05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (3564)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Björn Líndal:

*) Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) virðist hafa meiri trú á síldarmatinu en jeg, og vildi halda því fram, að það væri trygging þess, að kaupendur fengju ekki skemda vöru, en jeg get sagt hv. þm. (JÓl), að kaupendur kaupa vöruna ekkert frekar, þó þessi matsvottorð fylgi. En hitt er rjett hjá hv. þm. (JÓ), að gott nafn framleiðandans eða seljandans er aðalatriðið í þessu efni.

Því er nú þannig farið, að enda þótt síld sje góð, þegar hún er sett í tunnurnar, þá verður hún vond, ef hún er illa hirt eftir að söltunin hefir farið fram. En eftir þessu líta matsmennirnir alls ekki. Því er það alment álitið á Norðurlandi, að síldarmatið sje kák eitt, þó það hinsvegar kosti ærið fje. En auk þessa hafa margir undirmatsmenn ekki næga þekkingu á því, hvað er góð síld nje hvað sje áta í síld, en átan gerir hana ómögulega sem manneldisvöru. Það hefir komið fram, að á síðastliðnu sumri var mikið saltað af slíkri síld.

Þá er það annað, sem miklu varðar um gæði síldarinnar, en það er saltið. Mikið af síldinni skemmist, vegna þess, að saltið, sem notað er, er ekki nægilega gott. En þetta láta matsmennirnir sig engu skifta. Þannig er mat á nýrri síld gagnslaust.

Hv. flm. (SvÓ) veit, að það stendur fyrir dyrum að endurskoða matslögin, og mjer er kunnugt um það, að Norðlendingar vilja losna við undirmatið. Hið eina, sem missist við að leggja það niður, er, ef kaupanda og seljanda greinir á um það, hvort síld sje söltunarhæf eða ekki, að þá er hægt að láta matið skera úr um það.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.