25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

71. mál, áfengisvarnir

Einar Jónsson:

*) Mig undrar ekki, þó að um þetta mál sje talað rækilega, þar sem flestum kemur saman um, að úrslit þess varði miklu fyrir alla þjóðina. En hitt undrar mig, þegar nýgræðingar þingsins gerast frsm. að einu eða öðru máli og taka sjer það fordæmi, að tala í tvo tíma um það, sem ekki er til annars en að tefja þingið. Það má segja á hálftíma, sem hv. flm. (JG) þurfti tvo tíma til að segja. Þetta er ekki þingmannlegt, og því síður prestlegt.

Jeg skal játa, að ræða hans var að ýmsu leyti skynsamleg. En jeg heyrði hann segja það, sem jeg býst ekki við, að allir sjeu honum sammála um, að engin lög hafi verið samþ., sem hafi verið betri og affarasælli en bannlögin. Um það atriði má mikið deila. Jeg er handviss um, að allir, sem samþyktu bannlögin, gerðu það í þeirri góðu trú, að þau hefðu þau áhrif, sem til var ætlast. En reynslan hefir orðið alt önnur. Jeg ætla ekki að fara að vitna í þau svörtu atriði, sem af þeim leiddi, en jeg játa, að best hefði verið, að trú manna hefði ræst. En ef vitnað er í öll þau lögbrot, sem af bannlögunum hefir leitt, má sjá það, að ef Goodtemplarareglan hefði verið ein um útrýmingu drykkjuskapar, þá hefðu menn eflaust drukkið minna „kogesprit“ og gert minna að því að brugga heima o. s. frv. Þetta kemur að vísu ekki málinu við, nema að því leyti, að hv. flm. (JG) nefndi þetta. Tillagan fjallar ekki um aðflutningsbannið út af fyrir sig, heldur ráðstafanir, sem gera skuli í sambandi við það.

Jeg skal lýsa yfir því, að mjer finst fyrsti liður till. þess eðlis, að erfitt sje að vera á móti honum. Það ófrelsi þoli jeg ekki, ef á að fara að troða upp á menn vínsölu.

Hina 3 liðina get jeg ekki fallist á. En tveir hv. ræðumenn á undan mjer hafa minst svo rækilegt á þá, að jeg hefi þar engu við að bæta. Sjerstaklega finst mjer hæpið að fara fram á að breyta samningnum við Spánverja, nema við höfum vissu fyrir því, að það verði okkur ekki til skaða. Jeg minnist þess, þegar samningurinn var gerður, hvað vakti fyrir mönnum, og bindindismönnum engu síður. Það var hagur landsins. Menn sáu, hvað mikið var í húfi, og gengu að samningnum.

Um 3. liðinn skal jeg taka það fram, að ef jeg fæ vínflösku, þá borga jeg hana, en jeg veit ekki, hvað hinir gera. Að öðru leyti get jeg fallist á rök hæstv., atvrh. viðvíkjandi læknum og lyfjabúðum. En 4. liðinn álít jeg í hæsta máta ósanngjarnan. Hver er fær um að dæma gerðir lækna í þessu efni? Þeim er oft legið á hálsi fyrir að misnota þessa heimild sína. En jeg hugsa, að flestir læknar noti áfengið í bestu meiningu, og það er áreiðanlegt, að ýmsir menn skilja ekki, að til eru menn, sem verða að fá áfengi eins og hvert annað lyf, til þess að þeir geti haldið heilsu. Jeg álít, að það sje hæpið að fella þann dóm í þessu tilfelli, að læknar geri alt annað en það, sem þeir eigi að gera. Jeg álít því, að „fanatiskir“ vínhatarar hafi hjer ekkert um að segja. Þeir eiga síst að dæma um gerðir þeirra manna, sem eru bæði lærðari og reyndari en þeir.

Jeg ætla ekki fremur nú en venjulega að halda langa ræðu til að gera grein fyrir atkvæði mínu. Aðeins vil jeg enn á ný geta þess, að jeg get ekki fallist á þrjá síðustu liði till. — Nú heyri jeg, að kirkjuklukkan slær fjögur, og þar sem jeg býst við, að hæstv. forseti vilji fresta fundinum, ætla jeg ekki að hafa þessi orð fleiri.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.