05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Hæstv. atvrh. (MG) hefir gefið einskonar fyrirheit um að verða við þeirri áskorun, sem felst í þessari þáltill., en á þann veg, að hann fái lengri reynslutíma til þess að ganga úr skugga um þörfina fyrir yfirsíldarmatsmann á Austurlandi. Hann vill þá ekki horfa í það, þótt landsmenn bíði öðru sinni, eins og næstliðið sumar, stórtjón vegna þess, að matsmenn vantar. Þetta er einkennileg hugulsemi, að miða við þær fáu krónur, sem ríkissjóði sparast, er landsmenn skaðast margfaldlega við ráðstöfunina, og get jeg ekki verið honum ógnar þakklátur fyrir þá hugulsemi. Hæstv. atvrh. (MG) benti á það til rjettlætingar gerðum sínum í þessu máli, að undanfarin ár hefði síldveiði verið svo lítil á Austfjörðum, að ekki tæki því að kosta sjerstakan mann til þess að hafa yfirmatsstarfið með höndum. En einmitt það sama hefir víðar skeð, t. d. á Vestfjörðum, að síld hefir brugðist, en enginn getur fyrirfram sjeð, hvenær svo verður áður fyrri var vorsíldargengd mikil á Austfjörðum, eins og líka næstliðið sumar. En það dró úr veiði, að fáir voru þá viðbúnir eða höfðu tæki til hennar. Þeir, sem öfluðu sjer þá tækja. þótt seint væri, urðu líka sumir fyrir því óhappi, að matið fór í handaskolum, þar sem ýmist vantaði matsmenn eða þeir voru verkinu óvanir. En þau atvik knýja fastast til þess að láta það ekki koma fyrir aftur.

Hæstv. atvrh. (MG) leggur mesta áhersluna á sparnaðinn, er hann telur þessari niðurfellingu starfans fylgja. Jeg var ekki að átelja þá sparnaðarviðleitni, heldur að kvarta yfir því, hve óheppilega hefði til tekist, að yfirmatsmanninn skyldi vanta, er mest lá við, og óska eftir því, að fyrirgirt yrði samskonar óhapp á næsta sumri. Það er alls ekki rjett hjá hæstv. atvrh. (MG), að það sje svo allsendis þýðingarlaust, hvort eystra er yfirsíldarmatsmaður eða ekki, því að þótt lítið hafi verið útflutt á þessu árabili, sem hann tiltók, þá hefir síldartollur af útflutningnum numið svo miklu, að ríkissjóður hefir grætt en ekki tapað á launum yfirsíldarmatsmannsins. Síldartollurinn er, eins og kunnugt er, á aðra kr. af tn. hverri, og þess vegna þar eystra á síðasta ári nálægt 12000 kr.

Þótt fyrirskipun um flokkun sílda standi ekki í lögum, eins og hæstv. atvrh. sagði, þá mæla yfirsíldarmatsmenn auðvitað fyrir um slíka hluti, eins og sjálfsagt er, og gefa undirmatsmönnum fyrirsagnir um það og annað. Það var af því, að þær fyrirsagnir vantaði næstliðið sumar eystra, að svo fór hjá undirmatsmönnunum, að síldin var ekki flokkuð; en annarsstaðar fórst matið fyrir með öllu, af því að matsmenn voru ekki til.

Jeg veit, að það er leyfilegt, eins og hæstv. atvrh. (MG) sagði, að salta síld, þótt ekki hafi matsmaður skoðað hana nýja. En það er einmitt afleiðingin af því, þegar matsmaður er ekki við höndina, að þeir, sem veiða og salta síldina um leið, vita ekki, hvernig þeir eiga með hana að fara, og skemma vöru sína óviljandi.

Mjer þótti furðuleg sú yfirlýsing hæstv. ráðh. (MG), að hinn setti matsmaður síðastliðið sumar hefði unnið kauplaust. Ef svo er — og jeg vil alls ekki neita því, að það sje rjett, þótt mjer virðist það ósennilegt — þá verð jeg að segja, að það er allsendis óvenjulegt, að menn taki þannig að sjer opinber aukastörf ólaunuð, og vissulega eiga þeir menn þakkir skilið, sem það gera og vinna slíkt í guðsþakkaskyni. En ekki verður sagt í þessu tilfelli, að starf hins setta matsmanns hafi borið að sama skapi góðan eða glæsilegan árangur sem sjálfsafneitunin virðist mikil hafa verið. Líklega hefði best komið sjer, að hann hefði aldrei sjest austanlands.

Samanburðurinn, sem hæstv. ráðh. (MG) gerði um sameiningu embætta í öðrum tilfellum, svo sem eins og þegar kennarar taka að sjer störf fyrir aðra, kemur hjer ekki til greina. Samlíkingin á ekki við. Þar getur ekki verið um að ræða fjárhagslegt tjón eða skaða, eins og leitt getur og leiddi af þessari hlálegu sameiningu norðan og austan, eða því, að ekki var settur maður á vettvangi, sem þekkingu hafði til þess að líta eftir síldarmatinu eystra. Jeg vil aðeins nefna það, út af skýrslu hæstv. atvrh. (MG) um síldarútflutning síðustu 10 ára frá Austurlandi, að jeg er viss um, að aflinn eða útflutningurinn hefði síðastliðið sumar orðið miklum mun meiri en hann varð — nær 10 þús. tn. —, ef ekki hefði þannig staðið á, sem fyr hefir frá skýrt verið. Margir hættu veiðum, af því að þá vantaði tunnur, salt og önnur skilyrði til þess að geta gert sjer síldina að vöru. Þeir, sem komu með veiðitæki, komu sumir of seint. Og ýmsir þeirra, sem vel veiddu, urðu í vanda með söluna, vegna misfellna matsins. Hefði maður verið á staðnum, sem hægt var að leita til, er svona stóð á, mundi veiðin hafa orðið að miklu meira gagni.

„Það má ekki búast við því, að yfirmatsmaður standi yfir söltun síldar“, sagði hæstv. ráðh. (MG). Nei, þess þarf ekki. Það er ekki tilgangurinn, að þeir komi á hvern stað, þar sem síld er söltuð. Það gera undirmatsmennirnir. En sumstaðar voru þeir ekki einu sinni til, og á öðrum stöðum voru þeir óvanir starfinu og höfðu enga forustu eða fyrirsagnir, eins og reynslan sýndi. Undantekning var þó um Reyðarfjörð. Þar var maður, sem hafði þekkingu og reynslu í þessum efnum, og þar fór líka á annan veg; þaðan seldist síldin greiðlega og vel.