, bannlögin, í framkvæmdinni. Það hlýtur að vera svo, að til þeirrar þjóðar, er frammi fyrir öllum heimi hefir stigið svo stórt spor, að setja aðflutningsbannslög, verði gerðar miklar kröfur. Má því segja, er litið er á afstöðu okkar út á við og athugað, hversu mikils við höfum að gæta til þess að halda áliti okkar þar, þá sje framkvæmd okkar á bannlögunum eitt af því, sem þar þarf að taka tillit til. Hvort heldur það er þjóð eða einstaklingur, er veitir okkur eftirtekt og myndar sjer skoðun um íslensku þjóðina og það þroskastig og siðferðisstig, sem hún stendur á, þá er eitt með því fyrsta, sem litið er á, meðferð og framkvæmd bannlaganna. Sú þjóð, er stigið hefir svona stórt spor, hefir frammi fyrir öllum heimi lýst yfir því, að hún ætli að gera miklar og áður óvenjulegar kröfur til sjálfrar sín um siðgæði og sterka framkvæmd á löggæslu í landinu. Og eftir því, hvernig hún stendur við þessa ákvörðun, fer dómur annara þjóða og seinni tíma manna, er kynna sjer sögu þjóðarinnar á þessum tímum. Það er óhætt að kveða svo að orði, að þó bannlögin sjeu fyrst og fremst mál, er snertir okkur sjálfa, þá sjeu þau jafnframt það af utanríkismálum okkar, er við verðum að gæta vel að, ekki síður en öðrum málum, er beint snerta viðskifti okkar og rjett gagnvart öðrum þjóðum. Um leið og bannlögin eru þannig einna þýðingarmesta atriðið í löggjöfinni um afstöðu þjóðarinnar út á við, hefir það mikla þýðingu og víðtæka fyrir þjóðina inn á við, hvernig hún framkvæmir þessa löggjöf. Það hlýtur að hafa mikil áhrif á sjálfsvirðingu okkar, hvernig við stöndum við þá yfirlýsingu, sem við gáfum, þegar bannlögin voru sett. Þar hvílir ábyrgðin ekki aðeins á þeim, sem voru meðmæltir löggjöfinni, og að hún yrði sett, heldur hvílir hún á öllum einstaklingum þjóðarinnar. Það hljóta allir að verða að viðurkenna, að þó þeir sjeu ósammála um ýms mál, þá sje þó það, er snertir heiður þjóðarinnar út á við og sjálfsvirðingu, sameiginlegt mál allra. Þegar um afstöðu gagnvart bannlögunum er að ræða, þá kemur ekki til greina, hvernig menn litu á þau í upphafi, eða hvort þeir töldu heppilegt, að þetta stóra spor væri stigið eða ekki. Aðalatriðið frá sjónarmiði þeirra, sem lögunum eru meðmæltir, og eins hinna, hlýtur að vera það, að þessum lögum beri að halda uppi og í heiðri, svo sem mest má verða. Það hefir einnig sýnt sig, að ýmsir, sem voru í fyrstu hikandi við að stíga þetta spor, hafa síðar orðið í röð bestu talsmanna bannlaganna. Sú afstaða byggist á því, að þeim er ljóst, að hjer er um svo mikilvæga löggjöf að ræða, er grípur svo djúpt í líf þjóðarinnar, að sje hún ekki í heiðri höfð, þá sje hætt virðingunni fyrir löggjöf landsins í heild sinni, og þá sje sú hætta yfirvofandi, að virðingarleysi fyrir lögum landsins fari í vöxt og margvísleg óáran, er af slíku leiðir.

Það hlýtur að vera áhugamál allra góðra Íslendinga, hvernig svo sem þeir hafa litið á lögin í upphafi, að framkvæmd þeirra geti orðið sem mest með þeim hætti, að auka og efla sjálfsvirðingu þjóðarinnar og trú á það, að unt sje að koma í framkvæmd hjer þeim málum, sem reyna á siðferðisþrek þjóðarinnar og mátt löggæslunnar til þess að halda uppi lögum og rjetti. En eins og kunnugt er, hafa bannlögin brugðist mjög vonum þeim, er fylgismenn þeirra og þingmenn þeir, er settu þau, gerðu sjer í upphafi. Ástandið er nú svo, að flestum er ljóst, að við svo búið megi ekki standa til lengdar. Einhver breyting verði að eiga sjer stað frá ástandinu, sem verið hefir undanfarið, þó menn greini á um það, hvaða leið skuli fara til að afmá þann blett, er fallið hefir á þjóðina með framkvæmd laganna. En þá er spurningin sú, hverja leið eigi að fara til þess að komast út úr því ástandi, sem nú er ríkjandi í þessu efni. Á seinni árum hafa heyrst sterkar raddir um það, að bannlögin sjeu búin að reyna sig og gagnvart þeim sje ekkert annað að gera en afnema þau algerlega. Mjer finst, þegar þess er gætt, er gerst hefir síðan bannlögin gengu í gildi, að það sje furðulegt, að þessi skoðun skuli hafa fengið slíkan byr, eða svo mikla áheyrn, sem raun er á.

Þegar litið er á framkvæmd bannlaganna, hygg jeg óhætt að slá því föstu, að íslenska þjóðin hafi ekki framkvæmt þau átök um vernd bannlaganna, er geti rjettlætt það, að menn gefi upp alla von um það, að þau nái tilgangi sínum. En fyr gæti þjóðin ekki gert sjer þann vansa, að afnema þessi lög, en það væri komið svo greinilega í ljós, sem mest má verða, að búið væri árangurslaust að þrautreyna hverja hugsanlega aðferð til þess að efla og vernda bannlögin í framkvæmdinni.

Það er vitanlegt, og mátti búast við því þegar í upphafi, að það mundi kosta langa og harða baráttu að koma framkvæmd þeirra í það horf, að þau gætu náð tilgangi sínum til fulls. Það var ekki nema eðlilegt, að svo hlyti að vera, og jeg tel meira að segja líklegt, að þeir, sem voru hvatamenn þess, að bannlögin komust á, hafi gert sjer það ljóst þá þegar í upphafi, en verið hinsvegar svo bjartsýnir og haft þá trú á áhuga- og siðgæðisþreki þjóðarinnar, að þeir hafi verið þess fullvissir, að sú barátta mundi enda með sigri. Þessi fáu ár, sem liðin eru síðan bannlögin gengu í gildi, eru ekki svo langur tími, að talist geti fullgildur prófsteinn á þau, eða rjettlætt, að þau verði afnumin í náinni framtíð. Einkum eru þau ekki nægileg, þar sem við getum sagt um sjálfa okkur, því miður, að við höfum ekki reynt til þrautar að vernda bannlögin svo og framkvæma samkvæmt tilgangi sínum, að það hafi getað komið fyllilega í ljós, að hve miklu leyti þau eru framkvæmanleg í raun og veru hjer hjá okkur Íslendingum.

Þar sem nú má slá því föstu, að sú skoðun, að bannlögin beri að afnema sem fyrst, eigi — jeg verð að segja — engan rjett á sjer, þá ætti það að skoðast sem sjálfsagt verkefni hinna þjóðkjörnu löggjafa á hverju einasta þingi að hafa glöggar gætur á, hvar stærstu veilurnar í framkvæmd bannlaganna sje að finna, og gera ráðstafanir til þess að ráða bót á þeim. Og því meiri hvöt ætti það að vera okkur löggjöfunum að gera þetta, sem fullyrða má, að mikill meiri hluti hinnar íslensku þjóðar geri til okkar kröfu í þessa átt. Og það, hve þessar kröfur eru háværar og víðtækar, sem láta til sín heyra um meiri alvöru og festu við framkvæmd bannlaganna, er því merkilegra sem mjög hefir verið prjedikuð nú á seinni árum sú skoðun fyrir fólki, að þessi lög væru óframkvæmanleg, og því bæri að afnema þau sem fyrst. Þær raddir, sem því hafa haldið fram, hafa á síðari árum gerst svo háværar, að þjóðin hefir mátt heita miklu fremur undir áhrifum þeirra en hinna, sem hafa haldið með bannlögunum. Einmitt þetta, að íslenska þjóðin heldur enn fullri trygð við bannlögin og hefir þrátt fyrir alt þá trú, að hægt sje að framkvæma þau, svo að gagni komi, sýnir, hversu mikil ítök þessi löggjöf á í þjóðinni sjálfri. Það sýnir, að hver sú viðleitni, sem gengur í þá átt að vernda þessa löggjöf, á vísan stuðning hjá meiri hluta þjóðarinnar. Það er enginn vafi á því, að þrátt fyrir útmálanir andbanninga, að ekki sje unt að framkvæma bannlögin, þá lítur þó mikill meiri hluti hinnar íslensku þjóðar svo á, að þar sem þau eru, sje um að ræða löggjöf, sem sett sje til að vernda og geti verndað það þrent, sem telja má, að sje mjög áhrifaríkt fyrir velferð þjóðarinnar á komandi tímum. Viðhald og framkvæmd bannlaganna er eitt hið stærsta fjárhagsmál þjóðarinnar. Það er hverjum heilvita manni ljóst, hversu háskalegt það er að eyða svo miklum fjármunum í áfengi sem raun ber vitni að altaf verður, þar sem áfengi er til sölu takmarkalaust. Í öðru lagi lítur hin íslenska þjóð á bannlögin sem eitt sitt stærsta sjálfstæðismál, og þess vegna mundi metnaður þjóðarinnar fyrir sjálfstæði sínu særður verða, ef bannlögin yrðu afnumin, og það má segja, að metnaður þjóðarinnar sje særður í hvert skifti sem þjóðin sjer mistök á framkvæmd bannlaganna. Í þriðja lagi er óhætt að segja, að mikill hluti þjóðarinnar lítur á bannlögin sem eitt stærsta atriðið í heilbrigðis- og siðferðismálum sínum og skoðar þau sett sem víggarð, hlaðinn til verndar heilbrigði og siðgæði þjóðarinnar. Þrátt fyrir öll mistök, bæði óhjákvæmileg og þau önnur, sem ef til vill má kenna löggæslunni um og þjóðinni sjálfri, þá er óneitanlegt, að bannlögin hafa víða hvar á okkar landi haft víðtæka þýðingu í þessu efni fyrir siðferðislíf manna.

Í mörgum hjeruðum landsins er það svo, að drykkjuskapur eða önnur spilling, er af honum leiðir, er þar ekki lengur til. Yfirleitt eru það einkum kaupstaðir og sjávarþorp, sem hafa af þessu að segja. En í sveitunum held jeg mjer sje óhætt að segja, að bannlögin hafi reynst svo sem vonast var eftir af hvata- og forgöngumönnum.

Jeg gat um það áðan, að sökum þess, hve bannlögin eru mikilvæg, og sökum þess, að íslenska þjóðin, eða mikill hluti hennar að minsta kosti, hefir enn fullan vilja á að halda í þau, þá er það skylda löggjafanna á hverju þingi að gera sem best þeir geta til þess að vernda þessa löggjöf og gera framkvæmd þeirra svo, að þau geti notið sín sem best. Einmitt með þetta fyrir augum er það, að jeg og hv. 2. þm. S.-M. (IP) höfum komið fram með þá þáltill., sem nú liggur fyrir til umr. hjer í dag í Sþ. Við flytjum þessa till. í þeirri föstu trú, að þau atriði, sem í henni felast, hafi svo alvarlega þýðingu fyrir framkvæmd bannlaganna, til þess að hjálpa þeim til að ná tilgangi sínum, að ekki sje afsakanlegt, að ekki verði gert alt, sem unt er, til að framkvæma það, sem við förum fram á í till.

Jeg vil þá víkja nokkrum orðum að sjálfri till., og rekja lið fyrir lið.

1. liður er áskorun til hæstv. ríkisstjórnar að verða sem fyrst við óskum þeirra bæjarstjórna, sem farið hafa fram á, að lögð yrði niður útsala vína hjá þeim í kaupstöðunum. Eins og kunnugt er, þá er útsala á vínum frá vínverslun ríkisins víst í öllum kaupstöðum landsins, auk Reykjavíkur. Í flestum þessara kaupstaða hefir verið borin fram almenn ósk um það, að slík útsala væri lögð niður, en bæjarbúar hafa ekki hingað til fengið því framgengt, heldur hefir verið neytt upp á þá verslun með vöru, sem þeir ekki vilja að sje á boðstólum. Það er ekki hægt annað að segja en að þetta fyrirkomulag, að neyða upp á bæi vöru, sem þeir vilja útrýma frá sjer, beri vott um kúgun, sem þessi bæjarfjelög verða fyrir af hálfu ríkisvaldsins. Og þessi kúgun, hverjar sem orsakir hennar eru, er einn ávöxturinn eða afleiðing af þeirri kúgun, er við Íslendingar urðum fyrir af hendi Spánverja, er við neyddumst til að rjúfa skarð í þann múrvegg, er bannlögin áttu að vera. Svo er víst, að þá er Spánarsamningarnir voru gerðir, mun meiri hluti þjóðarinnar, þótt sárnauðugur væri, hafa verið þeirrar skoðunar, að ekki væri annars kostur en láta undan síga kröfum Spánverja, vegna þess, hve öll okkar fjárhagsafkoma er mikið undir þeim komin. En hins hefir þjóðin þó vænst, að ekki væri hopað undan Spánverjum meira en nauðsyn rak til samvæmt viðskiftasamningi þeim, sem gerður var við þá. En það hefir að minsta kosti enginn upplýst enn frammi fyrir hinni íslensku þjóð, að þurft hafi að setja svo víða útsölustaði sem gert hefir verið.

Jeg hefi hjer fyrir framan mig þennan viðskiftasamning, sem leyfir Spánverjum innflutning spænskra vína, og þar er ekki einu orði á það minst, hversu margir útsölustaðir skuli vera hjer á landi. Ef einhver skilyrði um þetta atriði hafa verið sett frá hendi Spánverja, þá hafa þau að minsta kosti ekki komið fram í dagsljósið, og má það merkilegt og óforsvaranlegt heita. En þá er spurningin: hvers vegna hefir þetta verið gert, að setja svo víða útsölustaði á áfengi? Ef ekki eru til aðrir samningar við Spánverja um þetta efni en þessi, sem birtur er í Stjórnartíðindunum árið 1924, og svo mun heldur ekki vera, þá vil jeg segja það með öllu ófyrirgefanlegt af hinni íslensku ríkisstjórn að hafa gripið til þessa tiltækis. Að minsta kosti hefði mátt láta bíða að fjölga útsölustöðunum fram yfir einn, þangað til Spánverjar kæmu með kröfu um slíkt. En það verður ekki sjeð, að nein krafa hafi komið fram um það.

Mjer virðist því, hvað sem líður skaðsemi áfengisnautnar, að með óþarfri undanlátssemi hafi verið særður rjettmætur þjóðarmetnaður okkar Íslendinga. Mjer virðist hjer gengið inn á hina háskalegustu braut, sem jeg get hugsað mjer, þá braut, að hvenær sem erlend áhrif þrýsta okkur til þess að gera eitthvað, sem við ekki viljum, að ganga þá lengra í þá átt heldur en við nokkurntíma erum knúðir til.

Þar til frekari upplýsingar eru fyrir hendi, tel jeg, að hiklaust verði að halda því fram, að þetta hafi verið ófyrirgefanlegt glapræði. Hvað sem áfengismálinu sjálfu líður, vil jeg segja, að hjer hafi framið verið það brot gagnvart hinni íslensku þjóð, sem seint verði fyrirgefið og síst sæti á þeim að gera sig seka um, sem halda vilja fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar í heiðri út á við.

Jeg vil í sambandi við útsölustaðina vekja athygli á því, að eins og nú er hagað til um þá, höfum við að sumu leyti gengið lengra í þá átt að leyfa áfengissölu heldur en gert var meðan innflutningur var algerlega frjáls. Áður en bannlögin voru sett munu bæjarfjelög og sveitarfjelög hafa haft sjálfsákvörðunarrjett, hvort þau leyfðu hjá sjer áfengisverslun eða ekki, og nú mun vera útsala á áfengi á sumum stöðum, þar sem hún var ekki áður en bannlögin gengu í gildi.

Það hefir oft verið um það talað, og með rjettu, að fyrir Spánverjum hafi ekki vakað að fá hjer neinn verulegan markað eða útbreiðslu á vínum sínum, heldur aðeins að fylgja þeirri reglu, er þeir vilja framkvæma gagnvart viðskiftaþjóðum sínum, að þær leyfi innflutning á þeirra vöru. Því hefði líklega ekki þurft að stranda á Spánverjum, þótt farið hefði verið vægt í sakirnar og ekki gengið lengra í útbreiðslu áfengis en við beint vorum neyddir til samkv. orðalagi samningsins við þá.

Jeg vænti þess, að í umræðum um þessa till. fáist upplýsingar um það frá hæstv. stjórn, hvernig stendur á því, að hún hefir gengið svo langt í þá átt, að fjölga útsölustöðum á áfengi, og úr því ekki er minst á í Spánarsamningnum, hversu margir þeir skuli vera, hvað sje þá því til fyrirstöðu, að kaupstaðir, sem óska eftir að leggja niður vínsölu hjá sjer, fái þeirri ósk framgengt. Það verður ekki sjeð, að neitt sje því til fyrirstöðu. Og þjóðin á heimting á, að þessari ósk sje fullnægt, svo framarlega sem ekki er sannað skýrt og ótvírætt frammi fyrir alþjóð, að óframkvæmanlegt og óleyfilegt sje að fækka útsölustöðum víns frá því sem nú er.

Jeg læt nú útrætt um þennan fyrsta lið till. Jeg álít ekki þörf að tala frekar um hann, með því að hann mælir svo ljóst með sjer sjálfur.

Jeg kem þá að 2. lið till. okkar, um það að skora á ríkisstjórnina að leita nýrra samninga við Spánverja á bannlagagrundvelli. Það má e. t. v. segja, að það sje að berja höfðinu við steininn að fara fram á þetta, því að það sje fyrirfram vitað, að það sje ekki fáanlegt eða framkvæmanlegt. Til svars við slíku vil jeg segja það, að það mun vera svo með marga viðleitni manna og þjóða, sem mest kapp er lagt á að koma í framkvæmd, að útlitið er oft og tíðum ekki betra en svo í upphafi, að af mörgum, sem vantar áhuga fyrir málinu, er viðleitnin dæmd fyrirfram sem vonlaus og óframkvæmanleg. Og það, sem algerlega nægir til að rjettlæta það, að við Íslendingar höldum þessu máli vakandi, á þessum grundvelli, er ekki það, að það sjeu svo eða svo miklar líkur til, að við fáum þessu framgengt, heldur hitt, að við lítum svo á, að þetta sje svo mikið velferðar- og sjálfstæðismál, að við hvorki getum nje viljum láta það liggja kyrt.

Það má benda á svo margt úr sögu þjóðanna, og þá einnig úr sögu okkar þjóðar, um baráttu, sem af flestum var dæmd fyrirfram sem þýðingarlaus og vonlaus, en sem þó endaði að lokum annaðhvort með fullum sigri eða þá ávann þjóðinni samúð, bæði hjá samtíð sinni og eftirkomendunum.

Það eitt, að við erum beygðir undir ok Spánarsamninganna, álít jeg nóg tilefni til þess að vera altaf vakandi og leita eftir tækifæri til þess að semja við þá á þeim grundvelli, að við getum komið bannlögunum á hjá okkur eins og þau voru áður en samningarnir við Spánverja voru gerðir.

Jeg býst við, að það sje ekki svo lítill hluti þjóðarinnar, sem lítur svo á, að hjer sje um mjög mikilsvert mál að ræða, og að það sje skylda okkar að vaka yfir hverju tækifæri, sem kann að gefast um nýja samninga við Spánverja á þessum grundvelli, og leita eftir því, hvort slík tækifæri væru ekki finnanleg.

Jeg vil leyfa mjer að benda á það í þessu sambandi, að ekki alls fyrir löngu var mál hjer fyrir þinginu, sem telja má mjög hliðstætt þessu, að leita nýrra samninga við Spán á bannlagagrundvelli. Það mál var flutt hjer af hv. þm. Borgf. (PO), og var um það, að fá færða út hina íslensku landhelgi. Það mun mega segja um það mál, að það sje vonlítið fyrir okkur að leita samninga við önnur ríki um rýmkun landhelginnar. En þó munu flestir telja þetta í alla staði rjettmæta málaleitun, vegna þess, að hjer er um svo þýðingarmikið mál að ræða, og svo mikið í aðra hönd, ef þetta fengist, að það væri óafsakanlegt að hreyfa því ekki, jafnvel þó lítil von sje um framgang.

Jeg vil í þessu sambandi skjóta því fram, án þess jeg fullyrði neitt um það, hvort ekki væri hugsanlegt að komast að samningum við Spánverja með því að veita þeim einhverja ívilnun með aðra vöru en áfengið og fá í staðinn linun á ákvæðunum um það. Jeg hefi t. d. heyrt, að Finnar hafi gert slíka samninga viðvíkjandi innflutningi á ávöxtum. Jeg skal ekkert segja um það, hvort slík viðleitni mundi bera tilætlaðan árangur, en hitt get jeg fullyrt, að mikill hluti hinnar íslensku þjóðar ætlast til þess af okkur þm., að við sjeum vakandi í þessu máli, og hún mun ekki telja það eftir, þó nokkru fje væri varið til þess. Og íslenska þjóðin óskar að fá að sjá það í framkvæmdinni, hvort von er um, að við fáum nokkru framgengt í þessu efni. Slík framkvæmd eins og sú, sem hjer er farið fram á, mundi auðvitað líka óbeinlínis verða til þess að styrkja og efla baráttuna fyrir verndun bannlaganna. Því að það styrkir altaf baráttu einstaklinga og fjelaga að sjá, að löggjafarþing þjóðarinnar er vakandi í málinu.

Þá kem jeg að 3. lið till., um að skora á stjórnina að hlutast til um það, að hætt verði þegar í stað að lána vín út í áfengisverslun ríkisins.

Það er vitanlegt, að það er svo með allar vörur, að neysla þeirra eykst við það, ef þær eru lánaðar út, og vitanlega einkum ef það eru munaðarvörur. Að lána út slíkar vörur er því sama sem að gera ráðstafanir til að auka neyslu á þeim. Það er svo hjá okkur Íslendingum, því miður, að lánsverslun er ekki enn úr sögunni og verður ekki í nánustu framtíð, eins og högum vorum er nú komið. En þó ekki verði komist hjá henni sem stendur, þá munu allir líta á það sem böl, að hún skuli þurfa að eiga sjer stað. En vegna ástæðna, sem óþarft er að lýsa, verður ekki hjá henni komist.

En þegar um vöru er að ræða, sem engin brýn þörf er á að kaupa og menn komast miklu betur af með að vera án, þá er ekki ástæða til að láta lánsverslun eiga sjer stað.

Það mun vera talið, að nokkur hluti af áfengi því, sem vínverslunin lætur úti, sje nauðsynlegt, nefnilega til lækna og lyfjabúða, handa sjúklingum. Um það, hversu mikil þörf sje á þessu áfengi, hefir nú verið mikill ágreiningur, og einnig innan læknastjettarinnar, og það er eftirtektarvert, að fyrir utan það, að meðal leikmanna líta flestir svo á, að þörfin fyrir áfengi til lækninga sje lítil, þá líta allmargir merkir læknar á landinu svo á, að þörfin sje lítil eða engin. Á læknafundi norðanlands fyrir 2–3 árum var samþ. till. um að afnema hið svokallaða læknabrennivín.

Ef þessi skoðun læknafundarins fyrir norðan er rjett, þá er ekki sjáanlegt, að útlán þurfi að eiga sjer stað vegna lækna og lyfsala. Þörf þeirra er þá ekki svo mikil, að þeim sje vorkunn að greiða áfengi það, sem þeir þurfa, við móttöku þess. Það virðist því full ástæða til þess að gera undantekningu með áfengið frá öðrum lyfjum, að það sje ekki lánað út, þar sem það er kunnugt, að það er misnotað.

Mjer er ekki kunnugt, að hve miklu leyti lánin hafa gengið til lækna og lyfsala eða vegna sjúklinga, eða að hve miklu leyti til hinna annarra neytenda. En jeg verð að líta svo á, að þó það sje óþarft og jafnvel óafsakanlegt, eins og meðferð lækna hefir sýnt sig að vera á áfenginu, að þeim sje lánað, þá sje alveg óverjandi í landi, sem á að heita bannland, að efla útbreiðslu áfengis með því að lána það út til almennra viðskiftamanna.

Á síðasta landsreikningi, fyrir árið 1925, má sjá, að útistandandi skuldir vínverslunarinnar í lok ársins hafa verið 467 þús. kr. eða nærri hálf milj. kr. Endurskoðendur landsreikninganna hafa auðvitað vítt þetta, og hæstv. stjórn hefir lofað að taka þetta til athugunar og koma í veg fyrir, að þetta eigi sjer stað framvegis, og er gott að eiga þetta loforð hennar um það. En það verður aldrei of mikil áhersla á það lögð, að slíkt ætti aldrei framar að sjást í hinum íslenska landsreikningi. Við getum naumast hugsað okkur nokkurn lið, sem gæti verið óafsakanlegri eða setti meiri blett á landsreikninginn en þessi liður.

Með því að gera nú ráðstafanir til þess, að hætt verði að lána út áfengi, þá gerum við sjálfsagða og hæverska ráðstöfun til þess að ganga ekki lengra í þá átt, sem kúgun Spánverja neyddi okkur, en nauðsyn er til. En með útlánum og hinum mörgu útsölustöðum höfum við, þegar útlend þjóð hafði neytt aðstöðu sinnar til þess að láta okkur hopa aftur á bak frá okkar eigin lagasetningu og vilja, ótilkvaddir og að óþörfu hopað mörgum skrefum lengra. Og hvað sem öllum áfengismálum líður, þá er þetta svo mikill blettur á þjóðarheiðri okkar, að slíkur blettur hefir naumast á okkur komið fyr, og er óskandi, að ekki komi á okkur framar.

Það lofar ekki fögru um sjálfstæði okkar og þjóðarmetnað, ef mörg slík spor verða stigin aftur á bak, og það að óþörfu.

Þá kem jeg að 4. og síðasta lið till., um það, að skora á stjórnina að birta í lok hvers ársfjórðungs í Lögbirtingablaðinu nákvæma skýrslu um það, hve mikið áfengi hver lyfjabúð og læknir hefir fengið og látið úti á undangengnum þrem mánuðum, samkvæmt lyfseðlum eða á annan hátt.

Þegar jeg tala um þennan lið, kem jeg að efni, sem mjög hefir verið rætt síðan bannlögin gengu í gildi, en það er afstaða læknanna til áfengisins og áhrif þeirra á framkvæmd bannlaganna í landinu. Mjer er víst óhætt að segja, að íslenska þjóðin hefir skilið og kunnað að meta þýðingu læknastjettarinnar fyrir þjóðfjelagið; hún hefir sett sína bestu lækna í röð með sínum mætustu og ágætustu mönnum. Jeg gæti nefnt hjer mörg nöfn, en þess gerist ekki þörf.

Læknastjettin er sem sjálfstæð stjett tiltölulega ung í landinu, og það má segja, að þegar hin nýja læknakynslóð, sem svo hefir verið kölluð, kom til sögunnar fyrir hjer um bil 30 árum síðan, þá hafði hún farið glæsilega af stað og lofað miklu um það, hversu affarasæla þýðingu hún mundi hafa fyrir þjóðina. Jeg á hjer við það, þegar hinir ágætu læknar komu til sögunnar á síðasta áratug 19. aldarinnar og mynduðu svo að segja nýtt tímabil í sögu íslenskra heilbrigðismála. En áður en liðinn var hinn fyrsti aldarfjórðungur eftir að hin nýja læknakynslóð kom til sögunnar, þá hefir það skeð, að mikill blettur hefir fallið á hina íslensku læknastjett, að minsta kosti í augum mikils fjölda manna meðal þjóðarinnar.

Það er víða meðal þjóðarinnar litið svo á, að ýmsir læknar landsins sjeu hreinir og beinir vínsalar, veiti aðgang að víni, án þess það sje á nokkum hátt í þágu læknisstarfsemi þeirra, heldur til þess eins, að það sje misbrúkað á þann hátt, sem fer algerlega í bága við þær ráðstafanir, sem gerðar voru, þegar bannlögin voru sett. Jeg er ekki nægilega kunnugur þessu máli til þess, að jeg geti sagt um, hve mikill sannleikur er fólginn í þessu almenningsáliti. En jeg veit, að hann er nokkur, og vissulega of mikill. Jeg veit líka, að það eru til ýmsir læknar, sem ekki eiga þennan orðróm skilið, og þeim rennur til rifja sá blettur, sem fallinn er á læknastjettina út af þessu máli, og vildu fegnir, að ráðstafanir væru gerðar, sem orðið gætu til þess að afmá þann blett. Það hefir oft verið talað á þá leið, að rjettast væri að svifta læknana algerlega áfengi, og þetta hefir komist svo langt, að á læknafundi hefir slík tillaga einu sinni náð samþykki. Jeg skal ekki leggja dóm á það, hvort rjett væri að taka áfengið alveg af læknunum. Þó þykir mjer líklegt, að það mætti alveg að skaðlausu, því að fyrir því eru orð margra merkra lækna, að áfengi sje ekki nauðsynlegt til lækninga. Eins og við vitum, er mikil neysla áfengis í landinu umfram það, sem stafar af Spánarvínum. En hitt er ekki ljóst, hve mikið af þeirri neyslu stafar af ólöglegum innflutningi og bruggun, og hve mikið af svokölluðu læknabrennivíni. Þessi liður till. fer aðeins fram á, að upp sje tekinn sá siður, að gera skýrslur um áfengisnotkun lækna og lyfjabúða, en ekki að öðru leyti farið fram á að setja þeim aukið aðhald um notkun áfengis. Með þessu móti kæmi í ljós raunveruleg notkun hverrar lyfjabúðar og læknis á áfengi, skýi og óhrekjanlegur dómur um, við hve mikið almenningsálitið hefir að styðjast í þessu efni. Þegar þessar skýrslur kæmu út, gæti þjóðin sjálf dæmt um, hvort læknarnir ættu skilið þann orðróm, sem á þeim hvílir. Frá sjónarmiði þeirra lækna, sem á engan hátt misbrúka áfengið, væri slík ráðstöfun sem þessi mjög þýðingarmikil, því að hún bæri af þeim þann orðróm, sem á þá hefir fallið vegna aðgerða stjettarbræðra þeirra. Ef það kæmi í ljós, að áfengisnotkun lækna væri ekki um skör fram, þá væri mikið unnið, vegna þeirra, sem saklausir hafa orðið fyrir ámæli. Kæmi hinsvegar í ljós, að um misbrúkun væri að ræða, sæist, hvar sökin væri, og þá væri hægt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíka misbrúkun. Með þessu fyrirkomulagi ynnist m. a. það, að hægara væri að hafa eftirlit með því, hve mikið af áfengi því, sem notað er í landinu, stafar af ólöglegum innflutningi eða bruggun. Löggæslan á þessu sviði yrði þá hægari.

Jeg býst ekki við, að samþykt þessarar till. mundi valda gagngerðum umskiftum í bráð, að því er framkvæmd bannlaganna snertir. Jeg ætla þó, ef Alþingi gætti þess í hvert sinn, sem það kemur saman, að gera einhverjar slíkar ráðstafanir, að þá mundi framkvæmd þessara laga smám saman komast í betra horf en nú er. Það veltur á miklu, að löggjafar þjóðarinnar og löggæslumenn sjeu sem best vakandi og geri sitt til þess að nema burt þær orsakir, sem mestu valda um drykkjuskap í landinu og misbeitingu á framkvæmd bannlaganna.

Jeg sje ekki að svo stöddu ástæðu til að fjölyrða meira um þessar tillögur okkar, en leyfi mjer að vænta þess að Alþingi taki þeim vel og að menn geti orðið sammála um, að hjer sje mjög hóflega í sakirnar farið. Jeg vænti þess, að allir hv. þm. líti á það sem sjálfsagt metnaðarmál fyrir okkur að halda þessari löggjöf okkar sem annari í þeim heiðri, sem unt er. Jeg þykist mega staðhæfa, þó að jeg sje ekki og hafi aldrei verið í neinum fjelagsskap þeirra manna, sem hafa unnið að því að koma bannlögunum á eða útrýmingu áfengis, að mikill hluti íslensku þjóðarinnar geri í huga sínum þá kröfu til löggjafa sinna, að þeir sýni fulla alvöru í því að vernda og framkvæma löggjöf okkar í áfengismálinu. Jeg vil fullyrða, að sá áhugi, sem er ríkjandi meðal þjóðarinnar í þessu efni, eigi ekki rót sína í ofstækisfullum hugsunarhætti manna, sem líta aðeins á eina hlið málsins. Jeg vil fullyrða, að bæði meðal þeirra, sem starfað hafa að bindindis- og bannmálum, og fjölmargra hinna, sem utan við hafa staðið, sje ríkjandi sterkur áhugi fyrir því, að hin íslenska þjóð verði ekki fyrir þeirri niðurlægingu og smán, að sýna sig aðgerðalausa og gefast upp í þeirri sjálfstæðis- og siðgæðisbaráttu, sem háð hefir verið í þessu máli, Jeg er sannfærður um, að þó að þær raddir, sem hæst láta gegn bannlögunum, sjeu svo háværar, að meira beri á þeim en hinum, sem hvetja til verndar og eflingar á bannlögunum, þá muni meiri hluti og besti kjarni hinnar íslensku þjóðar standa öruggur og fastur á þeirri braut, að hrinda þessu mikla fjárhags-, sjálfstæðis-, heilbrigðis- og siðgæðismáli áleiðis, svo sem frekast er unt.